Froðusnakk

Mér svelgdist hressilega á þegar ég las þetta á mbl.is í gær. Kaffið sullaðist ókyngt ofan í vélindað í mér og olli þar usla og andnauð sem endaði í óskaplegu hóstakasti. Eftir að hafa þurkað tölvuna með rökum koltrefja-klút og snýtt mér nokkrum sinnum rann loks upp fyrir mér einhver óræður sannleikur. Það var sem andvarinn hvíslaði í eyra mér. -„Svarið“ fauk einhvernvegin um loftið. Já vinir mínir. Fagurlega fauk það en innihélt því miður ekki niðurstöðuna sem ég vonaðist kanski eftir.

Samfylkining hefur ekkert lært. Ekki hætingshót. Ekki boffs. Þau eru byrjuð með glærushow-ið sem á að redda okkur. Ekkert „Plan B from Outer Space“ heldur „20/20 – Sóknaráætlun fyrir Ísland“.

Áætlun sem inniflelur í sér hluti eins og „að Ísland skipi sér í fremstu röð i verðmætasköpun velferð og sönnum lífsgæðum“….

…he he he

Nú veit ég að það er ljótt að gera gys að háleitum hugmyndum sem settar eru fram af einhverskonar einlægni en ég vil minna á að við höfum séð þetta allt áður. Einu sinni settu stjórnvöld fram glæsilegt plagg sem átti að renna stoðum undir Ísland sem fjármálamiðstöð á borð við Tortola og aðrar skattaparadísir. Svo sáum við einu sinni plagg sem hét því hljómfagra nafni „Fagra Ísland“. Það plagg var ekki pappírsins virði því um leið og Samfylkingin komst í stjórn þá var allt svikið. Nokkrum vikum fyrir Hrunið kom svo kanski asnalegasta skýrslan. Í henni var kjörorðið „Kraftur-Friður-Frelsi“ og skýrslan sú arna fjallaði um hvaða ímynd við Íslendingar ættum að hafa af landinu okkar. Þessi ódauðlega skýringarmynd fylgdi með:

Takið eftir þvæluni með „ytri ímynd“ og „innri ímynd“.. -Þetta er ódauðlegt stöff.

En aftur að „20/20“ skýrslunni nýju. Það er sammerkt með svona skýrslum að heita einhverju svona „catchy“ nafni og þeir mega eiga það skýrlsuhöfundar að þeim hefur tekist nokkuð vel til i þessu tilfelli. tuttugu – tuttugu. Ég sé þá fyrir mér í framtíðinni renna stoðum undir málfluting sinn með vísunum á borð við..“eins og sést í metlaðarfullri skýrslu ríkisstjórnarinnar tuttugu-tuttugu þá….“ Svo kemur eitthvað blaður um innra og ytra nærsamfélag með hliðsjón af markmiðasetningu menntunar og nýsköpunar á sviðum afturkræfrar orkutækni. Ég held að skýrlsuhöfundar hafi sótt þarna í brunn brennivínsfræða því alþekkt er sjálfshjálparaðferiðin 90/90 eða 90 fundir á 90 dögum. Sú aðferð virkar reyndar furðu vel og ég hvet ríkisstjórinina til að lesa heimsspeki ellegar stjórnspekirit 90 sinnum á 90 dögum í stað þess að eyða tíma og peningum skattborgraranna í froðusnakk á borð við þessa tuttugu-skýrslu.

Stjórnmálamenn og skýrsluhöfundar segja nú ugglaust að það sé ekkert að því að stjórnmálamenn hafi einhverja sýn og riti hana á blað. Ég get alveg tekið undir það en með fyrirvörum. Þessi 20-skýrsla á nefnilega mikið meira skylt við markmiðaetningu eða þvíumlíkt en stjórnmál. Mér líst illa á að stjórnvöld ætli sér að skilgreina „sönn verðmæti“.

Veltum fyrir okkur nokkrum hugtökum sem hafa verið kerfisbundið þögguð niður s.l 20 undir stjórn náhirðar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. T.d orðið réttlæti.

Búum við í réttlátu samfélagi? Er réttlæti fólgið í því að útvaldir fái að nota og auðgist á náttúruauðlindum Íslands? Er réttlæti að útvaldir fái að veðsetja náttúruauðlindir þjóðarinnar?

