Jói Pálma

Ég var að fara í gegnum möppurnar mínar á dögunum og fann einskonar minningargrein sem ég deildi með samnemendum mínum úr Snælandsskóla vegna fráfalls Jóhanns Pálmasonar bekkjabróður míns. Dauði hans snerti mig mikið og ég skrifaði þessi orð til skólasystkina okkar. Ég set þetta á bloggið mitt af þeirri ástæðu að mér finnst þau góð og aðgengileg þeim sem vill lesa þetta. Þetta er eiginlega minningabrot frá æskunni minni en ekki hefðbundinn minningarorð. Mér finnst dauði Jóa ennþá vera óskiljanlegur en í lok greinarinnar er ég þó að rembast við að skilja.

Sæl verið þið ágætu Snælendingar. Þegar ég sá dánartilkynninguna um að Jói Pálma væri látinn var ég að borða hamborgara í sjoppu í Síðumúla. Mín fyrstu viðbrögð voru hálf furðuleg. Ég las tilkynninguna aftur og fékk mér franskar með kokteilsósu. Síðan hafði ég upp á henni Arndísi Egilsdóttur sem ég hitti stundum. Hún sagði mér hvernig dauða hans hafði borið að og við fórum yfir stöðuna eins og sagt er. Ég varð sár en aðallega hissa yfir þessum tíðindum þegar ég veruleikinn hafði síast inn í vitundina. Hvernig mátti þetta vera? Hvað er það sem drífur mann sem var svo hæfileikaríkur og hafði svo mikið með sér til sjálfsvígs? Ég átta mig ekki ennþá á því. Mér finnst dauði hans vera í senn hrikalegur harmleikur og sóun. Sóun einhvernvegin. Eitthvað fallegt sem var eyðilagt. Þetta var það sem fór í gegnum huga minn. Mér leið ekkert eins og ég hefði misst vin eða þannig því við vorum engir vinir. Við vorum kunningjar og nágrannar. Ég heilsaði honum þegar ég sá hann og við áttum stundum stuttar samræður. Hann átti barn með systur vinar míns þannig að ég heyrði stundum fréttir af honum. Ég sá vinnubílinn hans stundum, hermálaðan Benz vörubíl. Þar fór Jói um með vinnugengið sitt. Vegna þessa bíls vissi ég hvar Jói bjó. Hann átti heima rétt hjá mér. Einhverstaðar á Framnesvegi. Jói Pálma hefur örugglega aldrei haft hugmynd um að hve miklu leyti hann mótaði mig. Það væri frábært að geta sagt honum það en það verður víst ekki úr þessu.

Ég verð eiginlega að segja aðeins frá mér áður en lengra er haldið. Ég er jú aðalpersónan í mínu lífi og Jói aukapersóna. Þegar ég byrjaði í Snælandsskóla árið 1980 þá voru foreldrar mínir nýskilin. Við systkinin flutt að Reynigrund 33. Nú býr það grínarinn geðfeldi Sigurjón Kjartansson. –Fyndið. Ég vildi á einhvern furðulegan hátt klára önnina í Hólabrekkuskóla og labbaði því á hverjum degi yfir Fossvoginn og tók Leið ellefu frá Grímsbæ og upp í Breiðholtskjör. Þaðan gekk ég yfir hálfgerðar Gólanhæðir því Neðra Breiðholtið var álitið afar hættulegt yfirferðar vegna ásóknar “villinga” sem þekkjast ekki lengur. Ég slapp sem betur fer við árásir villinga en leið mín í skólann var einmitt framhjá gamla húsinu mínu og ég gleymi ekki vorkunnaraugunum mæðra vina minna sem mættu mér þegar ég, öslaði gegnum þykka snjóskaflana með skólatöskuna á bakinu. Það hefði eiginlega verið betra að lenda í villingunum. Vegna þessa þá tók ég stundum lengri leið gegnum móann svokallaða en þá voru ósnert svæði í Breiðholtinu. Þetta var bara hefðbundin mói með loðvíði, skurðum og berjalyngi.

