ICELAND = ÍSLAND?

Í síðustu færslu vakti ég athygli á tilboði frá versluninni Iceland sem mikið hefur verið auglýst að undanförnu.  Þar auglýsir verslunin þau kostakjör að ef maður kaupir 4 pitsur fái maður þá fimmtu í kaupbæti.

Þetta kann að hljóma vel því hver vill ekki fá kaup-bæti?

Ekki er þó allt sem sýnist því að þetta tilboð má umorða og segja að það sé 20% afsláttur af 5 pitsum.  Sem er svo sem ágætt nema fyrir þann sem vantar bara eina eða tvær.  Sá fær engan afslátt.  Enn sannast hið fornkveðna að það er dýrt að vera fátækur. Fólk sem á ekki frystiskáp getur ekki nýtt sér þetta tilboð og það er til fullt af svoleiðs fólki þótt að sum okkar vilji alls ekki kannast við það.

Þetta var samt ekki hugleiðing þessa bloggs.

Það var fyrir algera tilviljun (vegaframkvæmdir) að mér var nánast þrýst á heimaslóðir upp í Vesturberg og þar er einmitt Iceland-búð þar sem áður var Verslunin Straumnes.  Ég var með þrjá unga parkour-stráka aftur í sem höfðu staðið sig vel og ég sveigði inn á bílastæðið við Straumnes.   Ég vippaði mér inn til að kaupa smávegis gotterí fyrir þá.

…og tékkaði á tilboðinu mikla frá Iceland.

IMG_20150615_155418-001EITT PUND

Jú.  Þarna var það í öllu sínu 20% veldi.  „Þú kaupir 4 pitsur og færð þá fimmtu fría“.   Hver pitsa átti að kosta 429 krónur.  En viti menn.  Á pakkanum stóð verðið sem þessi pitsa kostar í Englandi. Heilt eitt pund.

Það gera 205 krónur!

…og það þarf ekki að kaupa 4 til þess að fá þann afslátt.

 

Þetta er fyrirtaks dæmi um hernaðinn sem stundaður er gegn neytendum á Íslandi í þágu ónýtrar örmyntar.  Pakkapitsa er meira en helmingi ódýrari í Englandi en á Íslandi.  Í þessu samhengi er líka tiltölulega auðvelt að reikna út innkaups verð Iceland á téðum pitsum og gera má ráð fyrir því að það sé einhversstaðar rétt undir tvöhundruðkallinum.

Það er eins og veruleikinn sparki í rassinn á skáldskapnum því að í þessu 5 fyrir 4 dæmi hjá „Iceland“, sé skeytt nærri naprasta háði.  Við á Íslandi fáum líka 5 fyrir 4 fyrir krónuna okkar.

Stöðuga verðbólgu

Verðtryggingu

Innræktað bankakerfi

Íbúðaverð í hæstu hæðum

og hafandi alla þessa fjóra fjörugu fáum við svo óstöðugleika á atvinnumarkaði í kaup-auka.

Site Footer