Gagnleg glósa frá Hjálmari Gíslasyni

Ég rakst á glósu á Facebook í gær sem að hreyfði við mér. Hjálmar Gíslason skrifar hugleiðingu um stjórnmálamenn. Ég hef oft velt þessu viðfangsefni Hjálmars fyrir mér en get ekki orðað þetta betur en Hjálmar. Það var líka athyglisvert að lesa athugasemdirnar við glósuna og ljóst að fleiri en Hjálmar hafa pælt í þessu. Endilega lesið þetta.

Sennilega er það merki um að vera að eldast þegar kunningjar manns, gamlir skólafélagar og vinir eru orðnir meðal þeirra sem eru nokkuð áberandi í pólitíkinni, sumir jafnvel að komast á þing.

Það er hins vegar alveg magnað hvað þetta virðist gera við fólk. Fólk sem ég man eftir sem víðsýnu, hugmyndaríku og jákvæðu fólki fellur á kaf í skotgrafapólitík og verður alveg eins og gömlu leiðinlegu kallarnir sem við þurftum svo innilega að losna við af þingi.

Hvernig væri að einbeita sér að því að vera nýja týpan af pólitíkus? Þessi jákvæða, uppbyggilega, sem eyðir ekki mestu af sínum tíma í að rífa niður hugmyndir og innlegg „andstæðinga“ sinna, heldur kemur með hugmyndir, trompar útspil andstæðinganna með betri útfærslum og fylgir máli sínu eftir af eigin sannfæringu og sterkum rökum.

Það er reyndar furðulegt að fólk skuli yfir höfuð tala um „andstæðinga sína“, þegar það er svo augljóslega allt í sama liðinu um að vilja Íslandi vel, en hefur ólíkar hugmyndir um hvernig það sé best gert (nema viðkomandi séu í þessu af öðrum hvötum og þá mega þau gjarnan hverfa af þessum vettvangi og vera fyrir einhvers staðar annars staðar en í endurreisn Íslands).

Hér er nefnilega smá fréttaskot til ykkar, nýrra pólitíkusa: Niðurrif, neikvæðni, persónulegar aðdróttanir og uppnefningar virkuðu etv. ágætlega í Morfís, en núna þegar þið eruð komin til vits og ára, þá höfðar svona lagað bara til þeirra sem eru þegar í ykkar harðasta kjarna hvort eð er. Til að vinna nýtt fylgi, einkum og sér í lagi um þessar mundir, þarf jákvæðni, uppbyggilegar hugmyndir og umfram allt aðgreiningu frá gömlu pólitíkinni sem allir eru orðnir hundleiðir á.

Veriði nýja týpan af pólitíkus – plís!

Ykkar, Hjálmar

Flott glósa hjá Hjálmari Gíslasyni. Stundum fæ ég á tilfininguna að flokkakerfið sé einhverskonar kerfisvilla í þingræðinu. Að flokkakerfið sé „vandinn“ ekki fólkið sem situr á Alþingi. Þingmenn verða að vera sjálfum sér samkvæmir og rísa upp yfir flokkakerfið. Það er eðli lýðræðisins.

Hérna eru svo nokkrar athugasemdir sem birtust við glósu Hjálmars.

  • Hjartanlega sammála. Pólítík virðist laða fram ófrjóa hugsun og starfshætti. Kannski erum við samt aðallega að sjá og heyra þá sem hæst hreykja sér og heimskir eftir því. Maður amk vonar að einhversstaðar í þessu batterí séu einhverjir að gera eitthvað af viti. Ég myndi ekki spá fyrirtæki langlífi sem væri rekið með sama hætti.
  • Það er ótrúlegt að horfa upp á annars skynsamt fólk stökkbreytast í homo politicus, hvað þá homo kjördæmapoticus við fyrsta tækifæri. Þetta virðist vera furðu algengt.
  • Ég hef orðið var við þetta sama og er hjartanlega sammála þér Hjálmar.
  • Góð glósa og mjög þörf. Skotgrafir eru mjög 2007, en því miður erum við að verða vitni að þeim ennþá.
  • Ég er hinsvegar líka sammála því sem hér hefur komið fram – að almennt niðurrif á starfsstéttinni sé af hinu illa. Það er söngur sem er alltof algengur, þótt hann sé að sumu leyti skiljanlegur.
  • NÁKVÆMLEGA! Það er ekkert D-lið, S-lið, O-lið etc. Það er bara eitt lið-ÍSLAND. Landsliðið er sett inn á þing til að koma okkur út úr ruglinu. Rautt spjald á flokksagann. Áfr.Ísl.
  • Er þetta ekki ansi stór hluti af vandamálinu? Að eðli starfsins á Alþingi er illa skilgreint? Bæði af þingmönnum sjálfum og öðrum Íslendingum?

Site Footer