RÆÐUHÖLD Í GAUTABORG OG ÓGLEYMANLEG VIGDÍS

Í síðasta mánuði gerðist svolítið skemmtilegt.  Ég hélt ræðu í Gautaborgarháskóla vegna opnunar á nýrri netorðabók. Ég var ekki eini ræðumaðurinn því „panellinn“ var skipaður færasta málvísindafólki í sænsku og íslensku og meir að segja Vigdísi Finnbogadóttur.  Ég naut aðstoðar við mína ræðu frá nemendum mínum í Nygårdsskólanum.  Þetta tókst ferlega vel og fór þannig fram að ég flutti lítinn inngang en nemendurnir mínir fluttu sögu sem ég valdi og smellpassaði við tilefnið. 

Söguna kunna eflaust margir en hún fjallar um heiðursfólkið Kristjönu Sveinsdóttur, Einar Ólaf Sveinsson og Harald Bessason og kynni þeirra af indjána fyrir utan krá í Kanada á fimmta áratug síðustu aldar.

Bróðir minn sagði mér þessa sögu og hafði heyrt hana frá einhverjum öðrum.  Ég vissi að þessi saga væri til skrifuð og með aðstoð Fésbókar komst ég í kynni við mann sem veit allt um vesturferðirnar þekkti þessa sögu vel.  Ég spurði hann hvort hann gæti sent mér þessa sögu eins og hún kemur fyrir í bókinni.  Það var nú auðsótt.  Ég fékk þá í hendur orgínalinn en það eru æviminningar Haraldar Bessasonar.  Það sem kom mér svo skemmtilega á óvart var að sagan sem bróðir minn sagði mér, og einhver hafði sagt honum, stefndi svona 98%  miðað við þá sem var skrifuð.  það eina sem hafði skolast til var nafn eiginkonu Einars Ólafs, og staðsetningin á barnum þar sem sagan gerist.  Annað stemmdi eiginlega alveg.

Þetta tel ég augljóst dæmi um að hin munnlega geymd er miklu áreiðanlegri en hið prentaða orð.

Sagan er frábær og hérna er hana að finna. 123 og 4.  Hérna er svo ræðan mín á íslensku.

tt

Þetta tókst eins og í sögu og salurinn var fullur af áheyrendum.  Þar á meðal var rektor Gautaborgarháskóla, Svavar Gestsson fyrrverandi sendiherra og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti.  Eftir ræðurnar var lítil móttaka í háskólanum og þar var hægt að spjalla saman og nota veitingar sem voru til bornar fram.  Vigdís sýndi ræðunni minni áhuga og við spjölluðum aðeins saman um hana.  Hún talaði lengi við krakkana „mína“.  Sem var alveg frábært.  Svo var líka gaman að hitta alla þessa Svía sem hafa brennandi áhuga á tungumálinu okkar.  Ég ræddi aðeins við einn sem virtist vera „alveg með þetta“ eins og sagt er og við fórum að tala um erfiða íslensku.  Ég sagði honum aðeins frá Einar Ben og fór með nokkrar línur úr Einræðum Starkaðar.  „svo iðrar margt líf eitt augnkakast….“.  „Augnakast“ sagði ég.. Það þýðir sko….  „Sama og í sænsku“ sagði viðmælandinn og brosti.

Ég tók eftir að rektorinn í Gautaborgarháskóla nýtur geysilegar virðingar  Þannig á það líka að vera.  Hún var vel inn í orðabókargerðinni og hafði orð á því að Sviar þyrftu að taka sig aðeins á í málvernd, en hún er nákvæmlega enginn eins og staðan er núna.

Eftir móttökuna var mér svo boðið í mat, þar sem Gautaborgarháskóli, slengdi saman nokkrum tilefnum og bauð nokkur hundruð manns.  Fínn matur og vín fyrir þá . . . sem ennþá þjást . . . og Pefsí fyrir hina.  Ég settist hjá fólki sem ég þekkti ekki neitt, það er alltaf svolítið erfitt, en þá er ekkert annað í stöðunni en að rífa af sér hlekki feimninar og byrja að tala um allt og ekkert.  -Það tókst bara bærilega.

Þetta var svo fínt boð að á eftir matinn, á undan kaffinu, var tónlistaratriði þar sem 2 nemendur úr tónlistarháskólanum spiluðu frumsamin lög á píanó og klarínett.  Píanóleikarinn var frá Rússlandi, en klarínetti-konan var sænsk.  Þær spiluðu eitraðan bræðing þar sem saman var blandað gyðingatónlist og balkanmúsik.  Ferlega flott og geysilegt stuð.  Ég sat alveg upp við listamennina, og tók eftir því að þegar þær höfu lokið flutningnum, og voru að ganga frá, stendur Vigdís Finnbogadóttir upp frá aðalborðinu og skautar framhjá Vytautas Landbergis, fyrrverandi forseta Litháen, Stanislav Shuschkevich fyrsta forseta Hvíta Rússlands og öðrum „fyrsta forseta“Leonid Makarovich frá Úkraínu.  Vigdís gengur beint til  hjóðfæraleikarana og þakkar þeim fyrir flutingin.  Hún átti við þær fínt samtal sem ég var að reyna að hlusta ekki á.  Hljóðfæraleikarnarnir voru greinilega impóneraðar yfir áhuga Vigdísar.  Þarna fékk ég einhverja uppskeru í sálinni.  Það var frábært að sjá hvenig Vigdís nálgasðist þessar konur á sama velli ef svo má að orði komast.  Ég var svo stoltur þessa stund þar sem ég starði niður á tómann diskinn og þóttist ekki heyra neitt.  Svo stoltur yfir þessum fulltrúa mínum, Vigdísi Finnbogadóttir.

Þegar þessu var lokið labbaði ég heim í svona 45 mínútur.  Hugsi yfir þessu tilræði við hversdaginn sem þessi kvöldverður var fyrir mig og mitt litla skrýtna líf.

.

Site Footer