GUNNLAUGUR M. SIGMUNDSSON STEFNIR MÉR

Jæja.  Þá er búið að stefna mér fyrir dóm.  Ekki skemmtileg reynsla en alveg óumdeilanlega „reynsla“.  Þetta mál hefur reyndar hangið yfir mér í nokkurn tíma eða allt frá því að ég fékk einhvers konar
lögfræðihótun frá Gunnaugi M. Sigmundssyni í afmælisgjöf þann 23. mars.

Til að gera langa sögu stutta (sögu sem ég mun segja á næstu vikum) þá breyttist þetta klögunarbréf í formlega stefnu.  Stefnuna fékk ég í lok maí.

Þetta var mjög stressandi fyrst um sinn og ég viðurkenni alveg að ég svaf ekkert í 2 eða 3 nætur eftir þetta.  Áhyggjurnar hrannast upp og óttin nagar sálina eins og Fassbinder sagði svo eftirminnilega.  Ég er nefnilega krafinn um að borga Gunnlaugi M Sigmundssyni 3 miljónir auk sakarkostnaðar (lögfræðikostnaður hans og mín)  Þetta eru peningar sem ég á ekki til.

Það er nú bara svo einfalt.

Nú verð ég að vekja athygli á einu.  það eina sem ég á af veraldlegum hlutum er svona 10% hluti íbúð á Ásvallagötu. Ætli við eigum ekki svona 2-3 miljónir í henni.  Restin er í eigu Arion banka.   Hún er ekkert stór, um 100 fm en mér þykir alveg ferlega vænt um þessa íbúð.  Hún tengist fjölskyldu konunnar minnar reyndar miklu meira en mér, því að amma hennar og afi bjuggu þarna og pabbi konunnar minnar er alinn upp í húsinu.  Við keyptum sem sagt þessa íbúð þegar við byrjuðum saman og ég lagði á mig mikla vinnu við að gera hana í stand áður en Bessi kom í heiminn.  Braut niður vegg, flotaði gólf, setti á parket, skrapaði saman eldhúsinnréttingu fyrir lítinn pening.   Ég skil ekki enn þann dag í dag hvernig við fórum að þessu fyrir þau takmörkuðu fjárráð sem við höfðum þarna.  Ég held að stærsti kostnaðurinn hafi verið parket á húsið. Restina gerði ég bara sjálfur.

Íbúðin er núna í útleigu og ég er alveg viss að gaurunum sem leigja hana líður jafn vel og okkur bjuggum í þessari bestu götu í Reykjavík.

Stefnan er að flytja aftur inn í íbúðina þegar við komum heim eftir nokkur ár.  Þar eð að segja ef við þurfum ekki að selja hana upp í skuld við Gunnlaug M. Sigmundson einn ríkasta mann landsins.

-Þetta er staðan.

Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál betur og eftir því sem ég sökkvi mérdýpra ofan í Kögunarmálið,  verð ég þó sannfærðari að ég muni ekki tapa.  Ef ég tapa, þá mun ég að minnsta kosti falla með sæmd.

Þetta er ekkert flókið mál þegar öllu er á botninn hvolft og snýst um hvor tala megi um gömul og óuppgerð samfélagsmál, stjórnsýslumál og spillingarmál.  Ég er alveg sannfærður um að það megi.  Ég sé enga ástæðu fyrir því að bannað sé að tjá sig um Hafskipsmálið svo dæmi sé tekið.  Sama gildir um Kögunarmálið.  Það mál er afar ógeðfelt og fyrsta dæmið um misheppaða einkavæðingu á eigum ríkisins.  Eftir það var eins og valdamiklir aðilar innan stjórnmálalflokkanna hafi fengið blóðbragð í kjaftinn og aðrar misheppnaðar einkavæðingar fylgdu í kjölfarið eins og t.d. á hlut ríksins í Íslenskum aðalverktökum svo dæmi sé tekið.  Hámarki þessarar ógeðfeldu óperu var svo náð þegar bankarnir voru einkavæddir.

Ég neita að trúa því að umfjöllun um þessar fyrstu misheppnuðu einkavæðingar ríkisins, séu forboðnar í þjóðfélagsumræðu dagsins í dag.

Þótt að allt sé undir hvað mig og fjölskylduna mína varðar, þá er ég bjartsýnn.  Ég ætla að fjalla um þetta mál gegn mér á hverjum degi þar til því lýkur.  Ég mun birta alla pappíra sem það varðar, bæði kvörtunarbréfið þar sem Gunnlaugur býður fram „sátt“  í eins og hann kallar það og stefnuna í heild sinni.  Einnig mun ég birta varnarbréfið sem lögfræðingurinn minn gerði fyriri mig.

Ég óska ennfremur eftir aðstoð í þessu máli.  Mig vantar allar upplýsingar sem eru til varðandi Kögunarmálið.  Ég mun opna fyrir Google Docs aðganginn minn þannig að lesendur geta haft aðganga að nákvæmlega sömu gögnum og ég hef í vörn minni gegn Gunnlaugi og þessari Erlu sem er lögfræðingurinn hans.

Já ég þarf hjálp og skammast mín ekkert fyrir að segja það.

Ég þarf peninga.  Ég hef áður safnað peningum þegar ég keypti könnun í kjölfar sölunnar á HS orku. það tók nokkra daga og ég er öllum innilega þakklátur sem létu fé af hendi rakna í því máli. það var svo sem enginn svakaleg upphæð.  105.000 kall.

Núna þarf ég meira.  Veit ekki hvað mikið nákvæmlega, en þetta eru örugglega nokkrir hundraðþúsundkallar.  Mér skilst að það kosta að minsta kosti 200 þúsund að VINNA meiðyrðamál.

Gaman að því eða hitt þó heldur.

Site Footer