HÆTTIÐ AÐ BERJA BUMBUR

Ég skildi ekki þessa bumbu-mótmæli í síðustu viku og skil þau reyndar ekki ennþá.  Ég var því bara nokkuð sáttur þegar ég sá einhversstaðar að Hörður Torfason skildi þau ekki heldur.  Ég held að þessi mótmæli hafi ekki beinst að neinu sérstöku eins og mótmælin í Búsáhaldabyltingunni.  Þetta voru svona „helvítis fokkíng fokk-mótmæli“.  Þarna voru VG-liðar, sjálfstæðismenn, anarkistar og einstæðir foreldrar.  Mér hætti að lítast á blikuna þegar ég sá nasistafána á lofti í miðjum mótmælunum.

Ég skil ekki heldur punktinn með að hella fiskúrgangi fyrir utan heimili forsætisráðherra og fjármálaráðherra.  Ég bara skil þetta ekki.

Getur verið að þessi tryllingur hafi breiðst út eins og í sögunni um Svörtu strumpana?  Einn svartur strumpur hafi bitið i skottið á öðrum sem síðan breyttist í svartan strump, sem svo beit í annan og koll af kolli.  Getur verið að Ísland sé núna undirlagt af trítilóðum Ástþórum Magnússonum í jólasveinabúningum að sprauta tómastsósu yfir sjálfa sig og vegfarendur og frussandi út úr sér fáheyrðum samsæriskenningum?

Er það virkilega til eftirbreytni?

Þetta er allavega ekki Íslandið mitt. Það var öðruvísi og ég vona að lesendur séu sammála mér.  Ég held að Jónas Kristjánsson hafi hitt naglann á höfðuð þegar hann segir að Íslendingar neiti að horfast í augu við staðreyndina sem starir á okkur á móti. Staðreyndina að það er enginn ódýr leið út úr kreppunni.  Þetta verður ömurlegt og þetta mun taka tíma.

Það vantar sárvantar samstöðu um uppbyggingu en ekki samstöðu um niðurrif og gremju sem mér sýnist núna vera alsráðandi.  Nú hef ég ekkert legið á skoðunum mínum varðandi ástandið og ég leyfi mér
núna þann fáheyrða lúxus að skipta um skoðun.

Það er komið nóg af bumbu-berjandi eggjakösturum.  Þetta er orðið gott.  Skoðum alternatívið við núverandi stjórn.  Þjóðstjórn segja Sjálfstæðismenn og berja ser á brjóst glaðhlakkaralegir.  Hvað þýðir það?  Jú Stjórnlagaþingið verður slegið af og ekki verður hróflað við kvótakerfinu.  Þjóðstjórn eða utanþingsstjórn er út úr kortinu.  Hinsvegar mætti ríkisstjórnin styrkja sig með aðkomu Hreyfingarinnar. Það væri skilaboð sem gæti ekki misskilist.

Þótt að núverandi stjórn sé sannarlega slöpp, þá er ljósið við enda ganganna skýrara með hverjum deginum.  Stjórnlagaþing verður að veruleika.  Það er kannski ekki alveg eins og hörðustu lýðræðiselskendur hafa hugsað sér, en samt bara fjári gott.  Það hyllir undir stofnun nýs lýðveldis með nýjum reglum og það er undir okkur Íslendingum komið hvernig tekst til með úrvinnsluna.

Má ég frekar biðja um 1000 manna hóp, valin af handahófi úr þjóðskrá til að stilla af kúrsinn, en einhverjum jólasveinum með eldspýtur.  1000 manna hóp í staðin fyrir einhverja Ástþóra sem hella óþverra fyrir utan heimili stjórnmálamanna.

Nú bið ég lesendur að fylla lungun af lofti. Opna 7-up og sökkva tönnunum í Conga súkkulaði.  Anda frá sér og reyna að heyra eigin hjartslátt.

