KÖGUN. UPPHAFIÐ OG SKÝRSKOTUNIN

Eftir að Gunnaugur M Sigmundsson stefndi mér vegna bloggfærslu um Kögunarmálið, hef ég sökkt mér ofan í það af fullum krafti.  Ég er svo heppin að þetta mál er unnt að rannsaka all-gaumgæfilega gegnum internetið.  Fyrirbæri það sem kallast „Google“ er afar þarft í þessum erindagjörðum og hefur stoðað mig óskaplega.  Einnig eru flest allir prentmiðar landsins aðgengilegir á hinni stórkostlegu síðu, Tímarit.is.  Greinasafn Morgunblaðsins er fullt af efni um Kögunarmálið og ber blaðamennsku á Mogganum fagurt vitni.

Ég hef einnig fundið fyrstu blaðagreinina um þetta mál sem síðar átti að verða talsvert hitamál og mikið stærra mál er í fljótu bragði sýnist..  Það var í Vestfirska fréttablaðinu þann 8. mars 1995 sem að birtist beinskeytt grein um Kögun, Gunnlaug M Sigmundsson og þá staðreynd að hann var hvort í senn framkvæmdastjóri Þróunarfélags íslands og framkvæmdastjóri Kögunar sem var eign Þróunarfélags Íslands.

Mynd:  Vestfirska fréttablaðið

Hérna er greinin í fullri upplausn  Hérna er blaðsíða 2 og hérna er blaðsíða 3

Það er var því alveg ljóst frá árinu 1995 að aðkoma Gunnlaugs M Sigmundssonar að fyrirtækinu Kögun sem var í meirihlutaeigu Þróunarfélags Íslands vakti ekkert sérktaklega jákvæð viðbrögð. Framsóknarmenn á Vestfjörðum voru heldur ekkert allir sáttir við Gunnlaug og þeim meðölum sem hann beitti til þess að næla sér í þingsæti.  Kögun var kynnt sem einskonar fjölskyldufyrirtæki í umhverfi „þar sem samkeppni er mikil“.  Þetta er hrakið nokkuð háðuglega í grein Vestfirska og einfaldlega sagt frá því að Kögun væri einokunarfyrirtæki og að eini viðskiptavinur Kögunar var Nato.

Nokkrum vikum síðar, eða 11. maí 1995, birti Helgarpósturinn forsíðufrétt um Kögunarmálið og frétt um málið.  Þetta blað hefur verið aðgengilegt á Timarit.is frá upphafi og á íslensku útgáfunni af Wikipedia.  En þar er linkað á þessa grein ásamt annari grein sem birtist viku síðar í Helgarpóstinum.

Málinu fylgt eftir í vikunni á eftir.

Það sem slær mig við lestur þessara frétta er að fréttirnar eru ítarlegar, fréttaefnið afmarkað.  Þær eru á mannamáli og eru tilraunir góðra blaðamanna að gera skyldu sína gangvart lesendum sínum og samfélaginu.  Ég skil ekki hversvegna þetta mál fór ekki á flug á þessum tíma.  Auðvitað var enginn einasti áhugi innan „kerfisins“ að gera nokkurn skapaðan hlut.

-Þetta átti bara að vera svona.

Það var ekki fyrr en þremur árum seinna að Kögunarmáið springur í loft upp og þá vegna tímamótagreinar Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu.  Þá mátti engu muna að kögunarnheykslið hefði orðið að fyrsta sigri fjölmiðlanna gegn skiptakerfi flokkakerfisins.

Nú hefur Gunnlaugur stefnt mér fyrir að fjalla um þetta mál og satt best að segja þá veit ég ekki hvort við höfum þokast eitthvað áfram frá árinu 1995 ef að mark verður tekið á þessari stefnu.  Ég eiginlega get ekki hugsað þá hugsun til enda ef að miljarðamæringar fari í mál við fólk sem vogar sér að fjalla um
vafasama viðskiptahætti fyrri tíma.

Hvers virði er eiginlega slíkt samfélag?

Má tala um „einkavæðingu“ Síldarversmiðu ríkisins, sem var rumpað af og lægsta tilboði náttúrulega tekið.  Má fjalla um það mál?  Má fjalla um að nýbakaðir eigendur Síldarverksmiðjunnar greiddu sér arð úr úr fyrirtækinu nokkrum dögum síðar sem dugði fyrir kaupverðinu?  Má tala um þetta eða verð ég kærður af einhverjum geðvondum miljarðamæringi með slæma samvisku?

Svo er það skírskotuninn í samtímann okkar.

Sama þvælan er í gangi ákkúrat núna.  Ráðgjafafyrirrtækið Arctica Finance er báðumegin við borðið varðandi söluna á Byr.  Jónas neglir þetta eins og svo oft áður. Er þetta Artica Finance og aðkoma þess að sölunni á Byr, Kögunarmál minnar kynslóðar?

Mætti ég afþakka slíkt þakka ykkur fyrir.

Mætti ég einnig afþakka samfélag eftir 20 ár þegar einhver geðvondur innstikoppur úr Skilanefnd Byrs fer í mál við bloggara vegna þess að hann vogaði sér að fjalla um málið.

Samantekt:
Þetta er  1. greinin. —   2 greinin. — 3 greinin. —  4. greinin. —  5 greinin —   6 greinin.

 

Site Footer