ÞJÓÐERNISSTEFNA OG FJÖLMIÐLAR

„Yet our best trained, best educated, best equipped, best
prepared troops refuse to fight! Matter of fact, it’s safe to say that
they would rather switch than fight!“
 

-Martin Luther King Jr.

Það er svolítið kjánalegt að viðurkenna það á prenti, að hafa fengið menningarsjokk í Svíþjóð á gamalsaldri. Það gerðist nefnilega fyrir mig.  Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég flutti hingað, var sú staðreynd að fréttirnar hérna eru allt öðruvísi.  Efnistökin eru önnur.  Þær eru lengri og ítarlegri. Fréttamennirnir láta viðmælendur sínar svara spurningunum og ef þeir reyna að svara út í hött, þá er það fyrsta fréttin það kvöldið.  Stjórnmálamaður sem svarar spurningu þess efnis „að það rigni sandi“  (videó) einhversstaðar er annaðhvort sinnisveikur, undir áhrifum vímugjafa, eða
hefur eitthvað að fela.

-Allt þetta þrennt er fréttnæmt.

Reyndar er ég ekki sá eini sem hefur orðið orðlaus yfir fréttamennskunni hérna í Svíþjóð.  Drífa Snædal skrifaði um blogg um mál sem var í deiglunni fyrir nokkrum mánuðum síðan. Patrik Sjöberg fyrrverandi heimsmeistari í hástökki, kom fram ásamt tveimur öðrum og sagðist hafa verið misnotaður af þjálfaranum sínum.  Drífu þótti það fréttnæmt að fjölmiðlar trúðu honum.  Það var aldrei fjallað um „meint“ brot gegn þessum mönnum. Þeim var trúað.  Fréttin í þessu öllu saman er að þarna er sjóaður samfélagsrýnir og innsti koppur í búri stjórnmálasamtaka á Íslandi, alveg standandi bit yfir því að upplifa almennilega fréttamennsku.  -Þetta er frétt í sjálfu sér.

Stærsta frétt ársins

Greinileg þjóðernissinna-slagsíða er í deiglunni og tveir flokkar eða jafnvel þrír eru í hörkuslag um atkvæði þjóðernissinna á Íslandi.  Óhætt er að segja að þessir flokkar horfi til hins pólitíska landslags á norðurlöndum, en þar eru þjóðernissinnaðir flokkar með fylgi á bilinu 5 til 20%

Í ofanálag er hin pólitíska orðræða er þannig að hún vekti upp sterk viðbrögð meðal almennings, allstaðar annars staðar en á Íslandi. Formaður Hægri grænna tjáði sig bljúgur um múslima og sagði að menningarheimur þeirra og okkar „ætti ekki að blandast saman“.  Nefndi því til sögunnar árásirnar á tvíburaturnana.  Talandi um menningarblöndun þá má geta af gamni að tölustafirnir eru komnir frá aröbum, í því ljósi er furðulegt að heyra verðbréfasala, tjái sig svona.

Fyrir stuttu kom formaður Framsóknarflokksins fram með þá hugmynd að „erlendir glæpamenn“ fengu ekki að koma til Íslands.  Það þarf ekki mikla greiningu á þessari skoðun til að sjá hversu banal hún er og hún minnir mig á reglur í Rússlandi sem kveða á um að HIV smitaðir megi ekki ferðast til Rússlands (af því þeir gætu smitað íbúana)  Tillaga Framsóknarflokksins, felur líka í sér vantraust á dómstólakerfi allra landa nema auðvitað Íslands, enda er glæpamönnum sleppt alltof snemma úr fangelsi út í hinum stóra heimi eins og allir vita.  -Þessa skoðun má líka túlka sem sérstakan refsiauka frá Íslandi.

Ábyrgð fjölmiðla

Þessi tilaga Framsóknarflokksins er svo út í hött að hún er fréttnæm.  Klókur fréttamaður væri búin að skoða þetta mál í þaula, draga ályktanir og birta pælingar sínar.  Til þess eru nefnilega fréttamenn.  En því miður vita margir fréttamenn ekkert um hvað starfið þeirra snýst.   Ég heyrði á dögunum útskýringu fyrrverandi ritstjóra dagblaðs að hlutverk fjölmiðla „væri að gefa rödd til þeirra sem enga rödd hefðu ella“. Þessi skýring þykir mér hin mesta vitleysa. Fjölmiðlar eru ekkert til þess að ljá  hópum eða einstaklingum  einhverja rödd.  -Þeir hafa annað hlutverk.

