ÍSLAND ER DAUTT – LIFI ÍSLAND

Ég er búin að vera í ljómandi skapi að undanförnu.  Í fyrsta lagi er gaman að vera byrjaður að vinna, svo lenti ég í ævintýri með bílinn minn, svo er konan mín frábær og krakkarnir sömuleiðis.  Já og svo sá ég viðtal við Jón Gnarr í Kastljósinu.  Það gladdi mig ósegjanlega.  Og ég fór að hugsa.

Það er bara þvæla að ekkert sé að gerast í framfaramálum á Íslandi. Það hefur meira gerst síðustu 12 mánuði heldur en síðustu 720 mánuði á Íslandi.  Alveg sama hvað Þór Saari gargar og hvað margar trumbur eru lamdar.  Þessari staðreynd verður ekki breytt.Fullkomin kúvending flokkakerfisins er í sjónmáli.  Sigur Besta flokksins er bara upptakturinn af því sem koma skal.  Ég fullyrði að tími tappa á borð við Finn Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson er liðinn.  Tími „Gamla góða Villa“ er liðinn.  Tími Ólafs F. Magnússonar er liðinn.  Tími Ingibjargar Sólrúnar og Davíðs Oddsonar er liðinn.Það sem gerðist var alveg frábært. það kom engin „andstæðingur“ og rústaði þeim.  það fjaraði  einfaldlega undan þeim.  Traustið kom og fór eins og alda sem kyssir klettótta strönd.  Eftir standa þau öllsömul hrakin og köld og skýlir þeim hvorki börkur né barr.

– -Ruglið er búið kæru Íslendingar!!

Síðasta ruglið var ráðning Árna Matthísen í eitthvað snobb-dæmi hjá Sameinuðu þjóðunum í boði Samfylkingarinnar.

Ég er alveg innilega sannfærður um þetta.  Sjáið þið bara frambjóðendur til stjórnlagaþings.  Urmull feikigóðra einstaklinga eru þarna.  Aðeins fáir eru handbendi stjórnmálaflokkanna og sérhagsmuna á borð við LÍÚ.  Fyndnast er að einn slíkur er milónera-kelling úr Garðabæ sem er svo hófsöm að hún býr í 1000 fermetra húsi 🙂  Þokkalegur samnefnari fyrir þjóðina eða hitt þó heldur.

Viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við hinum óumflýjanlega dauða eru líka gleðiefni.  Þau öskra, garga og láta öllum illum látum hvað sem á gengur. Holurnar í kerfinu eru lokaðar og ekkert skjól fyrir bansettum hugarfarsbreytinga-bornum. Núna afhjúpast þau, böðuð skæru ljósi og vita ekki sitt rjúkandi ráð.

Ég er svo andstyggilegur að ég gleðst mest yfir viðbrögðum Davíðs Oddsonar, landsins mesta sérfræðingi í gjaldþrotum, kveinka sér yfir því að ljós er fyrir enda ganganna og framtíð lands og þjóðar sannarlega björt.

Það er bara bull að ekkert hafi gerst á Íslandi síðastliðna 12 mánuði.  Það hefur ALLT gerst.  Hreinsunin hefur gerst og er að gerast.  Dómarnir munu falla og útrásarliðið mun taka út sinn dóm.  Sníkjudýr flokkakerfisins munu totta þurra spena í framtíðinni og munu ugglaust þurfa að vinna fyrir sér í framtíðinni.  Sem er örugglega alveg skelfileg tilhugsun fyrir þá sem hafa kannski alist upp við það í margar kynslóðir að þurfa aldrei að gera neitt nema að „vinna fyrir hag Íslendinga“ eða þvíumlíkt.

Ísland er dautt – Lifi Ísland !!

Site Footer