Verkefnið sem ríkisstjórnin er að fást við er ekkert smáræði.  Það er verið að vinda ofan af 18 ára valdatíma einhverrar ógeðfeldustu hugmyndafærði Íslandssögunnar.  Frjálshyggjunni sem var í raun enginn frjálshyggja í venjulegum skilningi heldur eitthvað annað.  Þjófræði er það sem mér dettur einna helst í hug.  Fiskiauðlindinni var stolið af þjóðinni og bankakerfinu var stolið af þjóðinni.  Öllu efnahagskerfinu þakka ykkur fyrir.

Gjaldmiðillinn okkar var undir náð og miskunn gerspilltra bankaelítu sem skaffaði sér nóbelsverðlaun í mánaðarlaun.  Nú fattar fólk kannski ekki tengslin milli þess að genginu sé stýrt af fámennum hópi banka-bófa, en í raun þýðir það að þeir gátu ekki tapað.  Gengið lækkaði um 1% og dekkaði þar með hagnað bankanna.

Við vorum rænd.

Ríkisstjórnin situr uppi með skaðann. Ekki þeir sem ollu honum!  Þau gala nú hæst um „þjóðstjórn með aðkomu allra flokka“.  Pælið aðeins í því.  Við megum ekki gleyma eitt andartak hvernig þetta byrjaði.  Ekki andartak. Fókusinn verður að vera skarpur.

Í ofanálag bætist svo við gerspillt mannaráðningarkerfi sem hefur grasserað allt frá lýðveldisstofnun og reyndar fyrr ef fólk hefur áhuga á því að fara aftur í sögunni þegar Ísland var nýlenda Dana. Þetta er þjóðarmein Íslands og öllum hafís verri.

Svo er flokkakerfið ónýtt ef einhver hefur ekki tekið eftir því.  Reyndar var ein manneskja sem tók eftir því og hafði orð á því eftir stórsigur Bestaflokksins í sumar. Það var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún lýsti beinlínis yfir dauða flokkakerfisins í sjónvarpsviðtali eftir að úrslitin voru ljós.  Enginn virðist hafa haft rænu á því að skoða þessa merkilegu yfirlýsingu betur.

Já flokkakerfið er dautt. Þingið nýtur ekki trausts.  Það er bara svo einfalt. Ekki endilega vegna þess hvað á á hefur dunið undanfarna áratugi, heldur líka hvað hefur gerst síðustu 10 daga.  Landsdómsmálið var að mínu mati svanasöngur flokkakerfisins og vinahyglinnar.  Það var ALLT að þessari atkvæðagreiðslu.  Eftir vel unna skýrslu og von um einhverskonar réttlæti féll málið ofan í skotgrafir flokkanna og vinahyglinnar.  Þó má segja að einn (Geir)fugl í hendi sé skárri en þrír í skógi. Svo tóku þátt í atkvæðagreiðslunni þingmenn sem áttu beina hagsmuni að málinu. Ef þau hefðu sómatilfinningu að bera, hefðu þau sagt sig frá atkvæðagreiðslunni og kallað til varamenn.  En það er þetta með sómatilfinninguna og alþingismenn….

Tíðindin eru samt þau að flokkakerfið er ónýtt. Það er búið ….og það er gott.

Hugsum okkur aðeins næstu kosningar sem verða vonandi eins og í Svíþjóð, þar sem kjósandi raðar frambjóðendum á listann sinn, og hefur þar með allt að segja um endanlega niðurröðun.  Hugsum okkur aðeins það.  Hugsum okkur að persónukjör væri innleitt inn í kosningakerfið okkar.  Hugsum okkur að við losnum undan oki prófkjarakerfisins (sem Sjálfstæðsmenn segja vera „afar farsælt“) Hugsum okkur aðeins það.  Ég held að þetta muni gerast og það fyrr en síðar.

Stjórnlagaþing er lykillinn af því.  Ekki jólasveinar að kveikja varðeld á Austurvelli. Ekki andstyggilegir nasistar í slag við anarkista með flaxandi dread-lokka.

