KRÓNAN LÆTUR FRAMLEIÐA OST Í HOLLANDI

Mér finnst gaman að versla.  Ég versla oftast í Krónunni út á Granda og það er mjög fín búð. Það er oftast frekar tíðindalítið en um daginn rakst ég á danska síld sem var töluvert ódýrari en sú sem er framleidd hérlendis.  Mér fannst það svolítið merkilegt.  En það sem var eiginlega merkilegra var að ég rakst á gouda-ost sem er framleiddur í Hollandi fyrir Krónuna.

Ég keypti hann ekki í þetta skiptið en mun pottþétt versla einn pakka áður en langt um líður. Mér sýnist þessi krónu-gouda-ostur vera mun ódýrari en íslenskur gouda-0stur.  Kílóverð á þessum var 1698 krónur en áþekkur ostur frá MS (en óniðursneyddur) kostar 2067 krónur.

IMG_20150823_200538

Ég vona svo sannarlega að þessi ostur verði á boðstólnum lengur því allur osta-innflutningur er mjög afgirtur og háður miklum leyfum sem Mjólkursamsalan ræður að mestu leyti.

Því miður er það svo að kynslóðum Íslendinga hefur verið talin trú  um að matur í útlöndum sé eitraður og skemmst er að minnast furðuræðu forsætisráðherra þar sem hann sagði allan erlendan mat innihalda einhverja veiru sem gæti breytt hegðun fólks.

Ég vona líka að þessi hræðslumúr sem hlaðinn hefur verið upp af innlendum ostaframleiðendum brotni nú bráðlega.

Hollenskur ostur, framleiddur fyrir Krónuna er ákveðið merki um að orðrómur fortíðar um hinn eitraða útlenska mat sé að hjóðna.

Site Footer