Svaraðu þessu Dagur B. Eggertsson. Svaraðu þessu Steingrímur J. Svaraðu þessu Össur Skarphéðinsson.

16 comments On Froðusnakk

 • Sorry en þú munt ekki fá nein svör við réttlæti hjá fólk skilur ekki hugtakið né hefur nokkru sinni heyrt á það minnst. Raunveruleg ástæða fyrir skýrslugerðinni er að einhverjir flokksdindlar þurfa að fá laun á ríkisjötunni og þetta er er fínt yfirvarp.

 • Er ekki Svava Grönfeld í nýju nefndinni, rétt eins og þeirri síðustu (þeirri "asnalegustu")?

 • Jú Svava Grönfeld er höfundur 20/20 skýrslunnar og "Friður, Kraftur, Hreysti-skýrslunnar".

  Hún er drottning froðunnar.

 • Þetta er hluti af þeirri meinloku að vandi okkar sé trúverðugleiki, einhverskonar PR-vandmál. Afneitunin á vanda samfélagsins er svo sterk að það virðist ekkert geta hrist upp í liðinu.

 • Friður ,kraftur ,gleði voru einkunnarorð Samhygðar (húmanistar ) minnir mig svolítið á það og svona flott skematísk uppsetning."Dólgarnir" eru búnir að spila laglega með Elítuna(mennta ,fjölmiðla,stjórnmála.) í þessu landi og setja skuldaklafa á okkur verkafólkið.Hörður halld.

 • Ég skildi að þetta 20/20 væri einhver vísun í það að læra af reynslunni, svona eins og Kanar segja 20/20 hindsight.

 • 20/20 er myndlíking. Augnlæknamál í raun því þegar þú ert með 20/20 sjón, þá ertu með fulla sjón á báðum augum.
  Þetta kemur einmitt frá Bandaríkjunum eins og einhver vísar til í athugasemd hér ofar.

  Einnig geri ég ráð fyrir að árið 2020 ætli menn að vera kominn á einhvern svona góðan stað, með fullri sjón og á góðu stími, eða hvaða aðra froðu við getum fundið.

 • Nú er ég búinn að setja þessa óborganlegu mynd sem bakgrunn á desktopið hjá mér.

  Nauðsynlegt að hlægja daglega.

 • Eins og þú ert stundum hnyttinn og beinskeyttur læturðu stundum tuðarann í þér ná algjöru valdi á þér. Eins og núna.

  Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við allt sem þú segir hér, það er eflaust rétt að háleitar áætlanir frá síðustu misserum eru hlægilegar í dag rétt eins og tískuföt síðustu ára. En eigum við þá ekki að gera áætlanir? Eigum við ekki að marka stefnu um það hvernig hægt er að koma okkur aftur á flot? Kafaðir þú eitthvað ofan í hugtakið "sönn lífsgæði"? Hef ekki skoðað þessa skýrslu sjálfur en hefði haldið að guðfræðingur yrði spenntur yfir þessu – kannski er þar eitthvað um gott og innihaldsríkt líf í sátt við jörðina, guð og menn!

  Hitt sem ég vil efnislega gera grein fyrir er fullyrðing þín um að allt í sambandi við Fagra Ísland hafi verið svikið. Það er einfaldlega lygi, haganlega smíðuð af vinum okkar í Vg sem ævinlega vildu vera "the only gay in the village" í umhverfismálum.

  Þér til upplýsingar gengur Fagra Ísland í meginatriðum út á þrennt;
  1) rammaáætlun um vernd og aðra nýtingu náttúrusvæða
  2) að ekki yrðu veitt frekari rannsóknarleyfi fyrr en niðurstaða rammaáætlunar liggur fyrir
  3) tíma- og tölusetta áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda

  Einnig var sagt að æskilegast væri að á meðan unnið væri að áætluninni yrði gert hlé á frekari stóriðjuframkvæmdum.

  Skýrt var tekið fram að ekki yrði farið í að rifta áður gerðum samningum þar eð það myndi valda skaðabótakröfum á ríkið og skaða tiltrú erlendra fjárfesta í hvaða geira sem er ef ríkið tæki upp aðferðafræði Hugo Chaves.

