IMAN AL-OBEIDI

Fréttirnar af því þegar konu var rænt fyrir framan nefið á alþjóðlegum blaðamönnum, fyrir þær sakir að greina frá nauðgunum sem hún varð að þola frá blóðhundum Kaddaffis, eru skelfilegar.  Skálkarnir voru ekkert að fela neitt og virtist standa slétt sama um fjöldann allan af blaða -og myndatökufólki sem reyndu sitt ýtrasta til að stöðva ósvinnuna. Fréttamanni NYT var vísað úr landinu vegna vasklegra framgöngu sinnar við að reyna að hindra dólgana.

Líklegt er að Iman al-Obeidi hafi annað hvort verið tekin af lífi eða dúsi í fangelsi við kerfisbundnar pyntingar.

Það sem er athyglisvert er að strax í gær var komin greinarstúfur um Iman al-Obeidi á Wikipediu.  Ég hvet alla til að kynna sér málavöxtu í þessu skelfilega máli.  Wikipedia er eina „málefnið“ sem ég styð reglulega.  Ég borga svona 10 -20 $ í hvert skipti sem þeim vantar peninga. Ég er stoltur stuðningsmaður Wikipediu og mun brátt leggja mitt af mörkum í þvi að leggja inn upplýsingar sem ég tek markverðar ofan í íslensku skúffuna í ofurkommóðu þekkingarinnar hjá Wikipediu.

Ég er miður mín yfir örlögum Iman al-Obeidi og vildi óska að ég gæti gert eitthvað.  Ég vildi getað skoðað vefsíðu, lagt fé af mörkum  fyrir baráttusamtök hennar til handa.

Málfrelsið er ekkert minna en grunnurinn af góðu samfélagi.  Þegar því er ógnað, er borgurunum ógnað.  Tilraunir stjórnvalda eða valdahópa, til að takmarka málfrelsi borgaranna er ekkert annað en stríðsyfirlýsing gegn borgurunum.

Í þessu samhengi væri vert að athuga hvað ríkisstjórnin og Alþingi gætu gert til að komast að afdrifum Iman al-Obeidi.  Ísland ætti að vera fyrirmyndarríki þegar kemur að verndun málfrelsisins og baráttu fyrir málfrelsi þar sem það skortir.

Hér er myndbrot af því þegar Iman al-Obeidi er rænt

Hér er Facebooksíða til stuðnings Iman al-Obeidi

Hér er klippa frá YouTube.

 

Site Footer