FURÐURÆÐA GUÐRÍÐAR LILJU

Mikið hefur verið talað um ræðu Guðríðar Lilju Grétarsdóttur sem hún hélt á Alþingi til að rökstyðja hvernig hún greiddi atkvæði í frávísunar-málinu.  Þar kom m.a fram að hún hafi orðið fyrir svívirðingum og hótunum.

Þetta er alvarleg ásökun og ég vildi sjá þetta fyrir framan mig svo að ég skrifaði ræðuna niður.  Það var mjög forvitnilegt að lesa hana í gegn.

Það sem sló mig við lesturinn er að andinn í ræðunni algerlega á pari við þá tilfinningu sem ég fæ oft fyrir VG. það er þessi yfirburða siðferðis-stallur sem þau draga stundum fram til þess að geta
hvesst augun á fólk.  VG kemur mér oft fyrir sjónir sem félagsskapur hrifnæmra tilfinningavera sem hrökkva í „gírinn“ við allskonar tækifæri.  Kreppti hnefinn er aldrei langt í burtu, réttlætingin og hin ófrávíkjanlega krafa að „ekki verður gefin eftir ÞUMLUNGUR þegar kemur að réttlætinu“.

Vandinn er bara að hið rétta fer stundum eftir því hver horfir.  Margir VG-liðar eru því miður ekki búin að átta sig á því.

Það sem er svo skelfilegt við stöðuna sem nú er uppi, er að á ögurstundu, hrekkur Guðríður LIlja Grétarsdóttir í „gírinn“.  Sér skyndilega óréttinn sem sannarlega er fólginn er því að Geir Hilmar sé einn í kærður og er alveg tilbúinn í að ónýta alla möguleika á frekara uppgjöri bara vegna þess að skipstjórinn einn er fyrir sjórétti.  -Ekki stýrimaður.  -Ekki vélstjórinn og ekki bátsmaðurinn eins og hefði sannarlega verið betra.

Mátækið „betri er einn fugl ií hendi en tveir í skógi“ kemur upp í hugann.

Í ræðunni rökstyður Guðfríður ákvörðun sína um að tveir fuglar í skógi séu betri en einn í hendi með að stinga upp á að „sannleiksnefnd“ verði stofnuð.

„Hér gefst ekki tími til að velta því öllu við, en ein leið væri að setja á stofn sannleiksnefnd, sem taki meðal að annars að sér víðtækar og opnar vitnaleiðslur ekki bara þingmanna heldur fleiri sem að málum komu.  Nefnd sem ætlað er að leiða í ljós allan sannleikann og en ekki yfirborð afmarkaðs tíma, afmarkaðra þátta sem varða störf aðeins eins manns“

Við þetta er það að athuga að svona er alltaf hægt að segja við öll tækifæri.  það er alltaf hægt að gera betur.  Það er alltaf hægt að sleppa grunuðum í einhverju glæpamáli og sega að öll kurl hafi ekki komið til grafar og ótækt sé að kæra þann sem náðist glóðvolgur þegar ljóst var að það voru fleiri sem komu að glæpnum.  Þetta segir sig sjálft og þessi skoðun Guðfríðar Lilju er að mínu viti eftiráskýring. Svoleiðis skýringar njóta mikillar hylli nú um stundir.

Guðfriður segir ennfremur:

„Ég veit að margir hugsa mér þegjandi þörfina fyrir að afstöðu mína.  Heitingar og formælingar bera þess glöggt vitni enda til mikils að vinna í hinum pólitíska skollaleik.  Látið er að því liggja að ég sé nú komin í lið með hrunverjum og beri ábyrgð á því að uppgjör fari ekki fram“.    Enfremur segir Guðfríður:  „Og ég tek ábyrgð mína sem ákæruvald alvarlega burtséð frá öllum hótunum og svívirðingum“.  

