MINNIMÁTTARKENND FORSETANS

Eftir því sem mér skilst, þá er aðeins einn maður sem hefur skilning á forsetaembættinu. Sem betur fer er það ekki einhver Dúddi Majónes, heldur forsetinn sjálfur. Ólafur Ragnar Grímsson. Ég er svolítið uggandi vegna þessa og þeirrar furðu-ákvörðunar sem hann tók fyrir svona ári síðan, að bjóða sig fram í fimmta skiptið.

Í fyrsta lagi á engin þjóð að sitja uppi með sama forsetann í 20 ár. Það er ruddalegt gagnvart lýðræðinu. Óheilbrigt og hrokafullt. Eftir því sem ég eldist, fæ ég alltaf sterkar á tilfinninguna að lykillinn af einhverskonar farsæld, er að þekkja sinn vitjunartíma og snúa sér að öðru þegar blikur lyftast.

En það er annað sem böggar mig.

Forsetinn hefur verið drjúgur að halda í frammi einhverskonar furðu-þvælu um yfirburði Íslendinga umfram aðrar þjóðir. Árétta einhverja sérstöðu okkar og ofurkosti. Lágpunktur þessarar áráttu var þegar forsetinn renndi rökum undir þá skoðun sína að árangur íslenskra bankamanna væri í genetískur því að Íslendingar búa við válynd veður og þurfa að vera tilbúnir að laga sig að óvæntum aðstæðum hvenær sem er. Ég held að ég hafi aldrei skammast mín jafn mikið á ævinni fyrir að vera Íslendingur þegar hann sagði þetta. Þetta var í raun ekkert annað en kynþáttahyggja, sem blinduð var með peningaglýju.
-Alltaf þetta „við erum best í heimi“ sem er svo óþolandi.

Þegar bankakerfið hrundi og tiltektin eftir samfélagsfræðitilraun Sjálfstæðisflokksins var byrjuð að bera árangur kom forsetinn en fram og sagði einhversstaðar að Íslendingar væru svo frábærir að Íslendingar væru best í heimi að taka til eftir efnahagshrun og samfélagsfræðitilraunir frjálshyggjunnar. Enn og aftur best í heimi – eitthvað.

Fyrst best í heimi að eyðileggja samfélag og svo best í heimi að byggja það upp! Hérna skapast færi fyrir allskonar túlkunarfræðinga að kafa ofan í þessa furðu-skoðun forsetans.

Núna á dögunum var haldin einhver internet-ráðstefna og þar var Ólafur Ragnar í „gírnum“. Hélt því fram fyrir framan fullan sal af fólki að Íslendingar væri bestir í heimni að skipuleggja mótmæli gegn spilltum ríkisstjórnum og koma þeim frá. Tók sem dæmi að „arabíska vorið“ hefði verið framkvæmt á Íslandi fyrir 3 árum.

Hérna kemur hugleiðing sem vert er að skoða. Hvað er eiginlega að forsetanum? Hver segir svona? Ef að einhver hagaði sér svona í fjölskylduboðum væri hann umsvifalaust flissaður niður, klappað á axlirnar og sagt að sleppa sér í brauðtertuna. Er til læknisfræðileg greining á þetta ástand? Sá sem getur ekki opnað munninn án þess að stilla heiminum upp í „best – verst“ er fullkomnlega óþolandi. Um þetta eru sennilega flestir sammála.

Hugleiðum aðeins: Hvaða gildi hefur þetta „við erum best í heimi“? Hvað hefur þessi hugmynd fært okkur? Er hún til gagns? Hverju skilar hún? -Spyrjum okkur að því.

Hérna er önnur hugleiðing sem vert er að skoða. Sá sem raunverulega er bestur í einhverju. Sá sem raunverulega var fyrstur með eitthvað, gerir hann ekki lítið úr sjálfum sér með að berja sér sífellt á brjóst og stæra sig af því hversu framúrskarandi hann sér? Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi er dýrkaður og dáður vegna þess að hann er snillingur. . og laus við stærilæti.

Hérna er komið lykilatriði sem mér finnst alltaf vega þungt þegar kemur að hugleiðingum um forsetaembættið. Mér finnst að forseti skuli vera auðmjúkur. Auðmjúkur gagnvart valdinu sem hann fær að láni og auðmjúkur gagnvart öðru fólki í ræðu og riti. Einhver sem er ekki að stæra Ísland, heldur einhver sem kemur fram við aðra af auðmýkt.

Halldór Laxness sagði:

„Því var nýlega haldið fram í mín eyru af gáfaðri íslenskri konu, sem hafði leingi dvalist erlendis, að við íslendingar mundum vera með afbrigðum sjálfhælin þjóð og sjúklegir skrumarar…jafnvel rugl galinna manna, er blásið út hér heimafyrir með barnalegri frekju sem sönnun þess að vér hljótum að skara frammúr öðru fólki og séum snjöllum snallari. Sjálfhælni og þjóðargort á hinsvegar ekkert skylt við ættjarðarást, en er aðeins ytraborðið á innri sannfæríngu manns um að hann sé aumíngi.“ (Halldór Laxness 1939, Vettvángur dagsins, bls. 219-20)

Ég held að þarna, eins og oft áður hafi Halldór hitt naglann á höfuðið. Sjálfhælni og þjóðargort á ekkert skylt við ættjarðarást. Sjálfhælni og þjóðargort er birtingarmynd á minnimáttarkennd.

Site Footer