Eftir veturinn hóf ég svo nám í Snælandsskóla. Þá kynntist ég ykkur. Ég var 11 ára og frekar kraminn á sálinni. Þjakaður af minnimáttarkennd og taugaveiklun. Hjónaband foreldra minna var afar slæmt og ég þekkt ekkert annað en spennu, hótanir, öskur og læti sem er alveg gegn mínum persónuleika. Ég er nefnilega og hef alltaf verið meira fyrir stöðugleika og ró heldur en hasar og læti. Ég man að ég var ferlega kvíðinn og vissi ekkert hvað ég var að fara útí. Eitthvað hafði ég heyrt um “opið bekkjakerfi” og nýjungar í kennslutækni osfr. Dónald var skólastóri og umsjónarkennari minn var Haukur Viggósson. Hann reyndist mér alveg frábær, bæði sem kennari og vinur. Ég fattaði alveg að hann las mig betur en flestir. Mér fannst það óþægilegt í fyrstu en vandist því. Eftir á að hyggja þá var Haukur mér mikil stoð á leið minni inn í unglinsárin. Það er alltaf gott að vita af einhverjum sem ber hag manns fyrir brjósti. Það er svo skrýtið. Það var þarna að ég kynntist Jóa Pálma. Hann var augljóslega aðalmaðurinn enda bestur í fótbolta. Félagsleg goggunarröð á þessum aldri fer eftir getu í fótbolta og gerir víst enn. Ég var arfaslappur knattspyrnumaður og lenti því neðarlega í röðinni. Bekkurinn var ólíkur þeim sem ég hafði verið í í Hólabrekkuskóla. Þar voru jú fótboltamennirnir aðal mennirnir en þeir voru allir svona svipað góðir og “valdinu” var því dreift á nokkra. Í Snælandsskóla var Jói Pálma langbestur. Hann var betri en stóru strákarnir. Hann var betri en allir í skólanum samanlagðir. Hann uppskar í leiðinni mikla virðingu og mikið “vald” ef svo má að orði komast . Kannski of mikið vald. Ég veit það ekki. En Jói var ekki bara bestur í fótbolta. Hann var eitursnjall skákmaður og fljótur að ná tökum á skáklistinni. Hann var líka langbestur þar. Jói Pálma var líka ferlega skemmtilegur og eldfljótur að hugsa upp brjálæðislega fyndin tilsvör með grettum og látbragði í stíl. Jói fékk eiginlega of mikið af hæfileikum finnst mér stundum þegar ég hugsa um þennan tíma. Hann var góður námsmaður en ég er viss um að hann hefði getað orðið topp námsmaður hefði hann haft á því áhuga.

