GLEYPT VIÐ LYGINNI

Samhengi hlutanna getur verið svolítið skrýtið og alveg víst að vængsláttur fiðrildis í Ástralíu getur orsakað hitabeltisstorm í karabíska hafinu.  Stundum er sagt að Skaftáreldarnir hafi orsakað frönsku byltinguna.  Það má vel  vera.  Hátt verð á hveiti sem orsakaðist af uppskerubresti vegna áhrifa Skaftárelda, getur vel hafa verið dropinn sem fyllti mælinn hjá langþreyttum og sárkvöldum almenningi í Frakklandi sem olli mótmælabylgju á hárréttum tíma.

En stundum virðast hlutir hafa áhrif á hvorn annan en gera það þó sannarlega ekki.  Stundum eru tveir ólíkir hlutir undir áhrifavaldi sömu breytu enda þótt það liggi ekki í augum uppi.  Frægt dæmi um falska fylgni er að þegar fólk flykkist og kaupir sér ís, eykst morðtíðni sömuleiðis.  Ósnotur gæti áætlað að fylgni sé þarna á milli en að sjálfsögðu er það þriðja breytan, lofthiti sem spilar aðalhlutverkið og hefur áhrif bæði á íssölu og morðtíðni.

Stundum er það svo að lýðskrumarar reyna að tengja saman tvo ólíka hluti saman til þess að ljá málstað sínum trúverðugleika.  Fullyrt er að tveir hlutir tengist saman og í trausti þess að téðar breytur eru hræðilegar og ógnvekjandi er ekkert rými gefið fyrir eðlilega ígrundun.  Forvitni og sannleiksþrá er skákað út í horn og reiði og ótti færð til öndvegis.

Þetta er mjög greinanlegt í málflutningi öfgahægrisins á Íslandi þegar kemur að málefnum flóttafólks.

Ég man eftir mynd á Facebook sem gekk ljósum logum. Hún var af manni sem mannhundur úr islamska ríkinu var búninað krossfesta. Hræðileg mynd sem sýndi takmarkalausa grimmd.  Einhverjir voru búnir að skeyta við texta við myndina sem kvað á um að svona færu múslimar með kristið fólk.

Einn sem er vinur minn á Facebook póstaði þessari ógeðslegu mynd á vegginn sinn og spurði hvort þetta væri það sem Íslendingar vildu og hvort við sem þjóð ættum ekki að spyrna við fótum þegar kemur að „innflutningi“ á múslimum.

Hérna er mynd af öfga-múslima að fremja voðaverk.

Þetta voðaverk er svo tengt inn í íslenskar aðstæður og spurt hvort „við viljum svona“ og hvort „við ætlum að hleypa inn í landið fleiri múslimum“.  Þetta væri skiljanlegt ef að allir múslimar væru eins.

En þeir eru það ekki.

Múslimar eru mjög fjölbreyttur hópur og alveg útilokað að staðla múslima rétt eins er fráleitt að staðalgera kristið fólk eða hindúa.  Islam skiptist í tvo megin hópa (sunni og siha) sem svo skiptast enn frekar og ennþá frekar eftir landsvæðum.

Mannhundurinn sem krossfesti varnarlausan mann sér til ánægju er sennilega slappasta dæmið um múslima sem hægt er að hugsa sér og ótrúlega ruddalegt að birta mynd af skelfingarverkum hans með það fyrir augum að hræða fólk við trúarbragðið  sem hann telur sig þjóna af dyggð og sóma með því að myrða fólk.

Það er líka alveg ótrúlegt að fólk gleypi við þessum ótta-áróðri alveg hráum. Svo mjög að það áframsendir óttann án þess að blikka auga.

Setjum þetta í annað samhengi.

Fótboltabulla úr KR kveikir á blysi í miðri stúkunni. Úr verður eldur sem berst út og fjöldi fólks treðst undir og ferst.  Er siðlegt að birta mynd af áhorfendum að troðast undir og spyrja í myndatexta hvort það sé eðlilegt að styðja KR.

Að sjálfsögðu ekki.

Svona villandi myndbirtingar eru ýmist settar fram af mikilli heimsku eða með illum ásetningi.

Nú nenni ég ekki að verja trúarbrögðin en þau ætti að gagnrýna með rökum. Ekki með lygum.  Krossfestingamyndir á Facebook hafa ákveðin tilgang. Sá tilgangur er að blekkja fólk og kljúfa í sundur. Þær hafa þann tilgang að ráðast gegn skynseminni og höfða til reiðinnar.