Hérna eru athugaverðir hlutir að gerast.  Guðfríður segist hafa verið hótað og gefur í skyn að pólitískur skollaleikur spili hlutverk í þeim hótunum.  Ég upplifi einmitt snúning Guðfríðar í þessu máli sem hreinræktaðan pólitískan skollaleik.  Fjórir þingmenn VG ákveða allt í einu að kjósa svona í þessu máli, eins og til þess að koma einhverjum skilaboðum að inn í fuðruheima gamalla Alþýðubandalags-erja.  Ég fullyrði að það eru einmitt einhver skollaleikur í gangi hjá Guðfríði, Atla Gíslasyni, Ögmundi Jónassyni og Lilju Mósesdóttur.  -Það er eiginlega alveg himinhrópandi.

Guðfríður segir enfremur:

Þegar Alþingi hafði allar forsendur til annars   Þá sýndi það grímulaust fram á það að það hafði ekki burði til að takast á við mál að því tagi sem hér er til umræðu.  Niðurstaðan var afmyndun á réttarríkinu.  

Þarna er Guðfríður að vísa í að einungis Geir Hilmar var kærður.  Þegar þetta varð ljóst á sínum tíma þá upplifið ég að ekkert uppgjör myndi fara fram.  Ég hef aldrei áður orðið fyrir öðrum eins vonbrigðum með stjórnmálin á Íslandi þótt hægt sé að plokka ýmsan óþverra úr haugnum.  Þetta var hinsvegar niðurstaðan og þetta er ekkert „afmyndun á réttarríkinu.“  Alþingi kaus svona.  Ég er 100% ósammála Guðfríði um þetta efni.

Guðfríður segir enfremur:

Það að láta eins og ekkert hafi í skorist í þessu máli og hér hafi eðlilega verið búið um hnúta er merki um niðurlægingu þings frekar en endurreisn þjóðar. Ef við byggjum forsendur uppgjörsins á pólitískum hráskinnaleik, ef við byggjum forsendur uppgjörsins á því að vanvirða grundvallargildi sem ákæruvald í réttarríki ber frumskylda að hafa í heiðri þá nærum við ekki einu sinni falska tilfinningu um að uppgjör hafi farið framheldur treystum stoðir stjórnmálamenningar sem ekkert lærði af hruninu. 

Þarna setti mig hljóðan um stund og ég þurfti að fara út í sjoppu til að kaupa mér Doctor Pepper.  Þegar ég kom til baka þá fattaði ég að Guðfríður er búin að snúast heilan hring og er dottinn ofan í frasa-fossinn.  Einhver orð, sem gætu vakið upp einhverjar tilfinningar sem gætu hugsanlega láti einhvern kreppa hnefann aðeins svo að sæist í hvíta hnúana.  En aðalega bara einhver orð.  Orð sem laus eru við alla raunveruleikatengingu.

Svona er kallað lýðskrum og er listgrein hjá töluvert stórum hópi Alþingismanna.

Hún er einmitt sjálf að niðurægja þingið. –Hún er sjálf að hindra endurreisn þjóðar.  –Hún er sjálf að byggja uppgjörið á pólitískum hráskinnaleik.  –Hún er sjálf að vanvirða grundvallargildi ákæruvaldsins.  –Hún er sjálf að vonast eftir að skapa falska tilfinningu við uppgjörið og hún hefur sjálf ekkert lært af hruninu.  Guðríður er á leiðinni niður frasafossinn og mér er til efs að hún komist upp úr sjálfsréttlætingarhylnum þegar salíbununni er lokið.

Ræðuna endar Guðfríður svo með hefðbundum frasa:

Ég vil raunverulegt uppgjör sem skilar okkur betri stjórnmálum ,betri starfsháttum, betri stefnu, betra samfélagi og betri framtíð.  Ég býð ennþá eftir tækifæri til að taka þátt í slíku uppgjöri. 

