GLEÐILEGT SVAR ÚTLENDINGASTOFNUNAR OG „HÖFUÐBORGARKALLINN“

Þrátt fyrir óskir um afdrif íraska parsins sem dæmt var í fangelsi þann 8. september hafa mér ekki borist neinar fréttir af afdrifum þess.  Ég hef heyrt því fleygt að þau hafi óskað eftir því að yfirgefa Ísland eftir að afplánun lauk og ljái það þeim hver sem það vill.

Ef rétt reynist má segja að íslensk yfirvöld hafi bitið hausinn af skömminni í samskiptum sínum við þetta fólk sem leitaði til okkar með blóðugt hjarta og von um einhverja samúð.

Ég auglýsi enn og aftur eftir afdrifum þessa fólks.  Útlendingastofnun hefur ekki ennþá svarað erindi sem ég sendi til þess efnis en hefur sent umboðsmanni þessa fólks netfangið mitt, þannig að ef umboðsmaðurinn vill tala við mig, getur hann það.  Ég vona að umboðsmaðurinn hafi samband við mig því það er fullt af fólki sem vill leggja sitt á vogarskálarnar hjá þessu ólánsama pari og rétta af þann órétt sem þau urðu fyrir.  Ég er reyndar svo frekur að eðlisfari að mér finnst það bara allt í lagi að ég fái að hafa samband við umboðsmann þessa fólks.

-En það er önnur saga.

Hinsvegar hefur útlendingastofnun svarað bréfi okkar Baldurs og því ber vissulega að fagna.  Það er einfaldlega frábært að þetta mál sé komið í deigluna og það sé vilji fyrir því að ræða það og leysa á sómasamlegan máta.

Þetta mál er einfalt. það snýst ekkert endilega um útlendingastofnun, heldur íslensk yfirvöld almennt.  Dómstóla, Útlendingastofnun og Alþingi.  það snýst um hvort það sé réttlátt að dæma flóttafólk í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum vegabréfum.  Stóra myndin snýr svo að aðbúnaði flóttamanna, sem á herðum Útlendingastofnunar og félagsmálayfirvalda á Suðurnesjum.

Sem betur fer eru til þingmenn og jafnvel ráðherrar sem blöskrar framkoma yfirvalda gagnvart þurfandi fólki sem á lífið að launa hverjum þeim sem getur skotið yfir það skjólhúsi.  Að dæma flóttafólk í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum vegabréfum er einfaldlega skandall.

Þetta mál er þess eðlis að það snýst ekki bara um grundvallaratriðið siðmenntaðs samfélags. Það snýst um kjarna þess að vera til og geta kallað sig manneskju.  Þetta snýst um að geta gengið um uppréttur.

Eins og við var að búast komu allskonar athugasemdir við síðasta blogg.  Þeir sem finna því til foráttu að taka sómasamlega á móti flóttafólki eiga það sameiginlegt að rugla saman tveimur mikilvægum hugtökum.  Þau rugla saman fyrirbærinu „flóttamaður“ og þeim sem óska þess að gerast íslenskir ríkisborgarar.

Nú nenni ég ekki að kenna þessu fólk eitthvað og það getur stangað úr tönnum sínum yfir athugasemdakerfið fyrir mér, en viljið það taka þátt í einhverskonar umræðu um þetta mál eða önnur samfélagsmál verður að gera þá kröfu að sæmilegt vit fylgi hverri setningu.

-Annað er tímaeyðsla og áþekkt því að reyna að útskýra spilagaldur fyrir hundi.

það var einn sem ruglaði þessu öllu saman og var svo viss í sinni sök að hann vísaði á einhverja rannsókn sem átti að sýna að Svíþjóð væri orðin einhver nauðgunarhöfuðborg vegna þess að innflytjendur væru svo margir.

– – Svíþjóð er ekki höfuðborg eins eða neins svo það sé alveg á hreinu – – –

– – – og innflytjendur eru ekki það sama og flóttafólk – – –

Þessi höfðuborgar-gaur sagði að samkvæmt netmiðlinum, The Local, væri nauðgunartíðni í Svíþjóð sú hæsta i heiminum og að innflytjendur ættu sök á flestum þeirra.  Hérna er fréttin um þessa háu nauðgunartíðni og hérna er fréttin um að innflytjendur ættu sök á flestum glæpum í Svíþjóð.

