GEORGE ANDRÉ KOHN

Í apríl 1945 komust herir bandamanna inn fyrir mæri hins nasíska Þýskalands.  Það var þó ekki fyrr en 8. maí sem Þýskaland gafst upp.  Þennan tíma frá innrásinni og allt fram að uppgjöf, reyndu margir sem framið höfðu glæpi undir verndarvæng nasista, að dylja þá með því að losa sig við sönnunargögn.

Þann 20. apríl klukkan átta eftir hádegi, sama dag og Adolf Hitler fagnaði afmælisdegi sinum, voru skandínavískir fangar færðir til frá Neugamme fangabúðunum rétt fyrir utan Hamborg.
Farartækin sem notuð voru gengu undir nafninu „hvítu rúturnar“ og táknuðu frelsi fyrir marga fanga en ekki alla.

Eftir í fangabúðunum voru meðal annars tuttugu gyðingabörn á aldrinum timm til tólf ára. Tíu stúlkur og tíu drengir. Þar af tveir systkinahópar.  Þau fóru ekki með hvítu rútunum.

Þau höfðu um margra mánaða skeið verið hluti af „læknisfræðilegum“ tilraunum sem voru framkvæmdar í Neuengamme af SS-lækninum Kurt Heissmeyer. Heissmeyjer hafði fjarlægt eitlana úr börnunum með skurðaðgerð og sprautað þau með lifandi berklabakteríum undir húðina.  Sum börnin höfðu verið smituð af berklum með barkaþæðingu.   Í yfirheyrslu árið 1964 viðurkenndi Heissmeyjer að honum „hafi ekki fundist neinn grundvallarmunur á gyðingum og tilraunadýrum“.
George André Kohn
Nokkrum tímum eftir að síðustu skandinavarnir höfðu yfirgefið fangabúðirnar í Neugamme, voru börnin flutt á brott, ásamt fjórum föngum sem höfðu séð um þau og annast í fangavistinni.  Áfangastaðurinn var skólabygging í Hamborg og þangað kom hópurinn á miðnætti.  Fullorðna fólkið í hópnum samstóð af tveimur frönskum læknum, Gabriel Florence og René Quenouille ásamt tveimur Hollendingum.  Dirk Deutekom og Anton Hölzel.  Skólahúsið hét Bullenhuser Damm og hafði á þessum tíma verið hluti af fangabúðunum við Neugamme.  Skólinn hafði rétt áður verið mótstaður fyrir skandinavíska fanga sem safnað var saman í húsinu og síðan sleppt.

Hópurinn var færður niður í kjallarann.  Í kyndiklefanum var fullorðna fólkið hengt.  Notast var við rör í loftinu.  Síðan var komið að börnunum.  Sum börnin höfðu samkvæmt frásögn SS læknisins Alfred Trzbinski fengið morfínsprautur, þar á meðal George André Kohn sem var hvað verst leikinn eftir tilraunir Heissmeyers.  Georges André var sofandi þegar hann var hengdur, ekki í rörinu eins og fullorðna fólkið, heldur í krók á veggnum.  SS korprállinn Johann Frahm þurfti að nota alla líkamsþyngd sína til þess að snaran herptist að hálsi litla drengsins.  Þar eftir hengdi Frahm tvö börn, hvert á sinn krók, „eins og málverk“ eins og hann lýsti atburðinum í yfirheyrslu árið 1946.  Ekkert af börnunum grét á meðan
þessu stóð. Þegar öll börnin höfðu verið myrt, deildust út snafsar og nokkrar sígarettur fyrir SS mennina sem stóðu að verknaðinum.  Síðan var komið að næsta hóp til að hengja.  Tuttugu sovíeskir stíðsfangar.  Hvað þeir hétu vitum við ekki. En nöfn barnanna eru þekkt.  Mania Altmann 5 ára, Lelka Birnbaum 12 ára, Suric Goldinger 11 ára, Riwka Herzberg 7 ára, Alexander Hornemann 8 ára, Eduard Hornemann 12 ára, Marek James 6 ára, W, Junglieb 12 ára, Lea Klygermann 8 ára, Georges-André Kohn 12 ára, Bumel Mekler 11 ára, Jacquline Morgenstern 12 ára, Eduard Reichenbaum 10 ára, H. Wassermann 8 ára, Elanora Witónska 5 ára, Roman Witónski 7 ára, Roman Zeller 12 ára, Ruckla Zylberberg 9 ára.