Annar sem var umsjónarmaður fréttaþáttar í sjónvarpinu, sagði að hlutverk fjölmiðla væri að vera „spegill á samfélaginu“. Þetta er líka hálfgert bull, en þó aðeins nær hinu eðlilega hlutverki fjölmiðla.  Ef að fjölmiðlar væru bara spegill, og segðu bara fréttir sem væru að gerast eða væru einhverskonar endurómun af pískri úr fermingarveislum, þá væri engin krufning í gangi. það væri bara speglun í gangi.  Engar niðurstöður.  Engar ályktanir.  Þetta er staðan sem íslenskir fjölmiðlar margir hverjir eru læstir í.

Innan í þessu búri hins óljósa tilgangs er líka að finna þann stórskaðlega misskilning um að „allar skoðanir séu jafn réttháar“. Þetta er hin póstmóderníska bölvun og sást sennilega aldrei skýrar en í fréttaþætti fyrir nokkrum árum. Þá voru leiddir voru saman í þátt, DNA heilari og taugalæknir með 10 ára nám og svona 15 ára reynslu að baki.  DNA heilarinn fór mikinn og talaði um að hún heilaði DNA-ið í sér með söng eða íhugun og liði miklu betur.  Taugalæknirinn átti síðan að svara þessu. „Er ekki eitthvað til í þessu!“  sagði umsjónarmaðurinn og hvessti augun á taugalækninn“.  Þetta er óþolandi og óboðlegt.  Það er akkúrat orðið um þetta.   -Óboðlegt.

Þó svo að ég hafi talið upp nokkur atriði sem eru til skömmustu fyrir íslenska fjölmiðla, þá er það versta óupptalið.  Það er sú tegund blaðamennsku sem kölluð hefur
verið kranablaðamennska.  Þetta á reyndar ekkert skylt við blaðamennsku og er bara PR-eitthvað.  Ég er samt viss um að ástæðan fyrir því að fréttamenn taki allt í einu upp á því að lesa beint upp úr fréttatilkynningum frá fyrirtækjum, eins og um frétt væri að ræða, sé ekki mútuþægni, heldur kæruleysi i bland við tímaskort.  Í rauninni er þetta bara leti.

Blaðamaður á ekkert að skrifa niður „það sem gerðist“ og birta það.  Hann á að rýna í „það sem gerðist“, skoða hvern krók og kima á málinu og skrifa síðan.  Til gagns og upplýsingar fyrir lesendur sína.  Blaðamaður á að hafa þá köllun að segja ekki bara frá slysi á hættulegum gatnamótum.  Hann á að benda á leiðir til úrbóta.  Tala við lögregluna um tíðni slysa á þessum stað, tala við skipulagsyfirvöld, segja frá öðrum hættulegum stöðum í umferðinni, spyrja kjörna fulltrúa út í þessi gatnamót og forvitnast um úrbætur og benda á lausnir til þess að fækka slysum á þessum stað. Blaðamaður á að gera gagn.  Hann á að vinna fyrir borgarana, svo þeir þurfi ekki að standa í þessu sjálfir.

Þjóðernisstefna

Uppgangur þjóðernishreyfinga og þjóðrembu er alltaf fréttnæm.  Þjóðernisstefna og þjóðremba er kraftur sem er svo öflugur og að sama skapi skaðlegur, að engan skyldi undra að stjórnmálafólk seilist í þann brunn, þegar hefðbundin rök þrjóta.  Veröldin hefur eins og allir vita, fengið sinn hroðaskammt af þjóðrembu og afleiðingum hennar og þess vegna er tiltölulega auðvelt að greina þetta fyrirbæri í upphafsfasanum. Þjóðernisstefna hefur alltaf sömu einkennin.

1) Sameiginlegur óvinur
2) Rangtúlkun á eigin sögu
3) Notkun á goðsögunni um rýtingsstunguna.

