GLÍMUSÝNING Í HÁSKÓLABÍÓ

Grundvöllur æðri hugsunar er að nota tákn og skilja tákn. Dýrategundin sem við tilheyrum (Homo Sapiens) getur þetta og hefur þróað með sér heilt tjáskiptakerfi sem meira og minna er byggt upp með táknum. Persónugervingar, líkingar. Já við þekkjum þetta úr ljóðagreiningu úr framhaldskóla. Táknin er þó víðar og þegar kemur að stjórnmálum eru táknin býsna skýr.

Þingmaður á reiðhjóli er tákn. Þingmaður með sixpensara er tákn. Þingmaður í selskinsjakka er tákn. Þingmaður í ákveðinni tegund af dragt er tákn. Þingmaður á gömlum ljósbláum Volvo er tákn. Þingmaður sem lætur alltaf taka viðtal við sjálfan sig niður á bryggju er tákn. Pólitík er einrisastór táknasúpa.

Sem er bara fínt.

Ísland á mörg tákn eins og t.d fjallkonan og „hin hrímhvíta móðir“. Tákn yfir skapgerðareinkenni Íslendinga er „sjómennskan„. Við eigum að vera svo miklir sjómenn öllsömul. Sé táknið „sjómaður“ skoðað, er það kall sem lætur sér ekki fyrir allt fyrir brjósti brenna. Hann (alltaf kall) er sama þótt að puttarnir klippist af í víraspili. Hann hristir þá bara úr hanskanum og heldur áfram að gera að.

Þetta er „sjómaðurinn„.

Tákn gott fólk. Í hruninu gerðust þau ósköp að táknin sem við notum, var þeytt upp í loftið og þau misnotuð. Veruleikanum hafði breytt í meðförum ósvífinna þingmanna í einhvern áttæring í brælu af verri sortinni og enginn vissi almennilega hvort snéri upp eða niður eins og í mynd eftir Gunnlaug Scheving. Þetta var myndin sem við áttum að samsama okkur við. Við vorum maðurinn undir gula sjóhattinum og við vorum í lopapeysunni. Þetta var táknið sem var verið að reyna að selja okkur.

Haarde var að reyna að selja Scheving

Í raun og stóð Ísland algerlega hrunið eftir 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins og 13 ára valdatíð Framsóknarflokksins það var enginn ágjöf og það var enginn á neinum áttæring og það var enginn lopapeysa. Flokkakerfið var löngu orðið ónýtt, stjórnkerfið sömuleiðis enda rótétið eftir áratugalanga spillingu. Draumasamfélag Sjálfstæðisflokksins hafði einfaldlega keyrt sjálft sig í klessu. Draumurinn varð að martröð og það var engin guð til að stoða okkur þótt Geir Haarde hefði ákallað hann í beinni útsendingu. Eini möguleikinn til að horfa upp á þessa skelfingu var að breyta henni í Schevingu.

Og það var reynt.

Tákn voru notuðu á óskammfeilinn hátt, til að breiða yfir þessa staðreynd sem stjórnmálamennirnir vildu alls ekki leyfa okkur að sjá. það var reyndar svolítið fyndið að sjá þetta stífpressaða forréttindalið vera að seilast ofan í reynsluheim sjómennskunnar. Mér fannst alltaf holur tónn í því að heyra Haarde tala um brimskafla, bak og stjór.

það verður ekkert undan því litið að tákn eru eðlilegur fylgifiskur mannlegra samskipta. Það er þegar táknin eru misnotuð, þegar viðvörunnarbjöllurnar fara að hljóma. Ég tók eftir alveg makalausu dæmi um notkun tákna í stjórnmálalegum tilgangi fyrir nokkrum vikum. Þetta var á landsfundi Framsóknarflokksins og frumflutningur á nýjum tón í framsóknarsinfóníunni var að opinberast. Nýi formaðurinn hafði sveigt flokkinn út á jaðarinn og fundið stefnunni farveg í þjóðernisstefnu.

Dagskrá landsfundarinn var því hlaðin af allskonar þjóðernistáknum. Egill Ólafson var látin syngja yfirkeyrðan þjóðrembusöng …og svo var sýnd glímukeppni.

Það var þetta með glímukeppnina sem vakti athygli mína. Íslenska glíman er nefnilega ekkert sérstaklega þjóðrembuleg í sjálfu sér. Hún er miklu frekar fyndin. Ég held að íslenska glíman sé sérstök að þessu leyti. Flestar glímutegundir eru mikið meira brútal en sú íslenska. Sú minnir mikið frekar á spandex-stekktann vals en testosteronhlaðin átök tveggja bola með eyrnahlífar. Ég er alveg viss, og ég meina 100% viss um að glímusýningin var ekki þarna til fyrir aðdáendur þessara sérstöku keppni, heldur vegna þess að tákn glímunnar er; „Þetta er íslenskt“.

Í þjóðrembu Framsóknarflokksins togast tvennt: Hefðbundin þjóðernishyggja með yfirburðapælingum, sameiginlegum óvin og almennri rangtúlkun á eigin sögu. Við þessa hefðbundu þjóðernishyggju togast svo á sérviskuleg þjóðlegheit með glímutökum, slátri og upprúlluðum pönnukökum meðan messan er í útvarpinu. Þessi tegund þjóðrembu gæti hæglega verið eitthvað Stuðmannaprójekt sem einhver hefur tekið aðeins of alvarlega.

