GESTAPENNI: FRIÐRIK WEISSHAPPEL

Mitt álit er og hefur alltaf verið að borga eigi Icesave skuldina.

Mér finnst ekki að mismuna eigi fólki eftir búsetu, fyrir mér er mismunun röng, alveg sama hvers kyns hún er. Eftir litarhætti, trúarbrögðum eða búsetu.

Samkvæmt skilanefnd Landsbankans gamla og eftir skoðun óháðra aðila mun eignasafn bankans standa undir langstærstum hluta greiðslunnar.

Ljóst er að það fé sem þar liggur sé ekki okkar eign heldur eign þeirra sem lögðu sparifé sitt inn í Íslensku bankana í þeirri trú að þar til gerð yfirvöld hefðu með þeim eftirlit og að þeir væru traustsins verðir.

Það stóðst ekki, það stóðst ekki því hér stjórnuðu málsvarar taumlausrar frjálshyggju um langt árabil, þar með erum við að mínu mati samsek í því að saklaust fólk tapaði sparifé sínu, það að stjórnvöld Breta og Hollendinga hafi ákveðið að bjarga þegnum sínum eftir að Íslensk stjórnvöld ákváðu að borga bara þeim sem byggju á Íslandi en ekki öðrum breytir í engu því áliti mínu að borga þurfi skuldina.

Skuld er skuld.

Eignir þrotabús gamla Landsbankans muni að öllum líkindum duga fyrir skuldinni, ef ekki alveg allri þá svo stórum hluta að það sem útaf standi séu smámunir í samanburði við þann hægagang sem hagkerfið mun haldast í verði svar þjóðarinnar nei.

Fyrir utan þann stórkostlega sálfræðilega ávinning sem hlýst af að ljúka þessu máli og geta haft meira svigrúm til að velta fyrir sér fallegri og jákvæðari hugsunum eftir að sá múrsteinn sem þetta sorglega mál hefur verið í andrými þjóðarinnar allrar er fjarlægður.

Eftir að við höfum samþykkt að borga skuldina finnst mér að við eigum að ráða færustu lögfræðinga veraldar og fara í skaðabótamál við Breta fyrir að hafa beitt hryðjuverkalögum á þjóðina og krefjast bæði himinhárra bóta og formlegrar afsökunar.

Ég kaus samningsleiðina í dag og vona að sem flestir geri slíkt hið sama, að mínu mati er það leiðin áfram.

Lifið heil

Friðrik Weisshappel

Site Footer