GREIN Í FRÉTTATÍMANUM – OG – FURÐUSAMSKIPTI VIÐ LÖGFRÆÐING ÚTLENDINGASTOFNUNAR

Ég og Baldur Kristinsson prestur, rituðum saman grein í Fréttatímann sem kom út í gær.  Greinin fjallar um mannfjandsamlega framkomu íslenskra stjórnvalda til flóttafólks sem leitar til Íslands í örvæntingu sinni.

Hérna má sjá greinina.

Upphaf þessarar greinar má rekja til þess að ég sá litla frétt á Vísi um að írösku pari hafði verið stungið í steininn fyrir þann stórglæp að framvísa fölsuðum pappírum.  Ég gat einhvernvegin ekki
gleymt þessari frétt og saga úr bók um Hönnu Arendt, þar sem hún lýsir flótta sínum frá Frakklandi, leitaði á samviskuna.  Þar lýsir hún því þegar samferðamaður hennar svipti sig lífi þegar í ljós kom við landamæraeftirlit að pappírarnir voru ekki í lagi.

Ég bý í Svíþjóð sem hefur verið einna fremst í flokki þeirra landa að taka á móti flóttafólki.  Ég get því fullyrt að það er af og frá að flóttafólk yfirgefi heimaland sitt í einhverju flippi eða þrá eftir því að komast á sósjalinn.  Fólk flýr vegna þess að það er í lífshættu.  Vegna þess að valdhafarnir í heimalandinu eru ofbeldisfullir dólgar sem þola ekki neinar skoðanir nema þeirra eigin.  Já og það eru þjóðernishreinsanir í gangi á nokkrum stöðum í heiminum. -Alveg eins og þegar Arendt flúði Þýskaland og síðar Frakkland.

Flóttafólk er ekki að flýja að gamni sínu.  Þetta eiga margir erfitt að skilja.

Afstaða íslenskra stjórnvalda til flóttafólks er einfaldlega skammarleg.  Sagt hefur verið að spara megi stórfé með því að leggja niður Útlendingastofnun og hafa bara einhverja manneskju með stimpil sem á stendur „NEI!“  Við ritun þessarar greinar átti ég í furðulegum samskiptum við lögfræðing Útlendingastofnunar.

Ég hringdi og spurðist fyrir um afdrif þessa fólks sem dæmt hafi verið i fangelsi þann 8. september.
Ekki gat lögfræðingurinn sagt mér það og vísaði í friðhelgi einkalífs þessa fólks.

Ég bað því um nafnið á umboðsmanni þess.
Ekki gat lögfræðingurinn sagt mér það og vísaði í friðhelgi einkalífs þessa fólks.

Ég spurði því næst hvort þetta fólk væri yfir höfuð á Íslandi.
Ekki gat lögfræðingurinn sagt mér það og vísaði í friðhelgi einkalífs þessa fólks.

Ég sagði lögfræðingnum að þessi spurning snérist ekkert um friðhelgi eins eða neins og krafði hana um svar.  Lögfræðingurinn bað mig um að bíða á línunni meðan hún ráðfærði sig við einhvern sem vissi svarið.
Lögfræðingurinn kom í símann eftir svona 30 sekúndur og sagði mér að þetta væru
persónulegar upplýsingar og vísaði í friðhelgi einkalífs þessa fólks.

Ég spurði því lögfræðinginn hvað hún héti, því ég hafði í hyggju að skrifa bréf með fyrirspurn minni.
Ekki gat lögfræðingurinn svarað mér því og sagði að ég vissi nú þegar fornafn hennar.

Ég bað því lögfræðinginn um netfang svo ég gæti sent fyrirspurnina beint á hana,
-Þá benti lögfræðingurinn mér á það að það væri ekki hægt og ég yrði að senda beint á netfang Útlendingastofnunar og merkja erindið henni.

Þetta er sem sagt þjónustan sem er veitt í Útlendingastofnun.  Það eru einfaldlega ekki veittar neinar upplýsingar og starfsmenn stofnunarinnar vinna við það að viðhalda þagnarmúr í kringum starfsemina.

Í kjölfarið á þessu símtali var ég alveg sannfærður um að það yrði að vekja athygli á þessum málum og sendi nokkra pósta á fólk sem voru vinir mínir á Fésbókinni.  Úr varð að Baldur Kristjánsson prestur og ég ákváðum að skrifa grein saman í Fréttatímann.  Þess má geta að Jón Kaldal ritstjóri var manna liðlegastur í því að koma greininni í blaðið og teygði skilafrestinn út fyrir bjargbrúnina.  Hann á þakkir skildar.

Ég er ánægður með þetta samstarf okkar Baldurs og greinina sem var afraksturinn.  Ég er alveg handviss um að þetta er bara byrjunin á einhverju góðu og gagnlegu.  Mál flóttafólks er á mínu mati, akkúrat málefni þar sem trúfélög geta beitt sér fyrir og komið að gagni.  Í kristinni trú er einmitt að finna dæmi um ungan flóttamann sem átti eftir að skrifa nafn sitt í sögubækurnar.  Nafn hans byrjar á Joð ef einhver er seinn að „kveikja“.

Nú veit ég að Þjóðkirkjan sinnir flóttafólki þótt að hún sé ekkert að stæra sig af því.  Ég veit að gott starf er unnið innan Þjóðkirkjunar þegar kemur að málefnum flóttafólks.  Ég vona að samstarf okkar Baldurs muni vekja athygli á þessu góða starfi.

Það þarf að  komast að afdrifum parsins sem var handtekið og dæmt í fangelsi fyrir það eitt að framvísa fölsuðum skilríkjum.  Eru þau á Íslandi?  Var þeim vísað úr landi að eftir fangavistina?   Ef svo er.  Hvar eru þau niðurkomin?  Eru þau lífs eða liðin?

Ég auglýsi hér með eftir afdrifum þessa fólks.

Site Footer