HREYFINGIN Í LYKILSTÖÐU

Ég hef oft viðrað þá hugmynd mína að Hreyfingunni hefði átt að vera boðið í hópinn þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð.  Það virkaði alltaf svolítið þvermóðskulegt á mig þegar Steingrímur og Jóhanna ætluðu bara „að taka þetta“.  Það hefði verið betra að hafa með sér Hreyfinguna sem var sannarlega birtingarmynd um ákall til einhverskonar breytinga.

Hreyfingin hefði líka haft gott af því vegna þess að það er svo undur auðvelt að standa á hliðarlínunni og öskra eitthvað út í loftið.  Málamiðlanir, tilslakanir og eitthvað alvöru „vision“ eru stjórnmálafólki jafn mikilvæg og plús og mínus fyrir stærðfræðinginn.

Það gengur ekkert upp að æpa í sífellu um einhvern órétt og einhver mistök og einhverjar leiðir sem hefðu kannski verið betri en sú sem var farinn.  Það er líka óábyrgt af ástæðum sem ég ætla ekki að fara út i hér og nú.

En það sem er svo frábært er að borðið hefur snúist og alveg hægt að segja að Hreyfingin sé með líf þessarar ríkisstjórnar í hendi sér.  Því fylgir vald og valdi fylgir ábyrgð.  Það sem blasir við er að Hreyfingin getur náð í gegn fullt af málum sem þau settu á oddinn í fyrir síðustu kosningar.

Kosningar um nýja stjórnarskrá  – – Persónukjör – – Lýðræðis-væðing samfélagsins

Svo má týna til fleiri dæmi svo sem:

-Koma
málefnum flóttafólks í almennilegt horf og rannsaka hvernig það gat gerst að flóttafólk, með ókláruð mál í gangi fyrir dómstólum, var handtekið um miðjar nætur og vísað úr land

-Koma á fót embætti umboðsmanns flóttafólks. Nokkuð sem hefur verið á döfinni hjá Hreyfingunni og er frábær hugmynd.

-Þak á ofurlaun í bankakerfinu og bann við launalegu hvatakerfi. Þetta myndi vekja heimsathygli og vera öðrum þjóðum innblástur til þess sama. Bónusa-þvælan í þessum tiltekna atvinnugeira er alheims-mein. Stjórnmálamenn í Svíþjóð (þar sem ég bý) vita ekkert hvað þau eiga að gera í þessu og almenningur sem og fjölmiðlar hata þetta fáránlega ástand.

-Svo eru til áttaþúsund aðferðir og leiðir til þess að
skapa mannlegra og betra samfélag á Íslandi. Vilji og góðar tillögur er
allt sem þarf.

Sem kjósandi Borgarahreyfingarinnar, mælist ég eindregið til þess að þingmennirnir „mínir“ hugsi nú verulega sinn gang og þá stöðu sem liggur kylliflöt fyrir framan þau.  Hún er nefnilega svolítið makalaus.  Auðvitað er mikið léttara að „taka reiðu manneskjuna á þetta“ og eyða tímanum í að finna upp frasa á móti ríkisstjórninni.  En hin leiðin er sú að gera eitthvað, skilja eitthvað eftir, planta fræi, veita öðrum innblástur og taka slaginn.

-Íslandi vantar nefnilega hetjur.

 

Site Footer