Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð

Ég skrifaði grein á vantrú.is og hér er hún komin á Eimreiðina.

Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun

Nýjasta æðið í óhefðbundnum lækningum er svokölluð höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Meðferðin er fólgin í því að sjúklingurinn er látinn liggja á bekk meðan höfuðbeinasérfræðingurinn fer fimum höndum um höfuðbein og spjaldhrygg sjúklingsins. Lykilatriði er að beita ekki miklum þrýstingi heldur nota eins lítinn kraft og unnt er. Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð á að lækna allt frá lestrarörðugleikum til heila- og mænuskaða. Þar sem ég var nýbúinn að frétta af norskri rannsókn um gagnsleysi höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferðar, vakti þessi starfsemi forvitni mína. Ég kynnti mér málið og komst að óvæntri niðurstöðu.

I. Svikin vara.

Höfuðbeina- og spjaldhryggs jafnarar halda því fram að með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð sé hægt að lækna allt frá minniháttar kvillum til flókinna og illviðráðanlegra vandamála eins og mænuskaða. Þetta eru stórar fullyrðingar sem krefjast skoðunar. Hlutlausar rannsóknir hafa leitt í ljós að það er ekkert sem sannar ágæti höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferða. Norska rannsóknin leiddi það m.a. í ljós. Helsta gagnrýnin á höfuðbeina- og spjaldhryggmeðferð (fyrir utan gríðarlega óþjált heiti) eru eftirfarandi atriði:

 • “Cranal bone movement” fyrirfinnst ekki nema í börnum sem hafa ekki náð kynþroska. Hjá kynþroska manneskju er höfuðkúpan orðin föst og hörð. Ekki er mögulegt að hreyfa við stökum höfuðbeinum. Höfuðkúpan er eitt stykki í fullorðnu fólki. Höfuðbeinin hafa gróið föst saman. Þess ber að geta að “Cranal bone movement” er aðalforsenda þessara svokölluðu höfuðbeina- og spjaldhryggsvísinda.
 • “Cranial Rythm” er ekki til sem fyrirbæri. Rannsóknir hafa sýnt að þrýstingur í mænuvökva er fyrir tilverknað hjarta- og æðakerfis en hvorki vegna höfuðbeina- og spjaldhryggjar né stoðkerfis líkamans.
 • “Cranial Rythm” er ekki hægt að tengja við sjúkdóma. Enginn rannsókn hefur gefið til kynna að þrýstingur í mænuvökva tengist almennri heilsu okkar.
 • Svokallaðir “höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnarar” geta ekki fundið út þrýsting í mænuvökva. Meintur “Cranial Rythm” finnst aðeins með flóknum tækjabúnaði. Manneskja sem hefur lokið nokkura mánaða námi getur ekki fundið slíkan þrýsting. Þegar “höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari” segist finna þennan þrýsting er sá hinn sami að fara með rangt mál.
 • Það þarf ekki mikla reynslu af lífinu og heilsufari fólks til þess að fatta að ofurnettar handayfirlagningar bæta hvorki né laga ástand á borð við heila og mænuskaða eða námsörðugleika eins og „höfuðbeina- og spjaldhryggsfræðingar“ halda fram.

