kdkdkdkdkdkkdkdkdkdkd

HRINGRÁS FÁVISKUNNAR

Í gær voru kappræður á Stöð2 í kringum forsetakosningarnar.  Stöð 2 ætlaði að búa til gott sjónvarp úr þessu tækifæri og í anda hipps og kúls, var reynt að fá þá tvo frambjóðendur sem mest fylgi hafa til þess að kappræða um eigið ágæti.  Öðrum frambjóðendum var ekki boðið.  Eftir að Þóra Arnórsdóttir hótaði að sniðganga þessar kappræður, var ákveðið að bjóða hinum 4 frambjóðendunum með til leiks.  Stöð2 átti ás upp í erminni og vildi bara leiða saman tvo og tvo frambjóðendur og enda á upphaflega konseptinu að leiða Þóru og Ólaf saman í æðisgengnum kappræðum.

Auðvitað er þetta geysilega dónalegt, ólýðræðislegt og plebbalegt.

3 frambjóðendur gengu út undir og Herdís Þorgeirsdóttir sagðist styðja ákvörðun þeirra og sagði eðlilegra að dregið hefði verið um niðurröðun kappræðumanna.   Þorbjörn  Þórðarson, sem stýrði þessum kappræðum skaut þá framm í „En þið stjórnið ekki dagskrárgerð Stöðvar 2 og við skulum bara gera gott úr þeirri stöðu sem uppi er komin“. 

Þetta er alveg frábært dæmi um þann hálfan skilning sem einkennir öðru fremur íslenska umræðuhefð.  Manneskja kemur fram með gagnrýni og er svarað með dylgjum.  Sé þetta svar Þorbjarnar Þórðarsonar sett  í annað samhengi, sést vel hve hugsanaþroskinn er skammt á veg kominn.

Í tölvubúðinni:   Spurning:  „Eru til fartölvur sem eru aðeins léttari en þær sem þú hefur sýnt mér“  Svar: „Þú stjórnar ekki innkaupastefnu fyrirtækisins og við skulum bara gera gott úr þeirri stöðu sem uppi er komin“.

Í þjónustuveri Póstsins:  Spurning:  „Pósturinn minn er alltaf blautur þegar rignir. Það er mjög furðulegt því að nágranni minn er ekki með sama vandamál“.  Svar: Þú stjórnar ekki vinnureglum fyrirtækisins og við skulum bara gera gott úr þeirri stöðu sem uppi er komin“

Við stöðumælavörðinn:  Spurning:  „Þú sektar mig, en ekki þennan við hliðina – Hvernig stendur á því? “  Svar:  „Þú skrifar ekki reglugerðina um stöðumælasektir og við skulum bara gera gott úr þeirri stöðu sem uppi er komin“

Takið þið eftir hvaða munstur er komið upp?  Gagnrýni er svarað út í hött og af sjálfsréttlætingu sem á sér enga stoð í óbrjálaðri heimsmynd.  Þessi tegund umræðu er löngu orðin samþykkt og afleiðingarnar eru þær að íslendingar geta ekki rætt nokkurn skapaðan hlut af einhverju viti.

Hringrás fáviskunnar endurtekur sig aftur og aftur.

Leave a reply:

Your email address will not be published.

Site Footer