Það var því sárgrætilegt að sjá háskólaprófessorinn Hannes Hólmstein Gissurarson taka undir haturs-ýlið í bloggi sem hann skrifaði á dögunum. Þar bar hann saman kristni og Islam á alveg skelfilega fávitalegan hátt og sagði:

 

Múhameð var í senn spámaður og herforingi, sem reiddi sverð sitt og vann lönd. Kristur var spámaður, fallegur, hávaxinn, skeggjaður maður í hvítri skikkju, sem boðaði náungakærleik og bað menn að fyrirgefa óvinum sínum

 

Eins og útlit meints krists hafi skipt einhverju máli ….

En þetta var útúrdúr.

Takið eftir að í þessu máli með lætin varðandi Islam og glæpaverk islamska ríkisins eru beintengd inn í allt annað mál sem er staðan í flóttamannamálum í heiminum.

Og á Íslandi.

Það er alveg ótrúlega ruddalegt að spyrða trúarbrögð fólks við neyð þeirra og hælisumsóknir.  Margir sem koma frá löndum þar sem Islam er við lýði, eru ekkert trúuð á téðan guð. Trúleysi mun vera bísna algengt í löndum þar sem Islam er við lýði en enginn þorir að koma úr skápnum sem trúleysingi enda er það lífshættulegt.

Hérna er sem sagt einhver sem kemur frá hræðilegu landi sem stýrt er af hræðilegum krossfestandi mannhundum og leitar hælis á Íslandi.  Það vekur litla hrifningu Sögusmettanna sem vara stórlega við „innflutningi múslima“ því þeir eru svo hræðilegir og krossfesta fólk.

Sjáið þið hvað þetta er rangt.

Flóttamaður frá Íran leitar hælis á Íslandi vegna þess að líf hans er í hættu vegna þess að stjórnvöld í Íran eru ranglát og grimm.  Íslenska öfgahægrið tekur þessum manni ekki opnum örmum heldur bendir á að viðkomandi maður hljóti líka að vera ranglátur og grimmur og muni ugglaust miða allt sitt líf og alla sína orku í að breyta Íslandi í grimmt og ranglátt land…

Gústaf Níelsson sem var einu sinni fulltrúi Framsóknarflokksins í Mannréttindaráði Reykjavíkur, sagði drjúgur að það fólk sem sæktist eftir hæli á Íslandi kæmu að stórum hluta úr „föllnum ríkjum“ (failed states) og þar af leiðandi ættu Íslendingar ekki að veita þeim hæli.

Þetta er ótrúlega grimmileg afstaða.

Er ekki einmitt ástæða til að veita fólki sem koma úr „föllnum ríkjum“ hæli og gefa þeim færi á að lifa í friði, óttaleysi og taka þátt í því að gera Ísland ennþá betra.

Þar sem ég bjó í Gautaborg var fjölskyldan sem átti hverfisbúðina „mína“ frá Írak. Það er að sönnu „fallið ríki“ (failed state) en þau voru ekkert misheppnuðu þótt landið þeirra sé það´mögulega. Þau voru hörkudugleg, vinaleg og ég sá þessi 4 ár sem ég bjó þarna hvernig þau stóðu saman í blíðu og stríðu.

Og döfnuðu vel.

Ég man sérstaklega eftir því þegar ég sá fjölskyldufaðirinn koma á nýjum bíl sem hann hafði keypt fyrir sig og sína og það sást langar leiðir hvað hann var montinn.  Enda var þetta flottur BMW.

Hversvegna í ósköpunum má Ísland ekki vera svona vettvangur fyrir fólk sem leitar hingað til lands?  Hvað er að því að gefa þeim ekki tækifæri og afgreiða þau eins og mannhundana sem þau eru að flýja.

Ég hvet lesendur til að vera á varðbergi gagnvart hægri öfga hatrinu. Það er auðgreinanlegt og ásetningur þess er að tvístra, skipta í  lið og opna gáttir mannvonskunnar.  Aðferðin sem þau beita er að hraðsjóða saman hræðilegar myndir/frásagnir við eitthvað mál sem er í samfélagsdeiglunni og vona að einhverjir séu nógu vitlausir að  gleypa við lyginni.

 

 

 

 

 

Site Footer