Það sem er hér á ferðinni er alveg makalaust inntak.  Sjálfsupphafning í bland við píslarvættisblæti, er hér komið í staðin fyrir stjórnmálalistina.  En það er list málamiðlana eins og allir vita.
Málamiðlanir passa nefnilega afar illa við stemninguna þegar akkúrat réttu orðin eru sögð og akkúrat rétta augnaráðið fylgir, hnefarnir kreppast og sviðatilfinning kemur í hjartað og vonin um að réttlætið fái nú loksins að ljóma.  Hérna er Guðfríður í „gírnum“

Þegar það gerist – er ekkert pláss fyrir málamiðlun.

Ég skil alveg og ég sætti mig við það að ég mun ekki fá „mitt“ uppgjör.   Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvað ég vildi sjá gerast eins og sjáfsagt allir Íslendingar.  Ég vil alveg eins og Guðfríður Lilja sjá fjórmenningana fyrir Landsdómi.  Ég vil t.d sjá banksterana bak við lás og slá.  Ég vil líka að þýfið verði gert upptækt.  Ég vil líka að stjórnir lífeyrissjóðanna verði látnar axla ábyrgð. Sama gildir um spillta þingmenn.    -Þetta mun ekki gerast. Mínar ýtrustu uppgjörskröfur munu ekki verða að veruleika.

En ég sætti mig við það svo fremi sem eitthvað uppgjör fari fram.

Það er svo sorglegt að Guðfríður Lilja virðist frekar vilja ekkert uppgjör, frekar ein skásta uppgjörið í stöðunni.

Staðan er nefnilega þannig að Framsókn og Sjálfstæðið vilja ekki neitt uppgjör.  Hugtakið „hrun“ er framandi fyrir marga og því kjósa flestir að segja alltaf „svokallað“ hrun til áréttingar um hversu loðið þetta heiti er.  Hér kemur svo hinn napri veruleiki.  Stjórnin stendur tæpt og ef það gerist ekki núna, þá gerist það ekki neitt.  Þá frýs málið bara fast uns Sjálfstæðið kemst að með ví að vísa í sífellu til sundurlyndis vinstrimanna.  Þetta gerist eftir svona ár og það þarf ekki mikið innsæi til að fatta þetta.

Og þá verður sannarlega ekkert uppgjör en draumastaðan verður komin upp.  Draumastaðan er hugtak sem sýnir það ástand sem margir í VG líður best í.  Sjálfstæðisflokkur í stjórn og VG öskrandi á hliðarlínunni um óréttlætið.  -Annað er líklegt.  Núna er Sjálfstæðisflokkurinn að ná aftur vopnum sínum.  Þau hafa verið klók í  að senda inn fleyga inn í raðir stjórnarinnar og mér er til efs að til sé áhrifaríkari minnihluti í Íslandssögunni.  Frammistöðumat á andstæðingum flokksins er hafið og ég er viss um að einhverjir skítadílar séu í burðarliðnum.

Ef grípa ætti til líkingar um afstöðu Guðfriðar Lilju er hægt að taka ótal dæmi.

-Manni býðst ókeypis málning á þakið sem liggur undir skemmdum, en neitar að þiggja það því að það er ekki með nákvæmlega sama litanúmeri og honum langaði.

-Fjölskylda er búin að skipuleggja sumarfrí en móðirin slær fríið af því að hún fékk ekki herbergi á uppáhaldshótelinu sínu.

-Fjölskyldufaðir ákveður að hætta við hangiketið á jólunum og hafa bara hafragraut því að það er iðnaðarsalt í hangiketinu.

Sama stefið kemur aftur og aftur upp..  Skortur á „bestun“ –  Forherðing og skortur á málamiðlunum – Oflæti blandað píslarvættisblæti og miklun eigin siðferðistilfinningar.

Hvernig sem þetta mál fer, þá held ég að óhætt sé að segja að gjáin milli þings og þjóðar hafi eiginlega aldrei verið dýpri.  Eins djúp og gjáin er, þá er það auðvitað sárgrætilegt að þau sem einmitt spennast upp í réttlætisbríma hinna undirokuðu, skuli hamra fleyginn dýpra og dýpra ofan í kvikuna.

Site Footer