Mér fannst hann langflottastur og drakk í mig allt sem hann sagði, allt sem hann gerði og reyndi að herma eftir honum í klæðaburði. Þetta var á tímum níðþröngu gallabuxnanna og köflóttu prjónapeysanna! Ótrúlega fyndin tíska! Svo var það KISS. Jói fílaði KISS. Auðvitað ég líka! Allir í bekknum fíluðu KISS. Ég keypti mér plötur með KISS og spilaði í ræmur. -Ekki mikill tími til að þroska einstaklingseðlið á þessum aldri! Ég fékk einu sinni að leika Ace Frehley í “atriði” sem átti sér stað í kjallara Snælandsskóla. Ég myndi drepa fyrir að eiga ljósmynd af þessu dæmi! Ég verð eiginlega að segja frá einu ferlega fyndnu sem mér finnst lýsa félagslegu ástandi 11 – 12 ára barna. Sko. Áður en komið var að máli við mig og ég beðin að vera Ace Frehley þá var ég búin að vera í svona “atriði” áður. Þá kom Ásgeir að máli við mig og var frekar alvarlegur og bað mig um að vera hluti prógrammi sem nokkrir úr bekknum væru að pródúsera. Ég var afar upp með mér og sá mig strax fyrir sem Paul Stanley eða Gene Simmons. “Jú, ég er alveg til í þetta” sagði ég spenntur. Mér leið eins og það væri kjarnakljúfur frá Chernobyl að bræða úr sér í hjartanu og ég svaf lítið fyrir ógeðslega fyndnum stjörnudraumum. (sem eru svo hallærislegir að ég get ekki haft þá eftir…). Það var búið að ákveða tímasetningu á æfingu. Ég mætti í níðþröngu gallabuxunum mínum í köflóttu peysunni og bjóst við að fá gítar í hendur. Vonbrigðin voru því óskapleg þegar ég áttaði mig á því að ég átti ekki að vera “einn úr KISS” heldur sellóleikar með ELO! Sellóleikari! -Í aukalagi áður en KISS stigi á sviðið!. Ég hefði getað sagað af mér hausinn með ryðgaðri sög af skömm og vonbrigðum. Ég þorði ekki að skorast undan og þegar “atriðið” hófst sat ég til hliðar við Jóa og hina í ELÓ og þóttist spila á selló sem var kústskaft eða eitthvað þvíumlíkt. Ég man hvaða lag þetta var en ég man ekki hvað það heitir. Hvað á maður að segja? Þarf maður ekki að byrja á botninum? Ég var Ace Frehley í næsta “atriði”. Ég verð að játa að ég hlusta stundum ennþá á lögin með KISS og það er furðulegt hvað maður getur ferðast um tímann í gegnum tónlist. Sumt er reynda algert crapp og ég hálf skammast sín þegar ég heyri “Dr .Love” með Kiss. Konan mín fékk hláturskast þegar hún heyrði þetta lag. Sumt af þessu eldgamla stuffi með KISS eins og Stutter og Hotter Than Hell er aftur orðið vinsælt hjá unglingunum enda fínt rokk þar á ferðinni. Vinur minn sem er í vinsælli rokkhljómsveit er sérfræðingur í “early KISS” en hlær sig máttlausan yfir plötinni “Elder” sem er alveg hrikalega léleg.

Löngu seinna þegar ég var nýorðin virðulegur íbúðareigandi á Ásvallagötu. Ég var í göngutúr um hverfið mitt á yndislegu kvöldi um hásumar. Það var byrjað að húma að og sterk kvöldsólin skein beint í augun. Þá sá ég vinnubílinn hans Jóa. Þarna var hann að vinna frameftir með nokkra gaura með sér. Þeir voru eitthvað að baxa með hellur eða tré, ég man það ekki. Ég man hvað mér fannst Jói flottur þetta kvöld. Stór, herðabreiður, brúnn og einhvernvegin fullkominn. Ég man að ég ætlaði sko sannarlega að fá mér lopapeysu eins og hann var í. Alveg eins og í Snælandsskóla! Furðulegt hvað maður breytist lítið. Við áttum stutt spjall og ég hélt mína leið og Jói hélt áfram að vinna. Þessi minning er sterk í huga mínum um Jóa. Glæsilegur maður í lopapeysu seint að sumarlagi í vesturbænum. Það er einhver friður yfir þessar minningu. Jói Pálma vekur hjá mér ljúfsárar minningar. Bæði um erfiðan tíma í mínu lífi og skólagöngu á mótunarárum. Þegar ég var um 25 ára og var “að gera upp fortíðina” eins og stundum er talað um, upplifði ég tímann í Snælandsskóla sem afar neikvæðan. Mér fannst eins og ég hefði lent í einelti í bekknum, ástundað sjálfur einelti á bekkjarfélögum mínum og hreinlega verið óheppinn með umhverfi. Eftir á að hyggja er þetta fært í stílinn. Þetta var ekki svona. Sumt kannski, stundum en það er alltaf gott að finna sér blóraböggla fyrir hinu og þessu. Lengi leit ég á Jóa sem tákngerving um þennan erfiða tíma í lífinu mínu. Það var ósanngjarnt. Ég átti enga vini utan skólans og langaði mikið til að eignast vini. Komast í klíkuna. Ég var bara mikið einn og einmanna. Það var í rauninni engum að kenna og ef einhverjum þá var það mér sjáfum að kenna. En þetta lagaðist sem betur fer. Ég er alltaf að læra og eitt af því sem ég lærði nú á dögunum tengist þessari hugleiðingu hér að ofan. Lærdómurinn var þessi. Ég var að tala við frænku mína, jafnöldru og félaga. Hún hafði orð á því að afi okkar hefði verið svona og svona. Ég stóð alveg á gati og gat ekki tengt við hennar upplifun. Ég upplifið afa allt öðruvísi en hún! Samt vorum við í kringum hann á sama tíma og hann lifði. Þó að ég hafi upplifað tímann í Snælandsskóla sem sárann og erfiðan er ekki þar með sagt að hann hafið verið það fyrir alla!. Auðvitað. Þetta segir sig sjálft. Ég var bara lengi að fatta það.

