FURÐULEG TILVILJUN – ÆÐRI KRAFTAR AÐ VERKI?

Í síðustu viku lést hinn þekkti leikari Leonard Nimoy. Hann var einn þekktasti leikari í Hollywood og ferill hans spannar heila sex áratugi.  Undarleg samfella virðist vera milli þessa stórkostlega leikara og forsætisráðherra Íslands.Leonard Nimoj er flestum vel kunnur.  Sinn fyrsta leiksigur átti hann árið1958 í kvikmyndinni Zombies of the Stratosphere og þá í hlutverki Marsbúans Narab. Í kjölfariðopnuðust gáttir og brautin varð greið fyrir fleiri bitastæð hlutverk.Það var svo árið 1966 aðNimoy þáði hlutverk sem hefur tvinnast við persónu hans og alla ytri umgjörð, inntak og æði.

Hollywood árið 1966 var um margt ólík þeirri sem nú blasir við en þó að ýmislegt hafi breyst einkennist borgarbragurinn af gríðarlega stórum skemmum hér og hvar í „borg englanna“.  Leonard Nimoy var inni í einni slíkri árið 1966. Þar sat hann ungur og glæsilegur í stól og mátaði þröngan geimbúning og undraðist færni förðunarmeistaranna sem höfðu breytt lögun annars fullkominna eyrna hans. Leikarinn ungi horfði á spegilmynd sína, setti fram hægri hönd, hallaði höfðinu lítillega aftur og myndaði klauf milli löngutangar og baugfingurs. „Live long and prosper,“ sagði hann lágt við sjálfan sig …

… og það gerði hann svo sannarlega.

Hlutverk Dr. Spock var eins og klæðskerasniðið fyrir Nimoy sem vann leiksigra í hverjum þætti.  Með dyggri aðstoð samleikara sinna gerðu þau „Star-Trek“ að áhrifamesta sjónvarpsefni allra tíma.  Leonard Nimoy var elskaður og dáður af milljónum og varla er til sá Bandaríkjamaður (eða Bandaríkjakona) sem ekki þekkir til Dr. Spock og Star-Trek þáttanna.

Leonard Nimoy varð að lokum að lúta örlögum þeim sem okkur öllum er sköpuð og hverfa af sviði jarðlífsins.  Núna horfir hann niður á jörðu frá skipstjórnar-stöð Enterprise með þakklæti í huga en finnur um leið fyrir fiðrildaslætti í viðkvæmu hjarta fyrir komandi ævintýrum og óséðum undrum tilvistarinnar og tímans …

Það er við hæfi á þessum tímamótum þegar ég minnist Nimoys að rifja upp að árið 1997 sendi ég honum tölvupóst.  Þar þakkaði ég honum fyrir þær stórfenglegu stundir sem hann færði mér að gjöf í hlutverki Dr. Spock (sem var hálfur vulkani og hálfur maður).  Í bréfinu var enn fremur ósk um að hann sækti Ísland heim svo að þjóðin fengi tækifæri til að þakka honum og veita honum virðingu og aðra velgjörð.

Nimoy svaraði reyndar ekki þessum tölvupósti en eitthvað segir mér að hann hafi hugsað með hlýhug til Íslands en verið of önnum kafinn og ekki getað sótt „sögueyjuna fögru“ heim.  Eins furðulega og það hljómar þá er þessi saga mín ekki ein eða stök.  Öll erum við undin upp á örlagaþráð hins alvalda guðs og þótt sandkornin séu að sönnu mörg eru sum þeirra alveg eins.

Sigmundur Davíð forsætisráðherra sendi einmitt líka bréf á tíunda áratugnum til manns sem er nýlátinn. Sá svaraði ekki heldur!

Ekki er loku fyrir það skotið að sá hefði líka viljað sjá sögueyjuna fögru. Með þakklæti og hugheilum andans hlýhug.

Site Footer