Geirvörtur Seðlabankastjóra

Stóru tíðindin í Glitnismálinu eru þau að það er ekkert plott í gangi. Þetta er ekkert Davíð að kenna. Ég hvet alla til að lesa bloggið hans Péturs Tyrfingssonar. Þar er fín greining á málinu.

Vissulega stífnuðu geirvörturnar á seðlabankastjórna þegar Þorsteinn Már kom að máli við hann og vissulega notaði seðlabankastjóri öll ljótustu trikkin til að eyðileggja möguleika Glitnis til að komast út úr klípunni. Vissulega kom í ljós hver hefur í raun töglin og haldirnar í forsætisráðuneytinu. Vissulega kom í ljós pastursleysi viðskiptamálaráðherra þar sem hann þóttist hafa verið með í ráðum frá upphafi.

En…

Lítið var annað í stöðunni! Ríkið á ekki að lána 86 miljarða til fyrirtækis hversu vel það sé statt. Í tilfelli Glitnis á það ekki einu sinni við þótt því sé haldið að þjóðinni með reglubundum hætti. Bankarnir hafa vaxið langt umfram það sem Seðlabankinn getur ábyrgst. Þessi lausn, þótt ömurleg sé, er í rauninni skársta lausnin. Auðvitað er þessi krafa um að kaupa 75% hlutabréfa í Glitni á skít og kanel óréttlát og ömurleg og sennilega verða breytingar á þessu þegar storminum linnir.
Það sem er svo hrikalegt í þessu máli er að sögusagnir um einkahefnd Davíðs sé ástæðan fyrir ríkisvæðingu Glitnis munu aldrei deyja. Það er ekki traust og það er ekki sátt um Seðlabankastjóra. Allt sem hann gerir mun verða sett í hina sér-íslensku skotgrafir. Þar sem málum er skipt í tvennt með eldfljótum hætti í með eða á móti hinu eða þessu. Þýsk kona sem fylgst hefur með umræðu í kringum virkjanir og náttúruvernd sagði að umræða um málefnið væri ónýt og ómöguleg af þessum sökum. Alltaf skulu mál sem eru í deiglunni vera sett í skotgrafað kökuformi og þannig tryggt að niðurstaða náist aldrei. þetta er að gerast í Glitnismálinu. Það er einna helst bloggið sem liftir sér upp fyrir skotgrafirnar og reynir að fá e-a heildarmynd.

Ég held að hluthafafundur Glitnis þar sem ákvörðun verður tekin um þennan nauðar-samning verði sögulegur. Tíminn vinnur með Glitni í þessari erfiðiu stöðu. Um leið og risa beil-átið í Wall Street verður samþykkt mun allt fara upp á við. Lánamöguleikar opnast og hugsanlega mun Glitnir sjálfur redda sér út klípunni. Við það myndu reyndar geirvörtur Seðlabankastjóra linast umtalsvert og hann sennilega sendur á spítala, en hagur þeirra 11000 hluthafa Glitnis myndi lagast. Best er að bíða og sjá hvað gerist við Veggjastræti áður en stórar ákvarðanir eru teknar.

Næstu ár verða spennandi. Ég spáið því að ein risa-stór endurskipulagning muni eiga sér stað. Þeir ríku (og þeir ofur-ríku) munu sætta sig við það að eitt eða tvö núll hafi horfið af innistæðum þeirra. Ég held að neyslugeðveikin mun lagast af einhverju leiti. Sú árátta Íslendinga að kaupa sér drasl (eins og Range Rover og hjólhýsi, plasma parket og annað prjál) án þess að eiga fyrir því mun taka enda.

Ég bý í Svíþjóð og veit að sænskir nota ekki kreditkort, eru ekki með yfirdráttarheimlid, leggja til 15% af tekjum sínum í sparnað, aka um á notuðum bifreiðum, hjóla mikið í vinnuna, taka með sér nesti. Allt saman dæmi um lífsstíl sem Íslendingar hata eins og pestina. Þessvegna eru vandræði Svíja ekki í líkingu við vandræði Íslendinga. Vegna þess að Svíjar eru SKYNSAMIR.

Sagan fer í hring. 1980 mun koma aftur. Einn risa Moggi og nokkur flokksblöð. Ein sjónvarpsstöð. Fiskur verður aftur númer eitt. Verðbólga á bilinu 20 – 60 %. Atvinnuleysi, iðnverkakonur og samfélagsumræðan mun snúast um tittlingaskít. Það góða við þessa framtíðarsýn er að punkið mun koma aftur with að vengance. Því ber að fagna. Nýr Bubbi. Nýtt Brunalið og listalíf mun blómstra (eins og alltaf þegar illa árar).

Auðvitað væri æskilegra að við færum ekki afturábak til 1980,
heldur fram til ársins 2020. Gengjum í Evrópusambandið, tækjum upp alvöru gjaldmiðil og að skotgrafa-kökuforminu væri hent út og opnað fyrir almennilega þjóðfélagsumræðu. Auðvitað væri æskilegt að núverandi kosningakerfi væri breytt þannig að það væri réttlátt. Ein mannesja – Eitt atkvæði. En ekki eins og nú er þegar eitt atkvæði Vestfirðings gildir það sama og tveggja Reykvíkinga.

Við stöndum í rauninni á ansi merkilegum tímamótum. Nú er lag að taka til eftir partíið. Henda út fullum gestum sem rausa eitthverja dellu, taka hakann sem situr á bókakafi í baðkarinu, ryksuga hressilega og byrja að lifa eins og fólk en ekki eins og fábjánar.

Site Footer