HVERNIG BREYTIST FÓLK Í NASHYRNINGA?

Árið 1959 var flutt leikritið Nashyrningarnir eftir Eugéne Ionesco.  Sagan er tiltölulega einföld.  Fólk í smábæ einum breytist smá saman í nashyrninga, nema söguhetjan Bérenger.

Allir verða nashyrningar.  Fnæsandi, þykkbrynjaðir, einstrengdir, sterkir og óstöðvandi.

Þetta leikrit er eitt af stóru verkum 20. aldarinnar í leikhúsritun og hefur eins og öll góð listaverk skírskotun til líðandi stundar.

Nashyrningarnir hefur verið sýnt hérlendis og ég verið svo heppinn að sjá uppsetningu leikfélags MH á þar sem Benedikt Erlingsson átti stórleik.  Sjá ritdóma hér og hér

Boðskapur Nashyrninganna er skýr og vísar í uppgang fasisma í Rúmeníu, heimalandi Ionesco.

Ég sé því miður nashyringa allt í kringum mig.  Rymjandi, fnæsandi og óstöðvandi. Með þykkasta skráp í dýraríkinu.

Það er meir að segja nashyrningur orðinn forseti í Bandaríkjunum.  Appelsínugulur, angandi af Old Fnæs, eins og einhver Tóti typpakall með augun í klofinu á giftum konum.

Þessi umbreyting fólks í nashyringa er ekki ný af nálinni og upphaf þessarar umbreytingar má vel skoða og setja á tímalínu.  Eiríkur Bergmann, prófessor við háskólann á Bifröst, hélt á dögunum fyrirlestur um uppgang eðli og einkenni þessarar.  Fyrirlesturinn var vel sóttur og gaman að sjá að mikill áhugi er á málefninu.

Tilefnið var nýútkomin bók Eiríks um málefnið.  Nordic Nationalism and Right Wing Populist Politics.  Titill fyrirlestursins var „Um hægri popúlisma og þjóðernishyggju í norrænum stjórnmálum“.

Hann má sjá hér í heild sinni.

Eiríkur fór yfir upphafið.  Helstu straumhvörf og leiðarsteina.  Það má með sanni segja að tímasetning þessa fyrirlesturs hafi verið drungalegur . .  . eða passandi því sama dag sór Donald Trump sig inn sem forseti Bandaríkjanna.

Þessi tilhneiging sem Eiríkur kallar þjóðernispopúlisma er tiltöluleg ný af nálinni og  áhugaverðir punktar sem hann varpar ljósi á.  Hann talar m.a um að sumir þjóðernispopúlistaflokkar eru hreinlega með nasískar rætur(t.d Sverigedemokraterna í Svíþjóð) meðan sumir taka upp þjóðernispopúlíska hentistefnu (t.d Framfaraflokkurinn í Noregi og stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar).

Þessa síðarnefndu kallar hann „surrogate nationalist populist“ sem er afar hæfandi.

Ég hvet alla til að horfa á fyrirlesturinn og umræðurnar á eftir.  Það var mjög áhugavert sem Hulda Þórisdóttir hafði fram að færa en hún færði fyrir því rök að það séu beinlínis sálfræðilegir þættir sem geta verið ráðandi hvort fólk flykki sér að baki þessum þjóðernispopúlistaflokkum.

Mér hefur alltaf þótt þessir fletir merkilegir.  Ég þekki fólk sem hæglega má flokka sem þjóðernispopulískt.  Það hefur ýmislegt sameigilegt þegar vel er að gáð.

Það var einn flötur á þessari umræðu sem ég saknaði að kom ekki fram en það er í rauninni heimspekilegi flöturinn.  Hvers vegna verða sumir að nashyringum? Hvað gerist?  Hvernig?

Ég held að svarið sé að finna í einfaldri bjöllukúrfu. Sumir eru ógreindari en aðrir. Sumir geta ekki sett sig í spor annara og sumir finna nákvæmlega ekkert til með öðrum.  Alveg sama hvað.  Þetta er bara ákveðin hluti þýðisins sem við köllum samfélag. Lögmál bjöllukúrfunnar á þarna við sem og annarsstaðar.

Annar partur er dýpri og snýr að skilgreiningu á hinu illa.  Hanna Arendt sagði um illskuna að hún væri vegna þess að sumir „kynnu ekki að hugsa“.  Þetta þykja mér orð við hæfi.   Þetta sér maður og heyrir á hverjum degi. Sérstaklega í orðum sumra stjórnmálamanna og sumra samfélagsmótara.

Sumir svara út í hött og beita fáránlegum rökum til að styðja mál sitt.

Vigdís Hauksdóttir er sennilega besta dæmið um þetta.

Þetta fyrirbæri bítur líka í skottið á sér og fer heilan hring í viðbót.  Þegar fólk er orðið vant heimskulegri umræðu og fáránlegum rökum, þá verða þau viðtekin með tímanum.

Þetta er Overton gluggi með mínusmerki fyrir framan.

Það mætti líka bæta við að hlutverk samfélagsmiðla í uppgangi þjóðernispopúlisma er að öllum líkindum mikið.  Það er auðvelt að greina þetta í athugasemdakerfum netmiðlanna.  Allir hafa rödd. Þar með talið fólk sem aldrei yrði mark á tekið undir venjulegri kringumstæðum.  Þetta er gott og blessað í sjálfu sér en stundum eru þessar ómarktæku raddir magnaðar upp. Þetta gerist t.d þegar einhver leitar logandi ljósi af öfgaskoðunum og finnur þær í einhverri athugasemd um einhvern leik með Tottenham.  Blaðamenn með í leit að klikkbeitum fyrir færin sín grafa upp einhver fávitaleg ummæli, skrifa um þau frétt og hraðsjóða eitthvað fyrir næsta hálftíma uns það kippir í næasta færi.

Aftur er komin upp Overton gluggi með mínusmerki fyrir framan.  Enn og aftur er verið að reka míkrafón framan í öfgafyllsta fólk landsins.  Af sama meiði er sú stórbilaða árátta margra fjölmiðla að í hvert skipti sem trúmál bera á góma er Gunnar í Krossinum kallaður inn sem álitsgjafi.

Þetta er flókið og áhugavert fyrirbæri og þó að Ísland sé örríki, þá er vel hægt að greina sömu strauma og fljóta um Bandaríkin og Evrópu.

Ég held að það sé alveg ljóst að við erum á barmi skelfilegra tíma þar sem vi horfum upp á fæðingarhríðir nýfasisma, einangrunaráráttu og hrað-lausna á flóknum málum.

Þetta gerist um á sama tíma og við horfum upp á fjörbrot samvinnu, umburðarlyndis og ábyrgðar.

Tími nashyrninganna er runninn upp.

 

Site Footer