HINN VÍÐI VÖLLUR UMRÆÐUNNAR

Það er alveg makalaust að fylgjast með umræðunni á Íslandi.  Ég er að reyna að venja mig af því, en þetta er eins og með raunveruleikaþættina. Maður getur ekki hætt.

Hérna á eftir fer alveg svakalega dæmigerð umræða af stað.  Takið eftir að umræðan svo bara „fæðist“ og stekkur fullsköpuð fram í öllum herklæðum og er vígamóð eftir aðeins nokkurra klukkustunda líf.

Þetta byrjaði allt með fréttum um að bankatoppar hinna föllnu og ríkis-fóðruðu banka, eru komnir með margar miljónir á mánuði í laun.

1.   -Allir verða hneykslaðir enda full ástæða til.

2.   -Fólk vill viðbrögð frá stjórnvöldum

 – – – – hérna gerast svo hin vondu vatnaskil og umræðan fer út um víðan völl.

3  -Ólína Þorvarðardóttir leggur til ofurskatt á ofur-tekjur.  Allt yfir 1.200 þúsund skal skattað til helvítis.  Þetta mælist misjafnlega fyrir, sumir eru ánægðir meðan aðrir eru ósáttir.  En takið efir ágætu lesendur.  Það sem startaði umræðunni, er ekkert til umræðu.  Hér er alveg ný umræða fædd.  Þetta er umræðan um hátekjuskatt sem ég hélt satt best að segja að væri útkljáð í bili ef svo má að orð komast.

4
.   -VG verður allt í einu sammála um eitthvað og ályktar að ofurtekjur verði að jafna til samræmis við almenna siðsemi.

5
.    -Sjálfstæðismenn og hægri kratar mótmæla og segja þetta óskynsamlega leið.

Þetta er skirabát, atburðarásin.

En takið eftir enn og aftur að „vandamálið“ með bankastjóra föllnu bankanna er fallið ALGERLEGA í skuggann.  Sjálft þúfan sem velti hlassinu er orðin að aukaatriði, sjálf ástæðan fyrir hugleiðingunni og kjarninn í öllu saman…

…Er látin í friði meðan rifist eru um hluti sem löngu er búið að rífast um og meir að segja ná einhverri sátt um.  -Talandi um að vera leiksoppur örlaganna.

Aldrei fær maður að sjá yfirvegaða umræðu.  Aldrei ef ljósi varpað á eitthvað „vandamál“ eða ástand og það krufið að einhverju gagni.  Alltaf skal vandinn skoðaður eitt augnakast og sjónunum síðan beint af einhverju allt öðru.

Þetta á sko ekkert bara við um ofurlaun bankastjóra.  Umræðan um Icesave fjallar meira og minna um afstöðuna til ESB eins fáránlega og það hljómar.

Ef ég væri einræðisherra einn dag myndi ég setja lög* um launakjör toppanna hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem eiga allt undir risa-aðstoð ríkisins.  það er nefnilega ósiðlegt hvernig þeir haga sér.  það er ekkert ósiðlegt við há laun per se, en þegar háu launin eru í skjóli  ríkisaðstoðar, lítur dæmið öðruvísi út.  Hugsum okkur eftirfarandi. Ríkið bjargar Bílasölunni Hrunahöfða 2 með miljarðatuga  innspýtingu.  Er siðlegt að topparnir á bílasölunni skaffi sér miljóna tugi í laun?

Nei-hei.  -Alsendis ekki.

Þetta er atriði sem fékk aldrei að komast að í umræðunni um ofurlaunin.  Sem er ömurlegt og svo algengt að þetta jaðrar við ofbeldi. það er ofbeldi í sjálfu sér að svipta borgurunum eðlilegri umræðu með villandi og fávísum af-vega leiðum.

Málið er ekki flókið.  -Klárum það með einhverjum sóma.

-o-o-o-

*  Bankastjórnendum hinna föllnu og ríkisfóðruðu banka, er svoleiðis andskotans sama um hvort alþingismenn skammist úr í launakjörin þeirra.  Þeim er andskotans sama þótt að forsætisráðherra skammi þá opinberlega.  Þeir vita nefnilega að umræðan fjarar út, enda er það í fullkomnum samhjómi við að þegar umræða fer út um víðan völl, þá missir hún marks eftir nokkra daga.

Site Footer