Xanadu

Í gær sá ég bíómyndina Xanadu með Oliviu Newton-John. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki séð súrari mynd á ævinni. Samt er tiltölulega stutt síðan ég sá Pink Flamengos eftir John Waters. Það er súr mynd en nær ekki með tærnar þar sem Xanadu er með hælana.

Annars er ég að fara í gegnum massívt kitch-kast þessa stundina sem náði ákveðnu hámarki í gær þegar ég settist niður til að horfa á Xanadu. Byrjunin er frábær.

Gaur er eitthvað að vandræðast við að teikna en er ekki að finna fjölina og rífur myndina og hendir rifrildunum útum gluggann. Þar fjúka þau tvist og bast og enda hjá einhverjum vegg sem búið er að mála stóra graffití-mynd. Myndin er frá Ólympsfjalli og sýnir gyðjur Seifs í þokkafullum stellingum. Nema hvað að þegar pappírsmiðarnir detta á þessa mynd, lifna gyðjurnar við og dansa burt af veggnum í þokkabríma. Svo breytast þær í einhverjar geisla-kúlur á hjólaskautum. -Eða eitthvað. Ein kúlan er sýnd fara til Hollýwood !! Hérna er Vídeo sem sýnir þessa byrjun. Til skreytingar er lagið „I’m Alive“ með ELO.

Svo hefst sagan. Og haldið ykkur núna. Byrjunin er bara forsmekkurinn af öllu því óskapar-rugli sem kemur í kjölfarið. Söguhetjan heitir Sonní sem vinnur við það að mála plötuumslög á stóra fleti í auglýsingaskyni. (pælið í þessu – hvernig komu handritshöfundarnir þessu að?) Hann er s.s einhverskonar grafískur hönnuður. Í honum togast á listamaðurinn og handverksmaðurinn. Yfirmaðurinn hans tekur hann á teppið og les Sonní pistilinn að hann verið að minnka gæðin og auka afköstin.

Dag einn er Sonní á gangi og er alltaf að sjá einhverja konu hjólaskautum. Það reynist vera ein þokkagyðjan sem Sonní leysti úr álögum með rifnu myndinni. Sonní eltir konuna á hjólaskautunum sínum, og finnur hana loksins í yfirgefnu iðnaðarhúsnæði þar sem hún er að æfa sig á hjólaskautum. Reynist það vera sjálf Olivia Newton-John. Sonní reynir að tala við hana en hún svarar í véfréttastíl en er greinilega að gefa honum undir fótinn. Hún hverfur svo bara og þegar Sonní fattar að hún er horfin æpir hann. „What is your name?“ og þá heyrist órætt hvísl í loftinu: …-Kira

Næsta atriði er þegar Sonní heyrir tónlist við ströndina. Þar er komin sjálfur Gene Kelly í hlutverki Danny McGuire. Þeir taka tal saman og Danny vill leyfa Sonní að hlusta á plötu með Benny Goodman ( – pælið í þessu ) Þeir fara heim til Danny og kemur í ljós að hann hann var þekktur tónlistarmaður. Þegar þeir eru búnir að hlusta á Benný Goodman, fer Sonní aftur heim til sín. Þá gerast þau undur að Danny fer að tala við plötuspilarann sinn og í framhaldi af því birtist Olivia Newton-John í hermannabúningi og þau fara að dansa saman ( -pælið í þessu )

-o-o-o-

Þegar þarna var komið sögu kallaði ég á félaga minn. „Þú verður að sjá þetta Ingunn – Þetta er æðisleg mynd“ sagði ég allur uppveðraður. Félaginn kom niður og ég leiddi hann inn í söguþráðinn. Ég tók eftir því að augnaráð gestsins breyttist úr því að vera áhugasamt og „hlustandi“ og yfir augu hans rann tortryggnisblandaður bifur. Mér fannst eins hann væri að hugsa: „Getur verð að Teitur sé gay?“ Enda ekkert ólíkleg niðurstaða. Ekki margir 42 ára karlmenn sem safna kitch-myndum og dýrka Oliviu Newton-John. En áfram með smjörið:

-o-o-o-

Sonní er saknar Kíru og skilur ekkert hvar hún sé. Fyrir tilviljun hjólaskautar hann framhjá graffití verkinu þar sem gyðjurnar lifnuðu við. Hann horfir um stund á verkið og verður hörkulegur í framan. Því næst tekur tilhlaup og skautar af öllum lífsins sálar kröftum í átt að veggnum. Þau undur gerast næst að Sonní hverfur inn í vegginn! Þar með er hann komin inn í einhverja aðra vídd og við honum blasir auðvitað Kira, böðuð gulu neon-ljósi. Eftir fylgir eitthvað furðulegasta samtal kvikmyndasögunnar. Þar takast á þeir Sonní og Seifur. Sonní biður Seif um að sleppa Kiru, en Seifur neitar auðvitað því reglurnar séu skýrar. Skyndilega heyrist kvenmannsrödd og þar er sennilega kona Seifs komin fram og hún segir „But Zeus. All rules are ment to be broken“. Síðan slöngvast Sonní aftur út úr veggnum. ( -Hverjum dettur svona í hug !)

Í samtali þeirra Danný og Sonní kemur í ljóst að Danní langar til að stofna næturklúbb. ( -Pælið í þessu ) Sonní veit akkúrat um húsnæðið, en það er einmitt yfirgefna iðnaðarhúsnæðið sem Kira æfir sig á hjólaskautum. Leikar fara svo – með miklum dans og söngvamynda-innskotum, að Danný stofnar næturklúbbinn Xanadu. Hérna er mynd af opnunar-hátíð klúbbsins.

Svo endar myndin. Ég gef Xanadu 10 stjörnur af 10 mögulegum. -Gersamlega frábær mynd.

Svo má taka fram að aðdáun mín á Oliviu Newton-John hefur bara aukist eftir þessa mynd. Hún skipar sérstakan sess í mínu hjarta enda fyrsta konan sem ég var skotin í (Sandy – Grease). Ég held að hún hafi aldrei ferið flottari en í Xanadu. Svo gleymist oft að hún er hörku sönkona -svo því sé haldið til haga.

Site Footer