NÝI MAÐURINN

Í gær var ráðinn sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra ungir maður sem heitir Gauti Geirsson.  Ráðning hans olli smávegis hristingi í fjölmiðlunum eins og gengur enda maðurinn aðeins 22 ára. En það var á samfélagsmiðlunum sem mér fannst keyra um þverbak í yfirlýsingum og dómhörku gagnvart þessari ráðningu og manninum sjálfum.  Ég veit ekki alveg hversu veldur en ég gæti trúað að ástæðunar væru tvær.  Skortur á skilningi á eðli starfsins sem pólitískir aðstoðarmenn ráðherrar eru ráðnir í og illgirni af einhverri sort.

Ráðherra ræður bara hverja hann velur sem aðstoðarfólk.  Hann gæti valið ömmu sína ef hann teldi það vænlegt.  það er ekkert sérstaklega trúverðugt en ef ráðherra telur það skipta máli þá gerir hann það bara.  Ábyrgðin er hans. Ef svo illa vill til að hann velur e-a kjána eða svikula plottara, þá situr ráðherra bara í súpunni.  Ábyrgðin er hans.

Pólitískt aðstoðarfólk ráðherra er ráðið til neins annars en að vera pólitískt. Það er pólitísk ráðning.  Viðkomandi vinnur að pólitískri stefnumótun, þétt upp við ráðherra.  Það er eðli starfsins að vera pólitískt.  Til að taka svo allan vafa af þessu, eru pólitískt aðstoðarfólk ráðið tímabundið og nýtur ekki sambærilegra kjara og réttinda og aðrir starfsmenn ráðuneytanna.

Þetta ER pólitísk ráðning og hún á að vera það.

Við erum hinsvegar öllu vanari þegar pólitík ræður för þegar skipað er í mikilvæg opinber embætti. Þegar fyrrverandi, og aðstoðar, og félagar og bestuvinir og hvernig sem tengslin kunna að fléttast, eru teknir fram yfir hæft og menntað fólk. Svona er gert til að hafa óeðlileg pólitísk áhrif á gangverk samfélagsins.  Þetta þekkum við öll og er hluti af einu stærsta meini samfélagsins. Mannaráðningarósómanum.  Samkvæmt nýlegri rannsókn er helmingur allra opinberra starfa á Íslandi ofurseldur þessu böli.  Mannaráðningarósóminn tryggir það sem kallað hefur verið óverðleikasamfélagið og skekkir allt heilbrigði með afgerandi hætti. Setur okkur í bakkgírinn og spillir einingu, skemmir trúverðugleika og helmingar heilindi.

Hafandi sagt þetta er Gauti Geirsson ekki ofurseldur mannaráðningarósómanum.  Málið sneri öðruvísi við ef hann yrði svo síðar valinn úr hópi færra umsækjenda í mikilvægt embætti í stjórnkerfinu.  Ef hann yrði t.d gerður að forstjóra Fjármálaeftirlitsins eða Fiskistofu, eða Veðurstofunni, eða Bankasýslunni, eða Lögreglunni eða hvað eina sem okkur dettur í hug.

En málið er bara öðruvísi.  Hérna er maður að byrja stjórnmálaferli þrátt fyrir ungan aldur.  Gauti er 22 ára og reynslulaus og kann ekki trixin og allt það,  en vonandi vopnaður von og vilja um að gera gagn.

 

-Hver vogar sér að rífa þennan mann í sig og steikja á pönnu samfélagsmiðlanna?

-Leyfið manninum að minsta kosti að gera mistök áður en hann er rifinn í sundur!

 

Það sem er svo leiðinlegt í þessu er að það í þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn fóru gersamlega á límingunum við nákvæmlega sama tilefni og þá sérstaklega Vigdís Hauksdóttir sem óð með súðum í yfirlýsingagleði og svikabrigslum.  Og ásetningarsteinn hennar voru einmitt pólitískar ráðningar, pólitískra aðstoðarmanna þáverandi ráðherra.

 

Nú er bara komið nóg af þessu rugli.  -Hættum að vera Vigdís Hauksdóttir.

Ég er viss um að Gauti Geirsson standi sig með prýði og óska honum heilla í nýja starfinu.

.

Site Footer