Lausn á eiturlyfjavandanum?

Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins ritar tímabæran leiðara s.l sunnudag. Þar veltir hann fyrir sér þeirri hugmynd að gefa dópistum dópið sitt og líta á þá sem sjúklinga en ekki glæpamenn. Þótt hugleiðing Jóns sé góð þá er hún ekki ný á nálinni. Í Zurich í Sviss var heróínfaraldur sem yfirvöld höfðu enga stjórn á. Dópistum fjölgaði ár frá ári og miðborg Zurich, þessarar fögru borgar, var undirlögð af fársjúkum dópistum með tilheyrandi sóðaskap, vændi og glæpum. Yfirvöld voru búin að prófa allar leiðir og voru uppiskroppa með hugmyndir til þess að stemma stigu við þessari óheillaþróun.

Þeir ákváðu því að prófa eitthvað nýtt. Svislendingar ákváðu að líta á dópista sem sjúklinga en ekki sem glæpamenn. Lög gegn eiturlyfjum voru milduð til muna og farið var að meðhöndla þetta ógæfufólk sem heilbrigðisvandamál. Hjá þeim einstaklingum þar sem allar aðferðir höfðu verið prófaðar var ákveðið að ríkið skaffaði þeim dópið gegn framvísun læknisvottorðs. Komið var á fót sérstökum miðstöðvum þar sem dópistar gátu sprautað sig með nýjum nálum með eða án aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks. Þessi nýja nálgun á dópvandamálið varð til þess að dýrðarljóminn fór af neyslunni. Glæpum tengdir dópistum fækkaði verulega og ímynd dópsins breyttist úr því að vera glansmynd uppreisnar og yfir í það að vera sjúkdómur. Heróín (sem var aðaldópið) fékk á sig ímynd ”Looser drug”. Árið 1990 fjölgaði dópistum um 850 á ári. . Rúmum áratug síðar (eftir að mildu dóplögin voru sett) voru nýjir neytendur 150 á ári. Fækkun dópista frá því að lögunum var breytt var um 4% á ári. Með því að gefa dópið, tókst yfirvöldum að ná sambandi við dópistana og auðveldara var að fá þá í meðhöndlun og dópistar sem vildu ekki hætta eða gátu ekki hætt, urðu stabílli í neyslu sinni. Allt eftirlit með HIV eða lifrarbólgusmiti varð skilvirkara. Það sem gerðist einnig í kjölfarið var að heil stétt eiturlyfjasala hvarf eins og dögg fyrir sólu enda gátu eiturbyrlararnir ekki keppt við ókeypis dóp, sem var laust við eitruð útþynningarefni á borð við rottueitur. Færri dópistar, færri dópsalar, færri nyjir neytendur. -Þetta virkar! Mér sýnist ástandið í Reykjavík vera áþekkt og í Zurich árið 1991. Dópistum fjölgar geigvænlega með tilheyrandi kostnaði, beinum eða óbeinum. Allar leiðir til úrlausnar hafa reynst gagnslausar. Mörgum er í fersku minni átakið ”Eiturlyfjalaust Ísland” árið 2000. Það er leitun af gagnslausar félagslegu átaki og sýnir vel hversu taktlaus yfirvöld geta verið þegar þarf að takast á við erfið vandamál. Lög eiga að endurspegla veruleikann eins og hann er en ekki eins og hann ætti að vera. Launirnar eiga einnig að miðast við ástandið eins og það er en ekki að vera kosningaloforðabelgingur, úr tengslum við allan verueika nema þann sem býr í huga misvitra stjórmálamanna. -Frábært hjá Jóni Kaldal að koma þessu í umræðuna.

Site Footer