HNEYKSLUÐ KAMARSVEIT

Það hefur verið svolítið spélegt að fylgjast með umræðunni um fjölgun ferðamanna á Íslandi.  Margir jesúa sig yfir þessum fávísa lýð og nefna máli sínu til stuðnings einhver dæmi um að ferðalangar gangi örna sinna tvist og bast og út um allar koppagrundir.   Umræðan kemur í bylgjum eins og í fuglabjargi og tók steininn út fyrir um það bili viku þegar allar fréttir snérust í raun um hringavandræði ferðaþjónustunnar, hringavitleysu og hringvöðva.

Tónninn í þessum fréttum var á eina lund.

Þetta var tónn hins langþreytta „venjulega“ Íslendings þar sem hann mærðarlega blés í látúnspípu þess liðna og hljómfallið var tregafullt ákall eftir gærdeginum því nú var svo sannarlega komið nóg af óþægindum og iðralykt úr erlendum rössum.

Þetta er alveg sama stef og heyrðist fyrr í sumar þegar umkvartanir snérust um hávaðann í ferðatöskum sem myndast þegar þær ýmist rúlla eftir gangstétt eða jafnvel niður stiga.  Sami kór og kyrjar nú um kúkalykt, fór á límingum vegna hávaða úr rúllandi ferðatöskum eftir miðnætti.

Ég er því miður ekki að draga dár því þetta gerðist í alvöru.

Nú kann að vera að hin smáborgaralega kammersveit (eða kamarsveit eftir því sem passar betur) kann að hafa eitthvað til síns máls en gagnlegt er að rýna í fortíðina í sama samhengi.

Hvar sagði kamarsveitin þegar brælan úr fiskimjölsverksmiðjum lá eins og slæða yfir flestum þéttbýliskjörnum landsins?

Ég get sagt ykkur það. Hún kvartaði nefnilega ekki nema síður sé.  Daunninn úr fiskibræðslum landsins var ekki kallaður annað en „peningalykt“ og var talin afar þjóðlegur.  Fnykurinn var umborinn því hann var „gjaldeyrisskapandi“ og styrkir í sessi lénskerfið  -afsakið –  kvótakerfið

Það væir óskandi að kamarsveitin og samsöngvarar þeirra hætti að skammast yfir ummerkjum erlendra iðra og hljóðbylgjum vegna ferðataskna og líti á hvoru tveggja sömu augum og fiskibræðslufnykinn sem áður fylltu vitin.

Site Footer