HLÁTUR Í HÓFASKELLUM

Mér var hugsað til hins magnaða ljóðs Einars Benediktssonar um Hvarf séra Odds frá Miklabæ þegar ég las frétt um skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á framboði Magnúsar Orra Schram.   Ljóð Einars er alveg makalaust flott og fyrsta erindi þess svo magnað að það kallar fram gæsahúð hjá hverjum þeim sem gefur sér tíma til að sökkva sér ofan í myndina sem Einar dregur upp af hesti og manni á harðaspretti yfir freðna jörð.  “Hleypir skeiði hörðu” er það orðað. Lesandinn heyrir járnin glymja við jörðu, og hestinn tæma lungun með háværu fnæsi. Maður heyrir meir að segja hvininn í faxinu og allt þetta á sömu sekúndunni undir ísköldu tungli.

Halur yfir ísa

glymja járn við jörðu,

jakar í spori rísa.

Hátt slær nösum hvæstum

hestur í veðri geystu.

Gjósta af hjalla hæstum

hvín í faxi reistu.

En þetta fyrst erindi er bara upptakturinn af þeirri skelfilegu hryllingssögu sem kemur á eftir.  Draugur eltir mann. Fellir mann og dregur ofan í dysina, „þar sem stjarna stök úr skýi starir fram úr rofi“…. og ….”Vakir vök á dýi vel, þótt aðrir sofi…”  

Ég ætla nú ekki að spilla spennunni fyrir áhugasömum og læt því staðar numið við frekari “spoilera” í ljóðinu.  Endaversið er fullkomlega magnað og kallar fram ískulda hjá lesandanum sem byrjar við hvirfil og les sig svo niður eftir bakinu og þaðan í kviðinn sem endar með sviða í brjóstholi og sjáöldrum svörtum.

Já.  Þetta er svolítið dramatískt viðbragð við stöðuuppfrærslu.  Ég veit.  En svona lítur málið út fyrir mér.

Magnús Orri var skipaður í þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Niðurstaða þeirra nefndar var ekkert mjög eindregin.  Á íslensku Wikipedia-síðunni stendur þetta:

„Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að þrír ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi með vítaverðu gáleysi: Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra (2005-2009), Geir Haarde, forsætisráðherra (2006-2009) og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra (2007-2009). Þingmannanefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hvort samþykkja bæri þingsályktunartillögu um kæru á hendur ráðherra vegna brota í starfi. Þingmenn Samfylkingarinnar vildu að ofangreindir þrír ráðherrar yrðu ákærðir fyrir landsdóm. Þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar vildu því til viðbótar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra (2007-2009), yrði ákærð. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins töldu að ekki bæri að ákæra neinn ráðherra.[2]“

Ég hvet alla til að kynna sér þessa Wikipediu-færslu. Þar er m.a hægt að sjá hvernig atkvæði féllu í þessar dramatísku atkvæðagreiðslu.

Þetta var ekkert auðvelt verk að vaða í eins og gefur að skilja.  Sérstaklega þegar enginn vildi axla ábyrgð á neinu þótt augljóst væri og hreinlega himinhrópandi að eitthvað meiriháttar hefði klikkað.  RNA skýrslan var jú bísna afdráttarlaus.  En engin vildi kannast við sinn þátt og síst af öllu þeir sem voru í lykilstöðum þegar allt hrundi.  Það var því alþingi sem skipaði þessa nefnd sem téður Magnús Orri var hluti af.  

Það hefur ekki verið auðvelt að vera nýr þingmaður og setjast í þessa nefnd til að greina klúður félaga sinna á þinginu og samherja í Samfylkingunni. Hann gerið það nú samt og hlífði ekki einu sinni sínum eigin formanni í þessari viðleitni.  

Ég veit ekki með ykkur ágætu vinir. En mér þykir þetta vera virðingarvert og alltof sjaldséð hjá stjórnmálafólki.

-Prinsipp yfir vinskap.

-Staðreyndir málsins yfir slúður.

-Það sem er hæfandi yfir því sem er óhæfandi.  

Auðvitað er þessi afstaða eins og títaníumfleinn í gegnum hið morkna samtryggingarkerfi flokkanna allra og ekki síður hið innra samtryggingarkerfi sem er heldur seigara en það fyrra.

Hér er rétt að ég staldri við og segi frá því að ég hafði heyrt af því að seta Magnúsar Orra í þessari nefnd á vegum Alþingis, hefði markað einhverjar línur inn í Samfylkinguna.  Að Ingibjörg Sólrún teldi setu Magnúsar í þessari nefnd og afstöðu hans sömuleiðis hina verstu forsmán.  

Þessi afstöðu hefðu svo margir sem telja Ingibjörgu Sólrúnu vera hinn lýsandi stíg viskunnar, endurómað af kappi.   