Daginn eftir voru líkin færð aftur til Neugamme og þau brennd.  Í dag heitir skólinn Janusz-Korczak-Shule.  Á skólalóðinni er lítill rósagarður sem tileinkaður er minningu barnanna.

Þessi hroðalega saga gerist ekki í einhverju tómarúmi. Hún er endapunktur afleiðingum hatursumræðu sem fékk að grassera óáreitt í áratugi.  Gyðingahatur var landlægt í Evrópu allt frá miðöldum og braust út í skipulegum ofsóknum öðru hvoru í gegnum aldirnar og þá af guðfræðilegum ástæðum.  Áður en nasistar komu fram á sjónarsviðið var það krossinn sem vakti ótta hjá gyðingum og var tákn hinnar algeru og taumlausu illsku.  Það var svo á 20. öld sem að gyðingahatur tekur á sig annan blæ og hættir að snúast um hópinn „sem drap Krist“ og var að einskonar undirgrein félagsvísindanna, studd af líffræði og hugmyndum um stéttaátök.  Hatrið varð að normi og ofsóknirnar urðu að einhverskonar hreinsunarstarfi.  Birtingarmyndir þessa ástands voru sum hver furðuleg.

Á þriðja áratugnum kom út í Þýskalandi borðspilið „Juden Raus!“, sem var kynnt sem „mjög skemmtilegt spil fyrir börn og fullorðna“.  Leikmennirnir í spilinu voru í laginu eins og hattar sem gyðingar voru neyddir til að bera á miðöldum.  Á hverjum hatti fyrir sig var einnig skopmynd af gyðingi.    Þegar þarna er komið sögu var hatursorðræðan orðin mainstream.  Hún var partur af daglegu lífi fólks og ofinn inn í samfélagið.
JR
Hatursumræða er tiltölulega auðgreinanleg þótt skilin milli venjulega svívirðinga á opinberum vettvangi og hatursorðræðu séu stundum óljóst.  Það sem einkennir hatursumræðu öðru fremur er tilhneigingin til afmennsku þess sem hatrið beinist að.  Hatursumræða heggur því að rótum manneskjunnar og þess að vera manneskja.  Í undanfara þjóðarmorðsins á Tutsi fólki í Rúanda, hafði því verið skipulega haldið að Hutu fólki í fjölmiðlum og hvar sem því var komið, að Tústar væri ekki fólk heldur „kakkalakkar sem þyrfti að kremja“.  Þessi umræða hélt áfram óáreitt uns allt sprakk í loft upp í æðisgengnasta morðæði sem mannkynið hefur séð.  Í ritum Hönnu Arendt, sem upplifði sjálf gyðingaofsóknir í Þýskalandi, segir hún að þegar lagaleg staða gyðinga var kerfisbundin rifin niður, þá varð óvært í landinu.  Þá gerðist það sem fylgir alltaf hatursumræðu. -Afmennskunin.

Það sem er forvitnilegt þegar hatursumræða er skoðuð er að hún beinist alltaf gegn eftirfarandi eiginleikum.  Kyni, kynhneigð, kynþætti, húðlit, trúarbrögðum, ætterni, þjóðerni eða stjórnmálaskoðunum.  Þetta síðastnefnda er vel greinanlegt í umræðunni eftir hrun og er ekkert bundið endilega bundið við hömlulausa bloggara.  Annað einkenni á hatursumræðu er að hún þrífst eiginlega alltaf  á „við / þið“ planinu, en ekki „ég/þú“.  Ef hatursorðræðan yrði persónuleg, þá væri hún orðin að hótun og varðaði við lög.  Hún beindist gegn persónu sem er gegn eðli hatursumræðunnar.  Hatursumræða beinist alltaf gegn hópum.  Samkvæmt þessari kenningu eru því skrif eins frammámanns í Sjálfstæðisflokknum ekki hatursorðræða þegar hann sagði að það ætti að taka Jóhönnu Sigurðardóttur af lífi og vísaði í örlög Bento Mussolinis máli sínu til áréttingar.  Það sem hér var á ferðinni var því einfalt form af reiði sem hafði farið yfir strikið.