II. Sjúku fólki seld varan.

Eins og alltaf í dæmi “óhefðbundinna lækninga” er kúnnahópurinn fólk sem hefur ekki fengið bót sinna meina hjá hefðbundnum læknum og leitar því á önnur mið í von um bata. Eins og heilbrigðiskerfið er rekið í dag þá eru læknar önnum kafnir og hafa ekki tíma til að sinna sjúklingum sínum eins og þeir sennilega vildu sjálfir. Margir sjúklingar þurfa oft bara að tala um bágindi sín. Þurfa að fá einhvern til að hlusta á vandamál sín. Þessu atriði geta læknar í dag sjaldnast sinnt vegna anna. Ímyndum okkur að manneskja komi til læknis vegna bakverks og fengi fulla klukkustund með lækninum sínum. Læknirinn skoðaði sjúklinginn, setti hann á bekk, tæki myndir, talaði um mikilvægi réttrar líkamsstöðu og mataræðis. Ímyndum okkur síðan að þessi læknir spjallaði lengi um mismunandi meðferðir og mælti með samblandið af lyfjatöku, léttri leikfimi, bættum svefnvenjum og nýju mataræði. Ímyndum okkur svo að þessi umhyggjusami læknir hringdi 2 dögum síðar í sjúklinginn sinn og athugaði hvernig meðferðinni miðaði. Sjúklingurinn mætir síðan vikulega í 8 vikur. Ætli sjúklingnum liði ekki barasta betur? Í þessu tilfelli er einhver sem sýnir sjúklingnum áhuga. Nokkuð sem heilbrigðiskerfið okkar getur í raun ekki gert vegna anna. Vestrænar lækningar hafa nefnilega aðgreint sjúkdóminn frá sjúklingnum mörgum sjúklingum til mikillar gremju. Fólk með verk í baki fer til læknis og er afgreitt á innan við 5 mínútum! Útskrifað með lyfseðil og 2000 krónu reikning fyrir komuna til læknisins! Mörgum þykir þetta frekar ómerkileg afgreiðsla miðað við þjáninguna sem bakverkurinn hefur valdið. Það er þarna sem óhefðbundnar lækningar virka best. Sjúklingurinn sjáfur fær þá athygli sem hann þarf. Sjúkdómurinn er hinsvegar óáreittur þrátt fyrir handayfirlagningar og léttan þrýsting á ennisblað.

III. Blekkjarinn blekktur.

Hið viðskiptalega snilldarverk í uppbyggingu s.k. “óhefðbundinna lækninga” er sú staðreynd að það eru ekki bara “sjúklingarnir” sem eru féflettir. Heldur einnig “læknarnir”. Flestar greinar óhefðbundinna lækninga bjóða upp á einhvers konar skóla þar sem almenningi býðst að ljúka prófi í viðkomandi lækningaafbrigði. Það eru því tiltölulega fáir sem hagnast verulega á óhefðbundnum lækningum. Það eru þeir sem reka svokallaða skóla og útskrifa nemendur í óhefðbundnum lækningum sem hagnast best á óhefðbundnum lækningum. -Það er verið að plata platarana! Það er kaldhæðnislegt að stærstu tapararnir í þessu apparati eru nemendurnir í þessum skólum. Þeir þurfa margir hverjir að kosta til umtalsverðum peningum í þetta tilgangslausa nám. Arómaþerapistar bjóða upp á skóla. Nám þar kostar uþb. 210 þúsund krónur auk efniskostnaðar sem er á bilinu 100 – 150 þúsund. Nám í smáskammtalækningum er ástundað hérlendis og kostar verulegar upphæðir. Nám í svæðanuddi er stundað af 2 félögum hér á landi. Það virðist því góður peningur í að “mennta” þá sem vilja útskrifa óhefðbundna lækna. Í dæmi höfuðbeina- og spjaldhryggjafnara sést vel að eftir nokkru er að slægjast því að nú er hægt að læra höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun á 2 stöðum og s.k. “Bowentækni” er hægt að læra á einum stað, en þessari Bowentækni er svipar mjög til höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar og er jafn gagnslaus. Ef skoðuð eru félagatöl höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara á Íslandi kemur í ljós að félögin tvö hafa samtals útskrifað um 400 nemendur á síðastliðnum árum. Ef hvert nám kostar um 250.000.- þá hefur þetta fólk greitt þessum höfuðbeinaskólum 100.000.000.- fyrir viðvikið. Bowentækni er ný á markaðnum en hefur þegar útskrifað 76 manns. Alls þurfa nemendur að klára 5 stig og verð fyrir gráðuna er ekki undir 250.000.-. Samtals hafa þessir nemendur því greitt a.m.k. 19.000.000.- Að námi loknu er þetta fólk hvatt til þess að sækja s.k. “framhaldsnámskeið” í faginu. Hvert aukanámskeið kostar á bilinu 50 til 150 þúsund. Stundum eru þessi námskeið erlendis og þá rýkur verðið upp. Nýjasta og sennilega ógeðfelldasta viðbótin við þetta peningaplokk eru sérstakar meðferðir ætlaðar börnum; Ungbarna heilun, ungbarna höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og ungbarna þetta og hitt. Allt er þetta kennt og nemendurnir herja síðan á foreldra veikra barna og að lokum þurfa börnin sjálf að upplifa þetta tilgangslausa hnoð. Það er örugglega stutt í að þá verði farið að bjóða upp á höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnum fyrir aldraða, sem hefur sérstaka virkni gegn minnisglöppum og stuðlar að langlífi. Hvað með höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun gegn getuleysi? Er það ekki handan við hornið eða er það þegar komið? Það eru enginn takmörk fyrir græðgi þessara fúskara sem svífast einskis í þeirri viðleitni að græða fé. Það er ekki að undra að nafn regnhlífasamtaka óhefðbundinna lækninga er skammstafað B.I.G. eða Bandalag íslenskra “græðara”.