Ég hitti einu sinni hana Bjarneyju bekkjarsystur mína á Borginni. Ég hafi hesthúsað nokkrum Black Russian og furðulegt nokk: Var ennþá í níðþröngu gallabuxunum og í köflóttu prjónapeysunni. (eða þannig…) Hún var hress og skemmtileg eins og venjulega og sagði að það væri verið að plana reunion í Snælandsskóla. Ég trompaðist nánast og gusaði yfir hana að ég ætlaði sko ekki að mæta. Bekkurinn hefði verið ömurlegur og ég ætti bara slæmar minningar og bla bla bla.. Úff hvað ég skammaðist mín daginn eftir í timburmönnunum. Hrikalegt!.. Ég skammast mín meir að segja ennþá. Ég man að í jarðarförinni hugsaði ég hvað það yrði steikt að hitta hana. Ég hitti hana samt og það var frábært. Bjarney er ein af þessum persónum í lífinu mínu sem gott að hitta. Eykur orku og léttir lund. Eftir að ég komst á fullorðinsár þá hitti ég Jóa stundum. Hann var gerbreyttur og alls ekki sá sem ég þekkti í Snælandsskóla. Rólegur, lá lágt rómur og hreyfði sig meir að segja hægt. Ég fékk alltaf á tilfinninguna að honum þætti óþægilegt að hitta mig. Ég veit ekki hvort það sé einhver sérstakur hæfileiki minn að fá svona á tilfinninguna en ég upplifði alltaf einhverskonar spennu þegar ég hitti Jóa. Ég veit ekkert af hverju þetta var en gæti verið hluti af þunglyndinu sem hrjáði hann.

Ég skil ekki fólk sem fylgist með áhuga á sundkeppnir. Ég skil ekki fólk sem hefur ánægju af óperum og ég skil ekki fólk sem sviptir sig lífi. Ég veit ekkert af hverju þetta er en það er ekki skorti á samlíðan eða hluttekningu að kenna en ég get bara ekki sett mig í þessi spor. Til að vera í þessum sporum þarf maður að vera rosalega langt niðri og rosalega veikur. Ég held það.

Ég giska á að sá sem tekur sitt eigið líf sé svo þjakaður af sársauka að hann sér ekkert nema dauðann sem lausn. Stundum er talað um að sjálfvíg sé hámark sjálfselskunnar en ég held að svo sé ekki. Ég held að viðkomandi snúi einhvernvegin upp á veruleikann og líti svo á að tilvist sín sé svo ömurleg að hann sé sínum nánustu til ama. Maður þarf að vera mikið veikur til að líða þannig. Sjálfmyndin í molum og stöðug og viðvarandi þjáning. Ég held að þetta sé einhvernvegin svona. Dauði Jóa virkar þannig á mig. Mér finnst svo óskaplega sorglegt hvað honum hlýtur að hafa liðið illa.

Teitur Atlason.

Site Footer