LÆKNIR MEÐ KRABBAMEIN

Það kom fyrir nokkrum misserum síðan fréttaskýring í GP sem vakti þjóðarathygli.  Læknir á besta aldri fékk krabbamein og lá banaleguna. Hann fékk verstu tegund krabbameins sem dró hann á nokkrum mánuðum frá því að skera upp sjúklinga og yfir í það hlutskipti að vera sá sem skorið var í.  Mjög sorgleg saga og lesendur fengu innsýn inn i huga mjög einbeitts læknis sem var alltaf að vinna þótt líkaminn væri ónýtur. 

Þar sem hann lá og beið dauðans, tók hann eftir að ræstifólkið kom ekki á sama tíma og notaðist við venjulegar sápur og þessháttar.  Þessi læknir fattaði að stofan sem hann lá í var ekki ræstuð almennilega.  Hann staulaðist á lappir og strauk ofan á hurðarlista, undir rúmið sem hann lá í, bakvið snúrur og dósir. Hann sá að þetta var allt skítugt og ekki heilnæmt og fyrir veikt fólk.

Þessi ágæti læknir eyddi síðustu dögunum í lífinu sínu að skrifa litla skýrslu til yfirstjórnar spítalans sem hann sjálfur vann á alla starfsævina.  Skýrslan vakti mikla athygli og umtal.  Í henni var vakin athygli á því að hreinsunar-teymið var ekki hluti af teyminu á spítalanum, heldur eitthvað fólk út í bæ (sem talaði sjaldnast sænsku) rauk inn og út og komi svo aftur eftir einhverju plani sem hafði verið skrifað um áramótin.   Það var búið að slíta frá mjög veigamikinn þátt frá starfsemi sjúkradeildarinnar.  Fólkið sem vann störfin hafði greinilega engan metnað í því að standa sig, enda tilgangslaust því enginn fylgdist með eða hrósaði fyrir vel unnin stöf.  Ekkert klapp á bakið eða vinnustaðapartí.  Ekkert jólakort, ekkert „góðan daginn“ og ekkert slúður yfir kaffibolla.  „Firring vinnunnar“ hefði Marx sagt.

Saga þessa læknis vakti upp margar spuringar:  Það má alveg spyrja sig hvort gamla lagið þegar ræstifólkið var hluti af teyminu, væri ekki betra en það að „outsorce-a“ þessu mikilvæga starfi?  Væri það svo mikið dýrara? Væri það hugsanlega ódýrara?  Hvað sparast, ef það sparast eitthvað?  Hverju er spítalinn bættur, ef að verkin sem á að vinna, eru ekki gerð almennilega?  Getur verið að „oursorce-ið“ sé orðið markmið í sjálfu sér, og þjóni engum tilgangi fyrir samfélagið?

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að spara í vissum tilfellum.  Þegar fólk kaupir sér rúm ætti það ekki að horfa í aurinn heldur gæðin og endinguna.  Sama ætti að gilda um umönnun sjúkra og aldraðara.  Samfélagið á ekki að einblína á sparnað í þessum grunnþáttum. Gera hlutina vel og skynsamlega.  Eftir að það hefur verið tryggt, ætti að athuga með sparnað.

Það er alveg hægt.  Enginn vandi.

Site Footer