HVENÆR ER MAÐUR OSTUR OG HVENÆR ER MAÐUR EKKI OSTUR?

Þar sem ég bý í landi sem er meðlimur í ESB er mér ljúft og skylt að greina aðeins frá því hvernig lífið gengur fyrir sig hérna í „Evrópusambandinu„. Mig langar að tala um osta því ekki er allt sem sýnist í þeim efnum.  Þegar ég flutti til Svíþjóðar fyrir svona 4 árum kom það mér mest á óvart hversu gríðarlegir sælkerar Svíar eru. Það snýst allt um mat hérna. Enda er hann góður. Þó ber varast sumt eins og gengur.


Við „stór-höndlum“ alltaf í búðinni Willy’s. Það er Bónus þeirra Svía. Þar kennir ýmissa grasa og úrvalið er geysilega gott. Ég verð eiginlega að taka fram að sænskir ostar eru tryllingslega góðir og miklar hefðir í kringum hinn og þennan. Vesterbotten-osturinn er alveg sér á parti og úr honum er búið til „Västerbotten pie“. Svo eru allskonar harðir presta-ostar og linir krakkaostar til. Virkilega góðar vörur en mér finnst ostar almennt frekar dýrir.

Um daginn sá ég heldur betur ódýran ost. Það var rifinn ostur og þar sem ég kaupi stundum svoleiðis þótti mér tilvalið að kaupa heilt kíló af þessum osti og fara með heim. Ég man nú ekki hvað þetta kostaði nákvæmlega en kílóverðið var svona helmingi ódýrara en annar rifin ostur.

Hérna er mynd af ostinum ódýra.

Ég prufaði ostinn ofan á pizzu en þá gerðust ósköpin. Þegar þessi ostur bráðnaði breyttist hann í þykka límkenda gula slykju. Alls ekkert góður. -Frekar vondur bara. Konan mín (sem er með mjög þróaða bragð-pallettu) þurfti ekki einu sinni að bragða þetta því lyktarskynið varaði hana við. Ég varð hvumsa og sagði henni að þetta hafi bara verið venjulegur pizza ostur. Hún tók pakkann og skoðaði.

„Teitur. Þetta er ekkert ostur“ var það næsta sem ég heyrði.

Við skoðun á pakkanum kom nefnilega fram að þetta var ekki ostur heldur „Riven blandprodukt basetat på mjölk och vetekabilisk fett“ (rifin bland-vara, búin til úr mjólk og jurtafeiti). Ég keypti sem sagt ekki ost, heldur eitthvað „blandprodukt“ hvað sem það nú þýðir.

Þessi misheppnaða innkaupasaga mín tengist Evrópusambandinu aðeins. Það ef nefnilega ekki bannað að framleiða rusl-mat í Evrópusambandinu. Það er hinsvegar bannað að auglýsa eitthvað sem það er ekki. Það er bannað að auglýsa „blandpródukt“ sem ost. Ég las ekki nógu vel utan á pakkan og lét gabbast.

Nú veit ég ekki með Ísland, en mig grunar Ísland hafi þurft að taka upp þessar sömu reglur í gegnum EES samninginn. Annars finnst mér neytendamál á Íslandi í algjörum ólestri. Vörumerkingar, innihaldslýsingar og þessháttar bera merki um mikið fúsk. Eftirlit virðist vera lélegt og iðnaðarsalts-málið er gott dæmi um það.

ESB snýst mikið til um neytendavernd. Það er allavega mín upplifun á þessu.

Þetta er hópur af ólíkum löndum sem tóku sig saman um að einfalda hlutina og sjá til þess að réttur íbúa innan félagsins sé meira og minna sá sami hvort sem er í Svíþjóð eða Portúgal. Sænska fyrirtækið á að fá að selja vöru í Portúgal og Portúgalska fyrirtækið á að fá að selja sína vöru í Svíþjóð. Þá þarf að hafa sömu skyldur á bæði fyrirtækin. Skilaréttur þarf að vera sá sami í báðum löndunum. Árs ábyrgð í Svíþjóð en 2 ára ábyrgð í Portúgal gengur ekki upp. Sama gildir um merkingar á vörunni. Þær þurfa að vera gefnar upp í sömu einingum sem dæmi

Þetta er algert reglugerða fargan. Því er ekkert hægt að neita. Þetta fer samt minkandi með ári hverju. Einhverju sinni var smokkaframleiðsla var stöðluð. Það voru gerðar reglugerðir um að smokkar verða að vera svona og svona stórir, svona og svona þykkir, þurfa að þola svona og svona mikið álag… o.s.fr. Sjálfstæðismenn hlógu sig máttlausa og bjuggu til brandara sem tengdust typpastærðum og eitthvað; „Svona lítur Evróputyppið út“.

-Mjög fyndið.

En þetta var einfaldlega liður í neytendavörn íbúa þar sem ESB samningurinn gildir. Það má alveg búa til vöru sem líkist smokk en það má ekki selja hana sem smokk. þessi vara verður að heita eitthvað annað. Eins og t.d „getnaðar hindrandi latex-vara“. Það má sennilega ekki selja þessa vöru í apótekum. Hún fær ekki gæðastimpla sem þarf til. Vöruna verður að selja með áberandi upplýsingum að ekki sé um að ræða hefðbundin smokk. Á áberandi stað!

Auðvitað kallar svona á reglugerðir. -Herregud.

Þetta hefur Sjálfstæðið aldrei skilið eða ákveður, eins og Björn Bjarnason, að veifa röngu tré en öngvu þegar .kemur að upplýsingum um Evrópusambandið. Þess verður þó að geta í lokin að í búðum í Svíþjóð fást ekkert minna en heimsins bestu ostar heimsins. Þessi er franskur og beinlínis svívirilega góður.

Læt ég nú þessu lokið en vona að einhverjir hafi haft gagn af þessu pári mínu. Næsta blogg úr „Sögur úr Evrópusambandinu“ mun fjalla um póst-lúgur.

.

Site Footer