Ekki bara að ég skil ekki bumbu-mótmælin, þá skil ég ekki heldur þetta með „skuldir heimilanna“.  Hvaða skuldir eru þetta?  Hverju er hægt að redda?  Hvað á að gera?  Mér finnst lítið réttlæti í því að redda einhverjum kjánum sem slógu risa-lán til þess að kaupa sé alltof dýrt húsnæði.  Alveg sama um „forsendubrest“ eða þvíumlíkt.

Ég vil fá að vita hvernig staðan raunverulega er!  Ég vildi sjá einhverjar aðgerðir (sem reyndar eru víst í gangi nú þegar) sem aðstoða „venjulegt“ fólk.  Fólk sem hagaði sér ekki eins og fífl.  Pælum aðeins í einu:  Hvað er hægt að gera fyrir fólk sem keypti sér alltof dýrt hús og missti vinnuna?  Er ekki bara eðlilegt að bankinn taki húsið og selji fyrir kostnaði?

Er óvinsælt að tala um þetta?  -Má það?

Ég heyrði af fjölskyldu sem býr í villu við Elliðavatn. Þau hættu að borga af húsinu sínu árið 2008. 300.000 á mánuði.  Hættu því barasta.  Þau hafa ekkert skorið niður í lúxusnum þrátt fyrir þetta og nýir bílar eru álíka merkilegir hjá þessar fjölskyldu og þegar trópíkana var keypt þegar foreldrar mínir voru að byggja árið 1975.  Endalausar utanlandsferðir og þvíumlíkt.

Nú veit ég að þetta er sennilega ekki erki-dæmi um ástandið, en samt dæmi sem á sér margar fyrirmyndir. það er fullt af svona dæmum.

Er ég með lausn á þessu?  Nei.  Ég er ekki með hana.  Ég er samt viss um að einhver sé með einhverja hugmynd sem gæti deyft áhrifin af þessari ömurð.

Og auðvitað er sárara en tárum taki að horfa upp á afskriftir fjárhættuspilaranna.  Algerlega óþolandi.  Það blossar upp í mér reiðin þegar ég les um Bjarna Ármannson sem fékk 800 miljónir í afskriftir af fyrirtæki A en tók sér „arð“ upp á 400 miljónir úr fyrirtæki B.  Á sama árinu!!!

Núna bið ég fólk enn og aftur að fá sér annan sopa af seven-up og bíta í Lindu-buff….

Hverjir haldið þið að greiði upp tapið af þessum viðskiptum?   Viðskiptavinir Glitnis.  Eigendur gjaldmiðilsins.

Almenningur..

Auðvitað er þetta óþolandi.  En í staðinn fyrir að klæði sig upp eins og Hurðaskellir og bera uppsóp úr einhverju frystihúsinu á tröppurnar hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, mælist ég til þess að fólk skipti um banka.  Fari í þennan eina sparisjóð út á landi sem enn stendur og tók ekki þátt í helvítis vitleysunni.  Það er „Action Direct“.  -Það meiðir þar sem það á að meiða.

Það er uppreisn og það er andóf.

Það kostar kannski einhverja þúsundkalla, en það kostar að búa í almennilegu samfélagi.

Í beinu framhaldi af þessari pælingu:  Hversvegna stofna Íslendingar ekki nýjan banka?  það eru hundruð miljarða í bankakerfinu á neikvæðum vöxtum sem myndu duga til þess að stofna almennilegan banka sem byggður er upp á samfélagslegum gildum.  Ekki gróðahyggju.  Svona fordæmi eru allt í kringum okkur og meir að segja var sparisjóðakerfið svona uppbyggt áður en græðgin náði yfirhöndinni.

Sparisjóðakerfið var svo illa leikið af drýslum í jakkafötum með allskonar stofnbréfa-braski að ómálga ungabörn og látið fólk var skrifað sem stofnfjáreigendur í sparisjóðunum!!

