GÓÐ TÍÐNINDI

Loksins loksins virðist sem svo að Hreyfingin ætli að styðja ríkisstjórnina.  Ég hef eiginlega aldrei skilið almennilega hversvegna Hreyfingunni var ekki boðið í stjórnarsamstarf eftir hrunið.  Aðkoma þessa nýja stjórnmála-afls lá einhvernvegin í loftinu og var svo augljóst og eðlilegt í ljósi þeirrar aðkallandi endurnýjunar sem hrunið skildi eftir sig.

Það var sko ekkert smáræðis ef út í það er farið.

Ég held, og segi þetta sem gegnheill krati, sósíalisti, jafnaðarmaður eða hvað á að kalla mig, að Jóhanna og Steingrímur hafi gert sín fyrstu og stærstu mistök með því að ætla bara að „taka þetta“ á seiglunni.  Hreyfingin hefði komið inn í dæmið freskum hætti og svo um leið, væri hægt að krefja þau um að gera eitthvað í stað þess að standa áhrifalaus á hliðarlínunni.  Nýr flokkur í stjórnarandstöðu er ekki beint „growing“ eins og maðurinn sagði.  Það eina sem vex eru stóru yfirlýsingarnar.

Ég er líka alveg sannfærður um að kjósendur Borgarahreyfingarinnar vilji sjá atkvæðinu sínu varið í eitthvað annað en glamm.

Munum að Framsóknar flokkurinn og Sjálfstæðið voru búin að rústa samfélaginu, innviðum þess, stofnunum og síðast en ekki síst samfélagssáttmálanum.  Hugmyndakerfið sem var orðið samþykkt og almennt, var nefnilega það að farsælt samfélag, væri það þar sem auðlindir þjóðarinnar væru best geymdar í umsjá hinna ríku.  Einnig var talið farsælt að hinir ríku greiddu ekki skatta.

Þetta var stefnumörkunin og við þetta var staðið.

Mögrum til armæðu og óyndis, er allt á uppleið á Íslandi.  Sjálfstæðisflokkurinn umber ekki hugmyndina um að ættlaus flugfreyja skuli takast að hreinsa til eftir hina misheppnuðu samfélagstilraun Flokksins.  Allt er tekið til og togað í alla spotta sem hægt er að toga í.  Þetta hafði t.d þau áhrif að reynt var að eyðileggja fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar.

Ég gæti trúað því að síðasti fjórðungur þessarar ríkisstjórnar verði sá besti.  Ég held að aðkoma Hreyfingarinnar að ríkisstjórninni muni reynast gæfuspor.  En auðvitað er það svolítið sorglegt að sjá fólk sem hefur skipt sér af samfélagsmálum – og maður stæði í þeirri trú að það væri gert með hag Íslands fyrir brjósti –  ganga um sali með blæðandi hjarta yfir góðum árangri ríkisstjórnarinnar.

En lengi má manninn reyna.

Site Footer