JÓI Í GÖNGUNUM

í þessu bloggi hef ég stundum skrifað um veggjalist eða graffití.  Ég hef eins og fleiri af minni kynslóð séð þetta listform vaxa og dafna og núna er það hluti af umhverfinu okkar án þess þó að við tökum sérstaklega eftir því.  Það er hinsvegar svolítið erfitt að hugsa okkur reykjavík án veggjalistar.

Veggjalist er frábær að því leiti að vettvangur hennar er oft svæði sem eru leiðinleg og ljót.  Flatur og leiðinlegur gafl getur breyst í bæjarprýði þegar graffití kemur til sögunnar.

Eins og álfadrottningin í Öskubusku sem breytti rottum í hvíta hesta og graskeri í hestvagn. Þannig breytir veggjalist hinu ljóta og þurra í safaríka melónu og fjórum flugum í haferni og x-vængjur.  Öskubuskan þessi er reyndar ekki með töfrasprota heldur spraybrúsa.

sem er bara svalt.

Saga þessa listforms er ekki löng. Ég myndi halda að upp úr 1989 eða þar um bil hafi hlutirnir farið af stað.  Í upphafi var veggjakrotið tengt hip hopinu og brake-inu og öllu því góðgæti.  Ég man eftir vegg við slippinn sem var með stórri flottri mynd.  Félagi minn Gotti Bernhöft átti heiðurinn af henni ásamt einhverjum fleirum. „Summer of love“ minnir mig að hafi staðið með ofurflottu letri.

Einn af fyrstu (og bestu) stöðunum til að graffa eru undirgöng við Klambratún. Þar var pláss, þar var friður fyrir áreitni og veðri og vindum.  Reykvískir graffarar stunduðu að skreyta þessa veggi og umsjónarmaður ganganna, var/ er Jóhann Jónmundsson.

7888c099175f9fd677fa78002b53ee80

Jóhann hafði nógu mikla innsýn inn í tilveruna að fatta að þetta var ekki krot og krass heldur merkileg tjáning.  Hann tók reglulega ljósmyndir af myndunum sem fóru á gangaveggina og safnaði í albúm.  Afleiðingin af þessu er að til er tiltölulega nákvæm heimild um það hvernig reykvísk veggjalistamenning frá upphafi.

Þetta er stórmerkilegt og sjálfsagt einstakt í heimssögunni svo ég bregði fyrir mér heimsmetaáráttu eins sem vinnur á Alþingi.

Nú er í bígerð að gera heimildamynd um þennan merkilega mann og andartakið í íslenskri listasögu sem hann frysti með litlu myndavélinni sinni.  Myndin á að heita „Jói í göngunum“ og söfnun er hafin á Karolina fund.  Ég hvet alla sem unna veggjalist að styrkja þetta verkefni.  https://www.karolinafund.com/project/view/1052

Höfum í huga að svona mynd er ekki bara heimild um merkilegan mann og skemmtilegan tíma.  Svona mynd er líka ástarjátning til lífsins og sköpunarinnar. Hún er ákall inn í framtíðina sem segir með stolti og heitu hjarta…

-Þetta gerðum við.

-Þetta erum við.

 

Site Footer