KJÖRBORG OG BADBOY CHARLIE

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera kynnir á Skjaldborgarhátiðinni 2008 sem er haldin á Patreksfirði. Á einn helgi sá ég 35 heimildamyndir, flestar nýjar og margar hverjar alveg ógleymanlegar. Tvær myndir stóðu uppúr að þessu sinni. Það var verðlaunamyndin Kjötborg eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur. Þar er á ferðinni hugljúf mynd um yndilslega búð á Ásvallagötu og mannlífið í kringum búiðina, kaupmennina sjálfa og viðskiptavini hennar. Stundum er það svo að þegar allt vinnur saman, efniviður og úrvinnlsa þá verður til galdur. Þeim Helgu og Huldu að ógleymdum klipparanum, Stefaníu Thors, hefur tekist að búa til bestu heimildamynd sem gerð hefur verið á Íslandi. Stór orð. Ég veit en þið munið vera sammála mér um leið og þið sjáið myndina.

Húrra fyrir Kjörborg og aðstandendum hennar.

Hin myndin sem vakti ekki síður athygli var myndin Bad Boy Charlie eftir Hauk Karlsson. Þarna er á ferðinni einhver skemmtilegasta mynd sem ég hef séð. Efni myndarinnar eru svo yfirgenginlega furðulegt að manni hreinlega skortir orð til að lýsa því. Mér dettur einna helst í hug klysjan um að stundum er veruleikinn fáránlegri en nokkurt skáld geti þrykkt á hnappaborð. Það er nánast sama hvar drepið er niður. Maður stendur gapandi yfir veruleika Charlies og vini hans. Maður á ekki til eitt einasta orð og þess vegna er þessi heimildamynd svo frábær. Hún lýsir nefnilega veruleika sem er ólýsanlegur nema í heimildamyndaforminu. Þótt að Kjötborg hafi unnið áhorfendaverðlaunin þá rennur mér í grun að mjótt hafi verið á mununum milli þessara tveggja mynda. Ég hef það á tilfinningunni að Bad Boy Charlie muni komast á spjöld Íslandssögunnar fyrir allskonar tilverknaði. Myndin er sannkölluð bomba og á hiklaust erindi í Bíó.

Skjaldborgarhátíðin 2008 heppnaðist frábærlega í alla staði og ég þreytist ekki á að mæra aðstandendur Skjaldborgar, þá Hálfdán Pedersen, Huldar Breiðfjörð og Geir Gestsson (ég vona að ég gleymi ekki neinum) Fleiri lögðu að sjálfsögðu hönd á plóginn. Íbúar Patreksfjarðar náttúrulega allir, Lionsklúbburinn á staðnum, vertar og fleiri og fleiri. Þarna gefst fágætt tækifæri á að hitta á einum stað skapandi, skemmtilegt og frábært fólk í einhverju skemmtilegasta plássi á Íslandi. Horfa á heimildamyndir og hafa það gott.

2 comments On KJÖRBORG OG BADBOY CHARLIE

  • Patró er ekki beisið en Bíldudalur er pleisið. Hefði sent þig yfir í Arnarfjörðinn í Vegamótaborgara hefði ég vitað af þér vestra.
    kveðja
    Bjarni frá Bíldó.

  • Ég hef því miður aldrei komið til Bíldudals. Hann hljómar alltaf spennandi. Hver er þessi bílda sem dalurinn er kenndur við. Ég veit ekkert hvað bílda er.

    -Veit einhver svarið?

Comments are closed.

Site Footer