Nú er ég ekki í þessum stíg og hef alltaf verið svolítið vandræðalegur þegar stallur einhvers félaga manns er orðin hærri en allir aðrir.  Hafandi í huga spádóm Samfylkingarinnar um turnana tvo og þá staðreynd að Samfylkingin var hreinlega formuð eftir hinum turninum sem hún átti svo að skyggja á, er ágætt að hafa í huga að margir settu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í nákvæmlega sama hlutverk og Davíð Oddson.  

Það er auðvitða skelfileg tilhugsun og sannarlega ekki hluti af veganestinu fyrir vegferðina.

Því miður þá held ég að Ingibjörg Sólrún hafi meir að segja gengist upp í þessu hlutverki þegar hún var í lykilstöðu í okkar ágæta flokki og tekið allar vitlausu beygjurnar sem hægt var að taka þegar turnarnir tveir ákváðu að gerast einn.

Fræg er af endemum “pep-talk” ferðin með Sigurði Einarssyni og öllum hinum Kvíbryggingum heimshornanna á milli til að tala upp íslenskt efnahagslif þegar allt var að hrynja. Og gerði þar með stutt hlé á áætluninni “Ísland í öryggisráðið!” sem talin var stórfengleg enda sameinar hún bæði einstrengingslega þjóðrembu og umlykjandi elsku á heiminum öllum eins og hann leggur sig.

 

Já.  Í mínum huga er arfleið Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ekkert svo “eitthvað”.  Stallurinn var og stór og þegar styttan er farinn er stallurinn bara fyrir og skugginn af honum alltof langur. Sagan fær reyndar óvæntan snúning því eins og allir vita þá gerðist allt í einu hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Veikindi og Íslandshrun.  

Sem betur fer þá hefur Ingibjörg Sólrún jafnað sig af veikindunum.

En þá kemur að stöðuuppfærslunni sem Ingibjörg Sólrún sá sig knúna að birta vegna tíðinda um framboð Magnúsar Orra Schram í embætti formanns Samfylkingarinnar.. . . .

Þetta er ekkert merkileg uppfærsla í raun og veru þótt mér hafi þótt hún draugaleg.  Svona var hún:

“Forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu hefur stigið fram og telur sig vel til flokksforystu fallinn.”

Eimitt, og ég fór að hugsa….

Hvað er hún, með allan sinn farangur og tóman stallinn sinn, að teygja sig fram neðan úr dýkinu til þess að reyna skemma fyrir Magnúsi Orra Schram?  

 

Var framganga hans virkilega svona slæm í Landsdómsmálinu.  Eða var hún kannski bara eitthvað annað?  Var framganga hans kannski bara til fyrirmyndar og eftirbreytni?

Höfum í huga að Magnús stóð með sjálfum sér í þessu máli.  Kaus með sinni eigin sannfæringu gegn sínum eigin formanni og félögum.

 

Er ÞAÐ nóg til að dauðs mans hönd grípur fast um taum svo hesturinn dettur?  

Er ÞAÐ málið?  Að einhver hafi bæði sundrað hinni ytri samtryggingu OG þeirri sem liggur inn í flokknum okkar?

Er ógnin þar?  Eða gæti ógnin innan úr holdhreinsuðum tóftunum  mögulega reynst nær Ingibjörgu Sólrúnu en hana grunar?

Ég hefði einmitt ályktað sem svo að verandi í ákveðnni fjarlægð, alla leið út í hinu fagra Tyrklandi, hefði Ingibjörg Sólrún mögulega geta séð hlutina úr ljósi fjarlæðgarinnar, en staðsetur sig heldur ofan í miðri átakalínu sem hún sjálf risti upp og hefur reynst öllum illa.

Ég ætla nú að láta þessari löngu hugleiðingu minni um stutta stöðuuppfærslu lokið.  Ég vil samt enda á því að brýna fyrir okkur öllum sem í Samfylkingunni erum, að fara vel með komandi kosningar. Að hver og einn kjósandi geri upp hug sinn eftir sinni eigin sannfæringu.  

-Og bestu sannfæringu.  

Að við hættum að rista skurði meðafram og eftir flokknum  okkar. Að við hættum að skipa okkur í hópa og njótum þess að vera ein og stök.  Ég er ekkert að styðja Magnús Orra þótt ég sé að skrifa þessa hugleiðingu þótt hann hafi orðið að skotspóni fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar.  

Flokkadrættir eru óþarfir. Þeir eru skaðlegir og móðgandi við lýðræðið og skynsemina.  Við ættum að hlusta á hvað frambjóðendur hafa að segja og vega svo og meta hverjum er best treystandi til að standa við stóru orðin.

 

Þannig virkar lýðræðið.

 

Site Footer