Uggvænlegar fréttir ekki satt?

Reyndar verður að geta þess að þótt að þessar fréttir væru sannar, þá hafa þær ekkert með framkomu íslenskra yfirvalda i garð flóttafólks að gera.  það er munur á flóttafólki og innflytjanda þótt svo sumum reynist erfitt að greina þarna á milli.  Í huga margra eru þetta bara útlendingar.  Í kjölfar þessara frétta út The Local, hafði samband við mig maður sem hafði rýnt aðeins í þessar upplýsingar.  Kemur í ljós að þessi rannsókn sem vísaði er í úr The Local, kallast Daphne II og fjallar um ofbeldi gegn konum og börnum. Þessi rannsókn er risastór og er styrkt af Evrópusambandinu.  En hvergi fann ég þessar tölur um að Svíþjóð toppaði öll lönd í nauðgunartíðni.

-Sama hvað ég leitaði.

Ég hafði þvínæst samband við þennan skrifara sem setti inn þessa hlekki, og bað hann um nánari útskýringar á „fréttinni“.  Ekkert svar, en vonandi kemur það einhverntímann.  Þegar öll sund voru lokuð og engar upplýsingar úr Daphne II rannsókninni komu fram, hafði ég samband við vinkonu mína sem hefur rannsakað ofbeldi gegn konum í hvívetna og veit sennilega kvenna best um þessi mál og tölfræði tengdri henni.  Hún sagðist aldrei hafa séð þessar tölur en benti mér á þessa hlekki til að fá einhverja mynd af um nauðgunartíðni og samanburði milli landa. Hún benti mér á þessa síðu og þessa (Þýskaland og UK á toppnum),.

Eftir allt þetta grams á netinu um tíðni nauðgana fann ég þó þetta hérna.  Daphne 1 rannsóknin.  Þar kemur fram að Ísland toppar Svíþjóð, svo um munar, þegar kemur að nauðgunartíðni. Þetta gerist þrátt fyrir að nánast engir múslimar eru á Íslandi og fáir innflytjendur.

-Endilega rýnið í þessar tölur.  Hérna er rannsóknin eins og hún leggur sig.

Hvað hina fréttina sem höfðuðborgar-gaurinn vísaði á sem dæmi um að innflytjendur séu ábyrgir fyrir flestum glæpum í Svíþjóð má benda á að þótt að þessi frétt sé rétt og eðlilega sé farið með upplýsingar (sem ég dreg í efa, því hvergi er vísað í rannsóknina, ekki frekar en í fyrra dæminu) eru innflytjendur í Svíþjóð uþb 10% þjóðarinnar.  Það væri því „eðlilegt“ að þessi hópur fremdi 10% glæpa í landinu.  Að þeir fremji 25% glæpa í landinu þýðir að þeir fremja meira en helmingi fleiri glæpi en meðal Svíinn.

Mér þykir reyndar ekkert óeðlilegt að þessi hópur fremji fleiri glæpi en hinn venjulegi „Svenson“.  Krakkarnir alast oft upp í fátækrahverfum, eru stundum fyrirlitin, og það er eiginlega ætlast til þess af samfélaginu að þau verði glæpamenn.  þetta eru s.s bara ósköp eðlilegar tölur. Ég held reyndar að sömu fylgni megi ná fram með því að breyta „innflytjandi“ yfir í „undir fátæktarmörkum“.

En þetta var útúrdúr en ágætis dæmi um að hafi maður smávegis nennu og biðji um smávegis hjálp, er hægt að hrekja órökstuddar fullyrðingar og reyna að fá umræðuna aftur á sporið.

Þetta mál sem ég hef verið að vinna í undanfarna daga og vikur, snýr að skammarlegri framkomu íslenskra stjórnvalda, yfirvalda og dómstóla gagnvart fólki sem á líf sitt að launa hverjum þeim sem veitir því hæli.  Sú hneisa að fangelsa flóttafólk fyrir þá „sök“ að vera flóttafólk er íslendingum til ævarandi skammar.

Site Footer