Þessi element eru öll til staðar hjá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.  Óvinurinn eru Evrópusambandsþjóðirnar Holland og Bretland.  Rangtúlkunin á sögunni er upphafningin á fortíðinni og fölskvalaus notkun tákna til þess að ýta undir þjóðrembu.  Rýtingsgoðsögnin er að sjálfsögðu sú sín endurtekna skoðun að Samfylkingin hafi gert ill verra við stjórnvölinn og að ríkisstjórnin hafi beinlínis unnið gegn þjóðarhag í eftirmála hrunsins.

Þjóðernisstefna Framsóknarflokksins er skýrari en hjá Sjálfstæðisflokki.  Við rýtingsgoðsögnina er bætt þeirri staðæfingu „elítan“ sitji á svikráðum við þjóðina.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins skilgreindi sérstaklega „elítuna“ í grein í morgunblaðinu þann 5. apríl 2011.

 

 

 

 

 

 

 

Takið eftir síðasta hópnum í upptalningu Sigmundar Davíðs.  „Fjölmiðlamenn með köllun“. Hann er einmitt að vísa í þá tegund fjölmiðlamanna sem standa undir nafni.  Fjölmiðlamenn sem vilja skoða, spyrja spurninga, setja í samhengi og síðast en ekki síst; benda á leiðir til úrbóta.

Eitruð blanda

Uppgangur þjóðernisstefnu er einhverra hluta vegna, ekki frétt á Íslandi.  Mér þyki það frétt í sjálfu sér og tilefni til rannsóknar.  Hversvegna er það ekki fréttnæmt þegar formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byrjaðir að sækja út á jaðar hins pólitíska litrófs.  Er það ekki
spurning sem vert er að spyrja og reyna að svara?

Sé sagan skoðuð og reynt að draga af henni einhvern lærdóm, þá er einhver eitraðasta blanda í hverju samfélagi, þegar saman koma þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar sem mynda bandalög við fjármagnseigendur eða ríka fólkið eða hvað við eigum að kalla það.  Þá er hætt að festi mun slitna og freki renna.

DV og hinir

Það sem er eiginlega sorglegast við þetta alltsaman er að margir fjölmiðlamenn virðist einmitt stunda fjölmiðlun eins og fellur að geði Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Einu fréttirnar af Framsóknarflokknum í kjölfar þjóðernisvæðingu hans, eru endalausar fréttir af megrun formannsins, en hann er í einhverju prógrammi sem kallast „íslenski kúrinn„. Því miður virðist það eiga við sem Egil Helgason sagði að eina hlutverk fréttamanna [hjá sjónvarpsstöðvunum] væri að reka míkrafón framan í fólk.

Það er kannski ekki að undra að orðin hans Dr. Kings sækja stundum á mig.

„Yet our best trained, best educated, best equipped, best prepared troops refuse to fight! Matter of fact, it’s safe to say that they would rather switch than fight!“ 

Nú ber að slá varnagla.  Ég er ekki þeirrar skoðunar að íslenskir fjölmiðlar séu ónýtir eða að fjölmiðlafólk sé upp til hópa sérstaklega lélegt.  Það er af og frá. Ríkisútvarpið er að öllu jöfnu prýðilegt og DV ber höfuð og herðar yfir prentmiðlana. Efnistökin eru allt önnur, fréttamatið annað og meir að segja eru fréttirnar aðrar.  DV fjallaði t.d eitt um „ökugerðismálið“ sem var ekkert minna en stórfrétt  Ég dró þetta mál saman í blogginu mínu.  DV er stendur einfaldlega undir nafni sem almennilegur prentmiðill og ég man ekki eftir betra dagblaði síðan ég fór að fylgjast með fjölmiðlum fyrir svona 25 árum.

Ég hvet ykkur til að skoða hvernig hið pólitíska landslag liggur.  Ég hvet ykkur til að reyna að hlusta á niðinn bakvið glamrið og reyna að átta ykkur á því hvað er í raun og veru að gerast.  Ég hvet ykkur til að gera eitthvað í því og breyta rétt. Ég hvet ykkur til að veita viðnám gegn öllum þjóðernis og þjóðrembuhugmyndun hvar sem þær birtast. Ég hvet fjölmiðlafólk til þess að byrja að flytja fréttir fyrir fólk, til upplýsingar fyrir fólk í stað þess að smjaðra fyrir valdhöfum með ómerkilegum og óskiljanlegum samkvæmisleikjum.Og ég hvet ykkur til að hlusta á Dr. King.

Site Footer