Hundur Hundsson

Það var í desember 2003 þegar ég áttaði mig á því að ég var útundan. Að ég hafði verið skilin eftir, stungin af. Ég var tiltölulega nýkomin úr áfengismeðferð og var að púsla saman lífinu mínu. Leigði herbergi af félaga mínum og reyndi eftir bestu getu að krafsa mig fram úr lífi sem ég réð ekkert við. Ég átti ekki pening fyrir mat né jólagjöfum. Ég átti bara skuldir. Og litla dóttur sem ég sakaði óskaplega.  Það hafði hvarflað að mér að fara í biðröðina hjá Mæðrastyrksnefnd og fá eitthvað í jólamatinn en ég ýtti því alltaf frá mér. Það er svo skrýtið að þeir sem þurfa kannski mest á hjálp að halda, vilja ekki þiggja hana. Þessi tálsýn um jólamatinn flæktist fyrir mér. Ég bjó í næstu götu við Mæðrastyrksnefnd og stundum fór ég í göngutúr framhjá til þess að kanna aðstæður. Ég forðaði mér þó alltaf í burtu þegar ég sá einhvern nálgast. Eitt skiptið ákvað ég þó að fara bara í biðröðina og gefa skít í stoltið mitt sem hafði bara þvælst fyrir skynseminni minni. Ég arkaði af stað en þegar ég kom á staðinn var biðröðin lengri en nokkurn tímann. Ég kom mér fyrir aftast og beið með blóðugt hjartað, óttaslegin um að einhver þekkti mig. Birtist ekki bíll merktur Ríkissjónvarpinu með fréttateymi til þess að festa þennan hryggilega hóp á vídeóband fyrir kvöldfréttirnar. -Ég forðaði mér í burtu.

Þetta var of mikið.

Þegar heim var komið var andlegt ástand mitt frekar mikið í lamasessi. Ég var óskaplega reiður yfir þessum fréttamönnum.  Ég var reiður út í sjálfan mig fyrir að vera í þessari örmurlegu stöðu. Þegar ég kveikti á fréttunum var fyrsta fréttin um biðröðina löngu við Mæðrastyrksnefnd. Fréttamaðurinn sýndi óvænt frumkvæði og gékk á fund Davíðs Oddsonar sem þá var forsætisráðherra og spurði hann hvað honum fyndist um velferðarsamfélag þar sem fólk þarf að leita á náðir hjálparsamtaka til að ná endum saman fyrir jólin. Davíð móðgaðist við þessa spurningu enda skyggðu fátæklingar á glansmyndina um Íslandið sitt. Hann svaraði því til að ekkert væri að marka þessar biðraðir því að allstaðar þar sem væri eitthvað ókeypis, mynduðust biðraðir.

Fréttamaðurinn lét við sitja eftir þetta svar.

þarna þegar forsætisráðherran í landinu mínu gaf í skyn að ég væri sníkjandi aumingi, féllust mér hendur. Þessi orð Davíðs voru eins og svipuhögg á knýttri sálu minni. Sennilega segja þessi orð Davíðs Oddsonar meira um hans persónu heldur en frómustu ritgerðir um manninn. Hann leit ekki á sig sem æðsta embættismann þjóðarinnar, heldur sem oddamann í einhverri klíku sem hafði tögl og haldir í samfélaginu.  Venjulegur forsætisráðherra eða forseti heggur ekki þar sem hlífa skal. 
Ég mun aldrei gleyma þessum orðum Davíðs, hroka hans og mannfyrirlitningu.

1 comments On Hundur Hundsson

Comments are closed.

Site Footer