MÖLLER OG VINSÆLDAVEIÐARNAR

Bloggið hans Agnars Kristjáns Þorsteinssonar frá því í gær var með því besta sem ég hef séð í langan tíma.  Bloggið fjallaði um frétt sem birtist á stöð 2 þar sem gefið var í skyn að „eftirlitsiðnaðurinn“ væri að drepa suma geira atvinnulífsins og kræklingarækt nefnd þar sérstaklega til sögunnar. Fréttin var i þvílíkum dómsdags-stíl að Kristján Möller og einhver Sjálfstæðisþingmaður stigu upp í pontu á Alþingi og hneyksluðust yfir þessu.

Þetta var frábært dæmi um hversu fljótt sumir þingmenn stökkva á eitthvað málefni sem þeir telja álitlegt til vinsælda.  Hefði Möller t.d kannað – Bara smávegis – eitthvað um hvað málið snérist, hefði hann sennilega aldrei stokkið á vinsælu lestina í von um hrós. Nú ætla ég ekkert að bæta neinu við frábært blogg Agnars Kristjáns Þorsteinssonar en læt nægja að skelfisks-ræktun er mjög viðkvæm fyrir allskonar eitrunum.  Þegar haft er í huga að þessi tiltekni kræklingabóndi ætlaði að rækta 1000 tonn árlega (núverlandi ársframleiðsla  er 46 tonn) og framleiðslan sennilega öll ætluð til útflutnings, þarf að fylgja einhverjum reglum til þess að það sé yfirhöfuð mögulegt.

Ég gæti best haldið að til séu reglugerðir sem Íslendingar þurfa að fara eftir varðandi skelfisksrækt.  Ég held líka að sá skelfiskur sem fluttur er til Íslands sé framleiddur undir ströngu eftirliti. Sennilega sömu reglum og Íslenskir framleiðendur þurfa að fara eftir.  Sé haft í huga að Möller skuli skammast út í matvælaeftirlit og að helsta útflutningsgrein Íslands er matur, verður dæmið ennþá furðulegra. Hérna kemur fróðleiksmoli sem ég held að flestir Íslendingar þekki ágætlega:  Krækling þarf að sjóða vel, því annars getur hann verið eitraður.  Eftir því sem ég best  veit, er sá háttur hafður á, að þegar kræklingur er soðinn, er þeim skeljum hent sem ekki „opnast“ við suðu.  Það eru alltaf nokkrir kræklingar í hverju pottfylli sem er hent. Sætir það virkilega undrun að það sé eftirlit með skelfisskrækt?  Er Möller alveg standandi bit yfir því?

Ég googlað að gamni mínu orðin „kræklingur eitrun“ og fékk áhugaverða niðurstöðu. frá 2006 sem samin er af Matís.  þar kom t.d. þessi mynd fram.  Hún sýnir hvaða sjávarfang er hættast við eitrunum. Skelfiskur er langlíklegastur til þess að innihalda eitranir.  Nú væri gaman að vita hvað Möller finnst um „eftirlitsiðnaðinn“.  Getur verið að eftirlit í þessari áhættusömu matvælaframleiðslu eigi rétt á sér og sé jafnvel skiljanleg? Þetta dæmi með Stöð 2, Möller og eftiritsiðnaðinn, sýnir á einstakan hátt hvernig vond frétt, sett fram í annarlegum tilgangi, getur haft þau áhrif að þingmenn í vinsældaveiðum geta gert sjálfa sig að athlægi.  Dæmið sannar líka að eftirlitsiðnaður bloggsins er að virka.

Sem er frábært.

Site Footer