13 comments On Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð

 • Sæll. Ágæt samantekt hjá þér en mér finnst þú alhæfa full mikið um gagnsemina og með rökum sem enginn vandi væri að snúa upp á „hefðbundnar“ lækningar.
  Margar þeirra óhefðbundnu sem þú talar niður, s.s. svæðanudd á sér mun lengri sögu og því erfitt að segja að þar sé um óhefðbundna lækningu að ræða.
  Sama má segja um grasalækningar sem ég hef góða reynslu af. Hef það fengið áþreifanlega lækningu sem ég var farinn að örvænta um eftir að hafa leitað til „hefðbundins nútíma sérfræðings“ í 8 skipti. Hann rukkaði 6 þúsund kall fyrir skiptið(afar „hefðbundið“ peningaplokk) en grasakonan 1500 og aðeins tvö skipti nauðsynleg.
  Kv. Dofri.

 • Opna hugann.

 • Takk fyrir svarið Dofri. Þó að svæðanudd sé gamalt þýðir það ekki að það geri gagn.

  Ég er algjörlega sannfærður um að ef svæðanudd, grasalækningar, áruhnoð, live-wave plástar, Bowentækni og hvað þetta nú allt heitir, virkaði…

  …þá myndi lyfjageirinn strax tappa inn á þetta. þá væri árunudd kennt í Háskólum heimsins en ekki á 10 daga námskeiði á Ránargötu.

  -Come on!

  Þegar lyfjarisarnir þefa lykt af tíkalli þá opna þeir veskið og dæla peningum í rannsóknir.

  Reynslusögur hafa ekkert að segja. Ekki einu sinni þín saga. Tvíblindar rannsóknir eru einfaldar og ábyggilegar. Þær benda allar til þess að þetta virkar ekki. Svo einfalt er það nú bara.

 • Í sumum tilfellum er kannski nóg að trúa á þetta til þess að læknast og þá er er tilgangnum náð:)

  bk ob

 • Það á bara að kæra fólk sem er með svon húgga búgga vísindi. Eins er það með nýjasta æðið detoxe, þ.e. að sjúga úrganginn úr fólki. Það er óþolandi að fólk geti féflett þá sem eru kannski í vonleysi sínu að leita sér lækninga. Eins má taka inn í þetta mðla og allskonar aðra kuklara.

 • Ég tek undir með Teiti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að margir þakka óhefðbundnum lækningum bót meina sinna, en það eru ekki vísindi. Vísindin nýta sér t.d. tölfræði, sem er þaulreynd að gagnsemi, og þau finna út hvort þetta, eða hitt virkar, með því að grandskoða reynsluna af hinum og þessum lyfjum og öðrum meðferðum.

  Einhver getur verið fullkomlega sannfærður um að hómópatía hafi læknað sig, en það þarf engan vegin að vera tilfellið, þó svo að sjúklíngurinn sé algerlega sannfærður um að svo sé. T.d. er það bara þannig, að flest mein læknast fyrr eða síðar, nema þau hreinlega drepi mann. Maður getur verið búinn að þjást af eihverjum kvilla árum saman og eftir að hafa gengið á milli lækna og prófað hina og þessa áburði og pillur fer manni að líða betur. Og það vill svo til að maður var einmmitt um þær mundir að njóta þjónustu hómópata, eða grasalæknis. Þá er eðlilegt að maður þakki honum lækninguna.

  Opna hugann!