Skoði maður um stund hvað sé „þjóðlegt“ kemst maður fljótt í vandræði. Hvað er þjóðlegt? Er það maðurinn sem neitar að nota hnífapör og notast við spún? Er það konan sem klæðir sig í peysuföt á sunnudögum? Á hugtakið við matarvenjur eða kunna skil á helstu perlum íslenskrar ljóðagerðar? Getur verið að stjórnmálamenn líti hýru auga til þess þjóðlega vegna þess að það innifelur skapgerðareiginleika sjómannsins sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

….og hlýðir.
….og kvartar ekki.

Með því að færa allskonar þvælu yfir á svið hins þjóðlega, er um leið verið að finna réttlætingar fyrir ýmsum þeim ósiðum sem reynst hafa Íslandi hvað dýrkeyptastar. Þá verður t.d mannaráðningarósóminn bara fyndinn.

..eða hin landlæga spilling sem plagað hefur Ísland frá lýðveldisstofnun

Sé stuðmanna-þjóðremban skoðuð nánar koma í ljós áhugaverðir fletir. Þessi tegund þjóðernishyggju siglir nefnilega undir fölsku flaggi. Hún þykist vera þjóðrækin, en er í raun að gera grín að þjóðareinkennum. Fyrir nokkrum árum kom í fréttum að maður frá Akureyri var lagður inn á spítala með matareitrun. Sá hafði í félagi við nágranna sinn farið í einhverskonar ógeðslegu-keppni á þorranum og étið súrmeti upp úr tunnu sem var geymd inn í lokaðri hitakompu. Metið var hið ógeðslegasta og mennirnir kepptust við að innbyrða það, helteknir þeim misskilning að því verri sem maturinn bragðaðist, þeim mun þjóðlegri væri hann

Það var ekkert þjóðlegt við þessa keppni. -Ekki neitt.

Sama má segja um þessa fyndnu tegund þjóðrembu sem Framsóknarflokkurinn undir Sigmundi Davíð er að feta. Það er ekkert þjóðlegt við hana. Ekki frekar en stuðmannahoppið, sem hefði verði sniðugra að láta Egil taka um leið og hann söng „Ísland er land þitt“.

Það er eitthvað við þessa blöndu af gríni og alvöru sem hræðir mig. Satt best að segja líst mér ekkert á þetta. Ég er reyndar ekki einn um þá skoðun því Framsóknarflokkurinn er klofinn eftir þetta þjóðernis dekur í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hið furðulega er að þrátt fyrir að vera frekar pasturslítill stjórnmálamaður, virðist Sigmundur í það minnsta hafa einhver tök á blaðamannastéttinni, því hún hefur í engu sinnt upplýsingaskyldu sinni um klofning flokksins, hinn nýja flokk eða fólkið á bak við hann, eða jafnvel stefnu þessa nýja flokks. DV er eini fjölmiðillinn sem hefur gert þessu einhver skil.

Eina sem hefur komið í fjölmiðlum um Framsóknarflokkinn í Sigmundi Davíð, eru fréttir af „íslenska kúrnum“ sem er einhver þjóðleg megrun sem Sigmundur er víst í. Enda er það mjög þjóðlegt að áreita stjórnmálamenn ekki með alvöru spurningum. Sigmundur Davíð spilar á fjölmiðla landsins eins og sekkjapípu. Nei afsakið.

-Langspil.

Þrátt fyrir alla þessa táknasúpu sem stjórnmálafólk notar sér til framdráttar og þann mýgrút annarra tákna sem við notum dags daglega, er aldrei talað um sum tákn. Það er aldrei talað um birtingarmyndir lýðræðisins, til hvers það er og hvaða tilgangi það þjónar. Það er aldrei tala um að formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru miljarðamæringar sem aldrei hafa deilt kjörum með þjóðinni. Þeir hafa t.d aldri orðið blankir.

-Hafa ekki einu sinni hugmyndum hvað það er!

Þessir tveir hafa aldrei hrist hausinn fyrir framan tölvuna meðan þeir skoða reiknivélar bankanna þegar kemur húnsæðiskaupum. Aldrei litið í augu maka síns og sagt án þess að segja, „Nei. -Þetta er ekki hægt“. Aldrei þurft að hætta við sumarfríið. Aldrei þurft að spara í matarinnkaupunum. Aldrei upplifað tilfinninguna þegar maður veit ekki hvað snýr upp eða niður í fjármálum heimilisins.

Samt álíta þeir sig þess umkomna að vita hvað þjóðinni sé fyrir bestu.Ég sé fyrir mér þá tvo miljónamæringa á gamlárskvöldi einhvern tímann í framtíðinni. Þeir standa á stórum svölum og horfa inn í svartan himininn þar sem hann ber við hafið. „Við tókum þetta, er það ekki“ segir annar. Jú, segir hinn. „Við tókum þetta – Róðurinn verður samt erfiður fyrir Ísland“ Þeir brosa báðir.

-Svo skála þeir.

 

Site Footer