GLEÐITÍÐINDI GEFA TÓNINN

Um mánaðamótin verður mögulegt að skipta um tryggingafélag með 30 daga uppsagnafresti. Þetta er geysileg framför fyrir neytendur því núverandi reglur kveða á um 340 daga uppsagnarfrest.

Líklegt má telja að samkeppni milli tryggingafélaganna aukist eitthvað við þessar breytingar og þjónusta batni.  Það er í hæsta máta óeðlilegt að einhver bransi njóti áþekkrar verndar og tryggingabransinn hefur hingað til notið.

340 daga uppsagnarfrestur er bull og það sjá það allir.

Þessi gleðilegu tíðindi fyrir neytendur varpa ljósi á annað rugl sem hefur viðgengist allt of lengi.  En það mál snýr að útsölum eftir jólabókaflóðið.

Það er svo leiðinlegt að segja það en bóksölumenningin í kringum jólin er mjög andstæð neytendum.  Þessu þarf að breyta.  Staðreyndin er því miður sú að bóksalar fá meira fyrir bók sem er skilað, en bók sem er seld.

Þetta er nokkuð snúið en ég skal útskýra.

Kona gefur manni sínum bók í jólagjöf. Bókin kostar 4000.  Svo gerist það maðurinn fær aðra samskonar bók frá einhverjum öðrum.   Þetta er ekkert til að æsa sig út af enda algengt „senaríó“ á íslenskum heimilum um og yfir jólin.

Þá gerast þau ósköp að um leið og verslanir opna aftur hefjast útsölur með miklum látum.  25% afsláttur jafnvel.

Konan  í dæminu hér að ofan fer með bókina í búðina til að fá skilað en viti menn…  Hún fær ekki 4000 til baka heldur bara 3000 vegna þess að það er komin útsala.

Hér er komin upp sérkennileg staða.  Manneskja borgar 4000 krónur fyrir einhverja vöru, varan er algerlega óopnuð, ónotuð og var aðeins 3 til 4 daga í vörslu viðskiptavinarins.  En verslunin vill bara borga 3000 krónur til baka.

Hvað er það?  Hversvegna breytist 4000 krónur í 3000 krónur?  Hver gerði það og hversvegna?

Breytum bók í bjór.  Maður kaupir kippu af bjór á föstudegi.  Drekkur hana ekki.  Skilar kippunni svo inn á mánudeginum á eftir en getur bara skila 4 bjórum af 6.  Maðurinn borgaði fyrir sex bjóra en fær bara andvirði fjögurra til baka?

-Hvað er það?

-Hversvegna er þetta svona?

Núna skulum við svo reikna smávegis.  Ef við gerum ráð fyrir að álagning bókseljanda (t.d stórmarkaða) sé í kringum 20% (sem er sennilega allt of hátt ályktað hjá mér – álagning mun vera miklu lægri og stundum enginn) má gera því skóna að á hveri bók sé u.þ.b. framlegð (gróði).  Sé bók hinsvegar SKILAÐ á útsölu sem er auglýsir 25% afslátt, er framlegðin MEIRI en þegar bókin er seld.

Manneskja borgar 4000 kr fyrir vöru, en fær bara 3000 kr þegar vörunni er skilað.  Það sem eftir stendur eru 1000 krónur sem renna beint til verslunarinnar.

Þetta þýðir að þegar jólabók er skilað á útsölu eftir jól er framlegðin ýmist svipuð eða hærri en þegar bók er seld.

Þetta er rugl og þessu þarf að breyta.

Neytendasamtökin hafa bent á þessa hörmungarstöðu ár eftir ár og stungið hefur verið upp á að verslanir rói sig aðeins í útsölu-æðinu og gefi fólki færi á að skila jólabókunum á innkaupsverði fyrstu dagana eftir jólin.

Þá hefði neytandinn að minnsta kosti færi á að fá það til baka sem hann borgaði.

 

Site Footer