MJÓLKURSAMSALAN HUNSAR REGLUR

Í lok síðasta árs gengu í garð nýjar reglur um merkingar matvæla.  Þessar reglur eru til bóta og kemur í stað þriggja reglugerða sem áður giltu.

Í kjölfar þessa kom upp umræða um ástand þessa málaflokks á íslenskum matvörum.  Kastljós fjallaði um málið og gerði því góð skil.

Ég var viðmælandi þáttarins sem varaformaður Neytendasamtakanna og tjáði þá skoðun mína að almennt stæðu íslenskir matvælaframleiðendur sig vel og væru með á nótunum fyrir utan Mjólkursamsöluna.

Það er nokkuð bagalegt þar sem Mjólkursamsalan er stærsti matvælaframleiðandi landsins og framleiðir vörur af öllum stærðum og gerðum.

Það sem þótti mest ámælisvert í samhengi nýju reglanna var ruglingslegt ósamræmi sem einkenndi margar vörur Mjólkursamsölunnar. Stundum var talað um „súkrósa“ þegar átt var við sykur. Stundum var talað um „þar af ein og tvísykrur“ þegar átt var við viðbættan sykur og stundum var tiltekið magn náttúrulegs mjólkursykurs en sleppt að taka fram viðbættan sykur.

Það var meira að segja innra ósamræmi milli sömu vörutegunda.  Á sumum jógúrtdollum var aðeins talað um kolvetni en á öðrum jógúrttegundum var kolvetni klofið niður í sykrur, sykur, súkrósa og mjólkursykur.

Þetta var mjög ruglandi og þar sem við í Neytendasamtökunum höfðum tekið ljósmyndir af hundruðum vörutegunda með það fyrir augum að bera saman milli tímabila og sjá hvort matvælaframleiðslufyrirtækin hefðu breytt umbúðamerkingum í samræmi við nýju reglurnar, áttum við auðvelt með að sjá hvort reglunum væri framfylgt.

Það þarf varla að taka fram að ruglingsleg framsetning innihaldslýsinga og næringartaflna er beinlínis bönnuð í nýju reglunum sem gilda um merkingar matvæla

Á dögunum gerðum við litla „stikk-prufu“ og tókum fyrir eina þekktustu vöru Mjólkursamsölunnar, kókómjólk, en þar var upplýsingum verulega ábótavant og alls ekki samkvæmt nýsettum reglum.

Því miður þá er eins og Mjólkursamsalan hafi ekki tekið ábendingum um bættar upplýsingar því þótt að ljóst sé að nýjar umbúðir hafi verið prentaðar, þá er sami hringlandinn á þeim og fyrir voru.

Hérna er ljósmyndir sem tekin var í byrjun nóvember 2014 og í lok ágúst 2015.  Þær sýna að þrátt fyrir að uppskriftinni af kókómjólk hafi verið breytt, þá eru innihaldslýsing og næringargildi ekki samkvæmt þeim reglum sem gilda.

Það er mjög skrýtið en spennandi að sjá hvort Mjólkursamsalan sitji við sama keip næst þegar Neytendasamtökin gera stikkprufu.

Engin breyting þrátt fyrir nýjar reglur

 

Þessi ber auðvitað að geta að það er lítið mál að fara eftir nýju reglunum. Þær eru tiltölulega skýrar og illskiljanlegt hversvegna Mjólkursamsalan með alla sína frábæru starfsmenn, skuli ekki fara eftir þeim reglum sem gilda.

 

nringargildistafla
Svona eiga næringargildistöflur að líta út

 

Site Footer