HÆTTUR AÐ BLOGGA

Í gær gerðust þau stórmerki að inn í raftækjaflóru heimilisins, bættist svo kallaður „internet-sími“.  Hann er þeirrar náttúru að kostar oss ekkert að hringja til Íslands, eða bara hvert sem er í heiminum.  Ég hef því ákveðið að hætta að blogga og hringja bara í ykkur í staðinn.

Það er miklu persónulegra og já.  -Hlýlegra.  En eins og allir vita þá er mannleg hlýja á undanhaldi og fólk jafnvel skammast sín fyrir að taka sér þetta orð í munn.  Hinn kaldi andvari hafíss ómanneskjulegra samskipta, er ráðandi manna í milli og fólk er jafnvel hætt að horfa hvort á annað í augun og gónir þess í stað með hálflokuð augun á bringuspjalir viðmælanda sinna í von um að „rumpa þessu af“.  Væntanlega til þess að getað haldið áfram í World Of Warcraft, leiknum andstyggilega.

Þið munuð því eiga von á símatali frá mér.

Við getum talað um hvað sem er, en ég set þó takmarkanir við persónulega upplifun mína á kynferðislífi mínu og þeirra fjölmörgu rekkjunauta sem ég hef átt í samskiptum síðustu 30 árin. Um annað getum við óhikað spjallað án þess að múrar feimninar hindri för vora inn á lendur hinna hlýlegu og innilegu samskipta.

Mér hefur jafnvel dottið í hug að fara í stofna lítið fyrirtæki og fara í samkeppni við konuna sem segir „þetta númer er ótengt“.  En eins og alþjóð veit, þá er ekkert sérstaklega hlýlegt við það að hlusta á Kolbrúnu Halldórsdóttur segja manni hvað klukkan sé.  Kolbrún er þeirrar náttúru að þrátt fyrir umtalsverðan kynþokka samhliða mikilli fegurð, þá andar köldu frá henni, líkt og hún sé gerð úr ís.  Kolbrún hefur nú starfað í meira en áratug hjá fyrir „þetta númer er ótengt“  og full þörf á því að brjóta upp þetta spillingar-kerfi, þar sem einungis flokksgæðingar fá góðar vinnur hjá hinu opinbera.  Hitt er furðulegra og tilefni til rannsóknar að Kolbrún sinnti tveimur störfum þegar hún sat á Alþingi en eins og allir vita þá vann hún líka hjá símanum við að segja fólki að þetta númer sé ótengt? Tveggja manna maki?  Hvernig má þetta vera?  Er hægt að vinna 200% starf?

MIg langar að standsetja persónulegri þjónustu. Þá verður ekki svarað eins og þegar maður hringir í 118 með beinni ræðu, án kynningar eða inngangs, heldur mun verða svarað:

„Góðan daginn. Get ég aðstoðað þig“. 

Þá mun sá sem sem hringdi spyrja á móti.  „Ha? er þetta ekki hjá Alfreð Kúld?“ 

og þá mun ég svara: „Onei. Númerið hans er ótengt.. 

„Allt í lagi og þakka þér kærlega fyrir“ segir sá sem hringdi.

„Ekkert að þakka“
segi ég og bæti svo við „Elsku kallinn minn“ 

….Og legg svo tólið varlega á, en skelli ekki á eins og Kolbrún.

Site Footer