Nýleg skrif eins þingmanns Framsóknarflokksins falla hinsvegar alveg við hugmyndina að hatursumræða beinist alltaf gegn hópum.  Á bloggsíðu sinni sagði þingmaðurinn að heimurinn væri ekki eins flókinn og hann hefði verið.  Hægri og vinstri heyrðu sögunni til og átaka línur stjórnmálanna snérust núna um „krati og ekki krati“.  Taki eftir við/þið planinu sem komið upp.  Þetta er einnig alveg á pari við þá staðreynd að hatursumræða getur ekki höndlað flókin veruleika og leitast alltaf eftir „við/þið“ umræðugrundvelli.  Þingmaðurinn hélt áfram og beitti fyrir sig þekktu stefi í hatursorðræðu.  Fyrst er óvinurinn skilgreindur (kratar) og svo er honum gefnar upp skoðanir.  „Kratar skilja ekki sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og raunverulega framleiðslu sem skilar sér í auknum hagvexti.  Svo er illum áformum óvinarins gerð skil.  „Kratar telja að hagvöxtur skili sér í skattpíningu vinnandi stétta til útþenslu báknsins sem þeir sjálfir einsetja sér að vinna við. Þetta er í raun stefna Samfylkingarinnar“.  Það eina sem vantar til að þessi skrif nái því að uppfylla allar kríteríur hatursskrifa er hin undirliggjandi hótum um makleg málagjöld.

Svæsnustu hatursskrifin er að finna í kringum femínista og þá sem halda á lofti femínískum lífsgildum.  Það sem er uggvænlegt í þessu samhengi að það virðist vera að rótgróin andúð og það sem auðveldlega má kalla hatur, virðist hafa fest sig í sessi þegar kemur að femínistum.  Orðræðan í kringum femínisma er sennilega sú svæsnasta sem finnst og ekkert sérstaklega óalgengt að finna í athugasemdakerfum við blogg, beinar hótanir í garð nafngreindra kvenna (sjaldan karla).  Það sem er svo dapurlegt í þessu samhengi að enginn virðist nenna að kynna sér femínisma og svo virðist sem fólk láti sér nægja einföldustu alhæfingar þegar kemur að því óendanlega frjóa hugmyndakerfi sem femínisminn er.  Þarna er komið ein skýrasta birtingarmynd hatursorðræðu.

-Einföldunaráráttunni.

Telja má líklegt að í flóknum og óskiljanlegum heimi séu þeir til sem leita eftir skiljanlegum skýringum.  Þessi krafa innifelur í sér smættun veruleikans og þess að smíðað sé eitthvað kerfi sem fólk skilur.  Kynþáttahyggja er t.d gott dæmi um slíkt kerfi.  Það er einfalt, auðskiljanlegt, innifelur sameiginlegan óvin og ranghugmyndir um eigin sögu og uppruna.  Þegar þetta er til staðar þarf ekki nema lyklaborð til að koma af stað hatursorðræðu.

Í náttúrunni er til fyrirbæri sem er svo makalaust að vísindamenn botna hvorki upp né niður í því.  Þannig er að við vissar aðstæður, þegar saman koma nokkur hagstæð ár fyrir
engissprettur, verður til ofsafengin fjölgunarsprenging.  Engisprettustofninn verður svo stór að undrum sætir.  Þegar stofninn nær vissri stærð gerast þau undur að hver og ein engisspretta breytir um lit og útlit.  Hvert og einstakt dýr verður brúnt á litinn og fæturnir breytast.  Skepnan verður árásargjarnari en ella og skaðinn af völdum faraldranna verður ólýsanlegur.    Árið 1875 var engisprettufaraldur í vesturhluta Bandaríkjanna sem talin var vera jafn stór og Spánn.  Vísindamenn segja að aldrei hafi áður mælst jafn mikill lífmassi af einni tegund áður í veraldarsögunni.  Svo gerist það þegar stofninn er orðin of stór, að ekkert æti verður tiltækt og dýrin drepast unnvörpum.  Þetta kerfi er eins og gefur að skilja, ekki sjálfbært.  Orðatiltækið „að éta sig út á gaddinn“ passar fullkomnlega í þessu samhengi.

Þetta háttalag engisprettunnar svipar mjög til þess hvernig hatursumræða getur kollvarpað umhverfi sínu.  Hún byrjar smátt og við réttar aðstæður getur hún orðið að faraldri.  Þegar hún er orðin almenn og samþykkt af samfélaginu sem hversdagslegur sannleikur, gerist það að birtingarmynd hatursumræðunnar breytist.  Orðum er breytt í verk.  Það er staðið við stóru orðin og þá fer af stað atburðarás þar sem illskan tekur völdin og við horfum með brostnu hjarta ofan í kjallara þar sem huglaus fífl hlýða skipunum og hengja lítil börn.

.

Site Footer