HVERS VIRÐI ER MANNORÐ?

Sum orðtök sem eru í tungumálinu eru þess eðlis að þau þorna upp og missa marks vegna þess hve oft þau eru notuð.  Eitt dæmi um þetta er orðtakið „vald spillir“.  Það er spennandi að kryfja þetta margþvælda orðtak.

Í síðustu viku kom í fréttum að þáverandi fjármálastjóri Kópavogs fékk lóðina undir húsið sitt á betri kjörum en aðrir bæjarbúar.  Pappírar sem sönnuðu þetta voru einhverra hluta geymdir inn í peningaskáp sem enginn hafði aðgang að.  þegar upp komst um þessi sérkjör á innlæstu pappírunum, afsakaði fjármálastjórinn fyrrverandi með þeim orðum að þetta hefðu verið „mannleg mistök“.  Nokkuð sem sætir furðu því einhver hafði fyrir því að læsa þessi mannlegu mistök inn í peningaskáp.  Sama manneskja komst í fréttirnar þegar hún var orðin bæjarstjóri í Kópavogi og lét dóttur sína hafa afnot af bæjarstjórabílnum.

Vald spillir segir orðtakið.  Hverjum spillti valdið í þessu tilfelli?  Hvar lenti skaðinn?

Annað dæmi sem skilur mig eftir opinmynntan þegar ég hugsa um það, er dæmi borgarfulltrúans Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur sem fór fram á að Reykvíkingar borguðu farsímareikninginn sinn meðan hún var í fæðingarorlofi.  Við þetta er nokkuð að athuga:  Í fyrsta lagi á Þorbjörg ekki að vinna í fæðingarorlofinu sínu. Varamaður á að sjá um það.  Í öðru lagi getur Þorbjörg alveg borgað farsímareikninginn sinn meðan hún er í fæðingarorlofi.  Hún er það sem kalla má sterkefnuð á hvaða mælikvarða sem er.

Enn er hægt að spyrja.  Hvert er fórnarlambið í þessu dæmi?  Hver kemur illa út?  Reykvíkingar sem sá stendur frammi fyrir þessari bón, eða sá sem setur þessa bón fram?

Þriðja dæmið er af fyrrverandi dómsmálaráðherra Íslands.  Sá var í bíðröð á flugvelli og þegar hann uppgötvaði að farangurinn hans var kominn í 30.000 króna yfirvigt, lét hann Alþingi borga. Jafnvel þótt að hann hafi verið á dagpeningum sem eiga að dekka svona útgjöld.

Aftur er spurt.  Hvar lendir skaðinn?   Er hann hjá Alþingi Íslendinga, eða er hann hjá Birni Bjarnasyni?

Vald spillir segir fólk en þar með er málið ekki afgreitt.  Ég held að sumir geti einfaldlega ekki höndlað það að hafa vald yfir einhverju.  Svoleiðis fólk ætti ekki að sækjast eftir valdi.  það er eins og sumt fólk líti á vald sem herfang. Sem er algerlega röng nálgun.  Þegar haft er í huga að herfangið er oft og tíðum hund-ómerkilegt (yfirvigt – farsímareikingur – bílaafnot) þá skilur maður ekkert í því hvernig fólki gat dottið í hug að setja mannorðið undir fyrir einhvern símreikning.

Þetta er alveg stór-furðulegt.  Getur verið að hið innbyggða siðakerfi okkar allra, sé á einhvern hátt frábrugðið þeim sem eru reiðubúnir að leggja mannorðið undir fyrir einhverja smámuni?  Skýrist þetta með spennu-fíkn?  Eða getur virkilega verið að fólki finnst – í alvörunni – að það eigi að njóta sérkjara umfram aðra?  Við endum í stóru spurningunum, ef við kryfjum spillingarmátt valdsins. Ég held að sá sem hefur vald, ætti að vera þjónn í eðli sínu.  Þjónn með hvíta hanska, teinréttur og óaðfinnanlegur.

-Og auðmjúkur.

.

Site Footer