-Nú bullar í mér reiðin lesendur góðir.

Auðvitað er ástandið ömurlegt og auðvitað er óþolandi að reyna að finna samstöðu með bankaskrílnum og siðlausum þingmönnum en ég held að það sé samt eina leiðin. Það sker inn í hjartað þegar ég skrifa þetta en uppgjörð við bankaskrílinn og hönnuði hrunsins verður bara að bíða betri tíma.

En þeirra tími mun koma.  Hann mun koma.  -Hann mun koma!

Ég vildi óska þess að sjá kröftugt þing. Það getur bara gerst með einhverskonar stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar og þá ég að tala um að fá Hreyfinguna inn í samstarfið.  Ekki til að tryggja „örugga atkvæðagreiðslur“ heldur til að fá inn hugmyndir Búsáhaldabyltingarinnar og þá fínu þingmenn sem þar eru.  Stærstu mistök VG og Samfylkingarinnar voru gerð á upphafsmínútum stjórnarinnar þegar þau Jóhanna og Steingrímur ætluðu bara „að taka þetta“ eins og hvert annað djobb.

Gamlar hugmyndir. Gamlar lausnir og gamlir þingmenn.

Þetta er síðasta þingið sem flokkakerfið ræður einhverju.  Næstu kosningar verða öðruvísi og betri. þá mun hinum feysknu verða rutt í burt og nýjr flokkar og nýtt fólk taka völdin.  Ég er sósíaldemókrati og ég er í Samfylkingunni.  Því miður er það svo að Samfylkingin er ekki krataflokkur heldur eitthvað annað.  Takið eftir því að Samfylkingin var stofnuð í kringum hinn hroðalega og skammlífa Blairisma sem tröllreiðBretlandi fyrir áratug eða svo.  Búandi í Svíþjóð veit ég að Blair er  fyrirlitinn af öllum krötum og lausn hans um „þriðju leiðina“ eru álitnar andfélagsleg þvæla og útúrsnúningur.

Blairisminn situr í Samfylkingunni og því miður er það svo að margir þingmenn Samfylkingarinnar skilja ekki hugmyndina um sameign. Skilja ekki sameignarhugtakið.  Þau eru menguð af áróðri Sjálfstæðismanna um að ríkisrekstur sé svo slæmur.  Sem er bara þvæla, og ef alternatvíð, einkarekstur er tekin til viðmiðunar, þá held ég að mantran um að einkarekstur sér svo frábær, hafi verið grafinn með „gömlu“ bönkunum.

Ástandið er ömurlegt og mun sennilega ekkert skána í bili.  Ég hef enga lausn sérstaka aðra en að bíða ástandið af sér.  Ég trúi ekki á „stóru lausnina“, álver eða þvíumlíkt.  Ég trúi frekar á mörg lítil og millistór fyrirtæki.

-Ég trúi á litlu lausnina.

Ég trúi á stelpuna sem er að hanna tölvuleik meðan vinir hennar eru í jólasveinabúningum á Austurvelli að berja Óla Björn Kárason.  Ég trúi á gaurinn sem er að hanna föt þegar hann er búin í vinnunni á Hressó.  Ég trúi á unglinginn sem ber út Fréttablaðið til þess að safna sér fyrir nýrri DELL tölvu.  Ég trúi á hjónin sem reka sjoppuna á Vesturgötu.  Gaurana í dekkjaverkstæðinu.  Kallinn sem er að verka saltfisk í bílskúrnum hjá sér.  Konuna sem prjónar lopapeysu  Kokkinn sem er búin að finna upp frábærustu uppskrift af humarsúpu í heiminum.  Ég trúi á auglýsingasölumanninn sem fær 100 nei en gefst ekki upp.

Ég trúi á þetta fólk.

-Af öllu hjarta og allri minni ást.

Site Footer