  Theodór Gunnarsson
  teddi@talnet.is

 • Ég hef kannski ekki sterka skoðun á öðrum óhefðbundnum lækningnum, en höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferð fær 0 í einkunn hjá mér. ég fór einhvern tíma í einn þannig tíma og meðferðaraðilinn hafði miklar áhyggjur af hnjánum á mér (ekki hef ég áður fundið neitt að þeim). hún spurði ítrekað hvort ég hefði verið kynferðislega áreitt sem barn – hnén á mér bentu nefnilega til þess!! ég hef ekki verið kynferðislega áreitt, en hvað hefði konan gert ef ég hefði sagt já? var hún á einhvern hátt hæf til að takast á við slíkt?
  eftir þessa reynslu get ég alls ekki mælt með þessu, algjörar skottulækningar að mínu viti.
  -Helga

 • Takk Helga.

  Þessi saga þín segir í raun allt sem segja þarf. Þetta eru fúskarar með 2 vikna námskeið í höndunum. Engar frumkröfur bara „viljann til að gera gott“..

  Ég hef áhuga á að heyra meira frá þessar sögu þinni. Værir þú til í að segja mér hana? Ég er þess fullviss að hún verður öðrum víti til varnaðar. Sendu mér e-mail ef þér sýnist svo. teitur.atlason@gmai.com

  Þú þarft ekkert að koma undir nafni eða þvíumlíkt. Bara nokkrar línur.

  Kv. Teitur.

 • Vill byrja á því að benda á að ég trúi ekki á neitt af þessu.

  En svo komum við að markaðsþáttunum í þessu. Lyfjarisar og vestræn læknisfræði viðhalda sér með skorti á þjónustu og sérhæfingu til að geta veitt hana.

  Ef það kæmi í ljós að þetta nuddkukl, sem þarf 10 tíma námskeið til að læra, læknaði krabbamein. Hver myndi tapa mest á því?

  Það væri gengisfelling á margra ára sérfræðinám krabbameinslækna og gerði krabbameinslyf gagnslaus.

  Þannig að við skulum ekki búast við að það hoppi allir strax til og rannsaki kosti húmbúksins ef þeir græða ekki á því.

  Þrátt fyrir þetta er ég nokkuð viss um að meirihlutinn af húmbúkkinu sem er í boði sé bara peningaplokk.

 • Ég fatta ekki þessa læknadýrkun. Hversu oft hefur ekki fólk farið til hefðbundins læknis án þess að fá meina sinna bót. Samt er það ekki að úthrópa þá sem svindlara. Svo eru þessir læknar með ævilanga birgði af námslánum. Það er ekki eins og þeir þurfi ekki að borga fyrir námið sitt líka. Mér finnst þessi rök amk mjög slöpp.

  Lyfjafyrirtækin myndu ekki grípa tækifærið ef óhefðbundnar lækningar virka, því það þýðir að þeir myndu missa spón úr aski sínum. Þvert á móti þá búa þær til rannóknir sem sýna framá gagnsleysi óhefðbundinna lækninga. Það er ekki hægt að horfa bara á eina rannsókn og lesa úr henni það sem maður vill.

  Auðvitað eru hefðbundnar lækningar gagnlegar líka en þær eru langt frá því að vera 100%, það má ekki gleyma því. Ef þú gefur pensilín bara nógu oft þá hlýtur það að virka einhvern tímann, ekki satt!

  Ég á enga hagsmuna að gæta, er hvorugu megin borðsins. En öfgar og forpokaháttur fara illa í mig.

 • Ég er nú alveg sammála þér um að það verður að sýna fram á gangsemi meðferða með rannsóknum og að reynslusögur séu ekki gild rök. Þess vegna finnst mér skjóta svolítið skökku við að þú ert tilbúin til að nota reynslusöguna frá Helgu til að sýna fram á að græðarar séu upp til hópa fúskarar, það eru alveg jafn léleg vísindi og þeir sem dásama óhefbundnar meðferðir með eigin reynslusögum eða reynslusögum frá vinum og ættingjum.
  BH

 • Þetta er ágætur punktur. Meir að segja mjög góður. 🙂

  Takk fyrir þetta.

Comments are closed.

Site Footer