HUGLJÓMUN Í GIFTINGU

Ég fór í kirkjugiftingu í sumar sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að ég fékk hugljómun. Athöfnin var falleg eins og títt er um trúarritúöl, þéttsetnir bekkirnir af vinum brúðhjónanna og allir í hátíðarskapi. Það var þegar söngvari sem fengin var af skipuleggjendum brúðkaupsins hóf upp raust sína að ég uppgötvaði á allt að því harkalegan hátt, að nú var andstaða mín við ríkiskirkjuna ekki aðeins prinsippatriði heldur varð hún þarna dýpri en ég átti von á.

Ég hef alltaf verið andsnúinn hugmyndinni um Ríkiskirkju enda tel ég ásamt fleirum að þjóð geti ekki verið trúðuð því það er fólkið sem skipar þjóðina sem er trúað eða vantrúað. Það fellst í því verulegur ruddaskapur að 62. grein stjórnarskrárinnar kveði á um að allir Íslendingar skuli tilheyra hinni evangelísku lútersku kirkju nema annað sé tekið fram.

Ég hef líka verið því afar mótfallin að prestar Ríkiskirkjunnar skuli ástunda trúboð meðal leikskólabarna og hef barist kröftuglega gegn því sem kallað var Vinaleið. Eins og þetta væri ekki nóg, þá gerðist ég aktívisti á gamalsaldri og hef farið um meðal fólks og boðist til þess að leiðrétta trúfélagaskráningu þess. Ég hef einnig furðað mig á því að ég þurfi að greiða sóknargjöld til einhvers trúfélags. Ég hef engan áhuga á því að greiða 12.000.- krónur á ári til Ríkiskirkjunnar eða einhverrar annarar trúarstofnunar. -Ekki einn einasta áhuga takk fyrir.

Ég vil heldur ekki greiða til Háskólans, enda er beinlínis asnalegt að setja fólk í þá stöðu að ef það vill ekki greiða til A þá verði það að greiða til B. Þetta er álíka að allir Íslendingar séu skikkaðir í að borga til Þjóðdansafélagsins en vilji þeir ekki borga til þeirra verða þeir að borga til Listdansskóla Íslands. Nú starfa á Íslandi fjöldinn allur af skólum á háskólastigi og augljóst að jafnræðisregla er þverbrotin með því að einn skóli njóti þess að sumir vilji ekki greiða sóknargjald. En þarna þegar söngvarinn í brúðkaupinu hóf upp raust sína uppgötvaði ég að þessi listamaður sem hefur meirihluta tekna sinna af söng við giftingar, mun aldrei getað gift sig í Ríkiskirjunni! Hann er samkynhneigður og eins og allir vita þá mega samkynhneigðir ekki gifta sig í Ríkiskirkjunni.

Það hlýtur að vera svolítið skrýtið fyrir þennan frábæra söngvara að taka þátt í giftingarathöfn sem hann sjálfur er útilokaður frá. Það er þó sök sér að eitthvað trúfélag neiti að gifta samkynhneigð pör en ríkiskirkjan hefur einnig staðið í vegi fyrir því að önnur trúfélög geti gefið saman homma og lesbíur. Það var þarna sem óréttur ríkiskirjunnar fullkomnaðist fyrir mér.

Ég get alveg sagt með góðri samvisku að ég vil ekki sjá útsendara Ríkiskirjunnar inn í leikskóla sona minna eða í grunnskóla dóttur minnar. Skoðanir þessa trúfélag samlagast ekki hugmyndum mínum um réttlæti og góða breytni og eru sannarlega ekki til fyrirmyndar.

Þessi grein birtist áður á vantru.is.

Site Footer