  Helguvík var komin með öll tilskilin leyfi þegar Sf fór í ríkisstjórn og þess vegna var ekkert sem ríkisstjórnin gat gert til að stöðva þær framkvæmdir. Þetta viðurkenndi formaður Vg í útvarpsviðtali eftir kosningar 2007 þegar hann eygði von um að Vg kæmist í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Lái honum hver sem vill. Það sem deila má um í þessu máli er hvort gera átti fjárfestingarsamning við Norðurál. Eins og öllum er ljóst var það þó gert með vitund og vilja ráðherra Vg í síðustu ríkisstjórn þó svo sumir þingmenn þeirra greiddu svo að lokum atkvæði gegn samningnum.

  Þetta breytir hins vegar ekki því að nú er
  1) vinna við rammaáætlun um vernd og aðra nýtingu náttúrusvæða á lokastigi en það er nauðsynlegt til að skapa sátt um ráðstöfun hálendisins og annarra verðmætra náttúrusvæða
  2) ekkert nýtt rannsóknarleyfi hefur verið veitt á meðan þessari vinnu hefur staðið
  3) unnin hefur verið ýtarleg rannsókn á möguleikum Íslands til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.

  Til viðbótar má bæta við að
  a) í Fagra Íslandi var talað um aukin réttindi almennings og frjálsra félagasamtaka til þátttöku í umhverfismálum. Hluti af því er að fullgilda Árósasamninginn en að því vann Þórunn Sveinbjarnardóttir af kappi og þegar BB fór úr ríkisstjórn fór þar mikilvæg fyrirstaða og því er von til þess að þessi áfangi náist fljótlega
  b) í Fagra Ísland var talað um að koma þyrfti á Landsskipulagi þar sem niðurstaða rammaáætlunar fengi lögformlega stöðu. Frumvarp um landsskipulag var unnið af Þórunni Sveinbjarnardóttur en náði ekki fram að ganga af ýmsum ástæðum – ekki síst þeim að vinna þarf málið betur í samvinnu við sveitastjórnarstigið sem telur sig e.t.v. vera að missa hluta af skipulagsvaldi sínu.

  Ég vona að þú látir framvegis vera að apa hráar alhæfingar upp eftir pólitískum hagsmunaaðilum. Þú ert allt of góður þjóðfélagsrýnir til þess.

  Bestu kveðjur,
  Dofri Hermannsson,
  einn af höfundum Fagra Íslands.

 • Sæll
  Ég tek undir með Dofra, ég les oft það sem þú skrifar en þetta er barnaleg færsla hjá þér. Held þú ættir að hugsa málið aðeins betur. Það er ekki eins og þessi skýrsla sé eina lausn stjórnvalda á vanda þjóðarinnar. Samfylkingin virðist vera eini stjórnmálaflokkurinn á íslandi í dag sem þorir að horfa fram á vegin. Tala þor og kjark í þjóð í vanda. Auðvitað eigum við að hafa leiðarljós – við eigum að vita hvert við viljum fara ! Við eigum að halda áfram og vinna okkur út úr vandanum en ekki bara gefast upp fyrirfram eins og sumir vilja !!
  Það þýðir ekki endilega að við endum akkúrat þar en það er líklegra en ef við höfum engin markmið og að engu að stefna.
  Þessi skýrsla er ágætt innlegg í þá umræðu, svipuð vinna hefur verið í gangi í Reykjavíkurborg.

  Varðandi það sem nafnlaus er að skrifa þá efast ég um að nokkur hafi fengið borgað fyrir þessa vinnu. forsætisráðherra borgar almennt ekki fyrir svona nefndastörf. Svava á mjög oft ágæta punkta og ég hef mun meira gaman af að hlusta á hana tala en lesa nafnlaus illskeytt komment á netinu.
  Með góðri kveðju og von um uppbiggilega gagnrýni á innihald málsins – þ.e framtíð íslands !

  Heiða Björg

 • Er eithvað að því að gera framtíðaráætlanir? Hvernig væri að koma með eina slíka fyrir Ísland í staðin fyrir að gera grín af þeim sem eru að reyna að gera eithvað. Eða eiga Íslendingar að lifa á ofurstyrktum landbúnaði og fullnýttum sjávarútvegi í framtíðinni. Hér á landi vantar einhverja framtíðarsýn í atvinnumálum. Það væri gaman ef einhver reyndi að skrifa eithvað uppbyggilegt í staðin fyrir þessa eilífu niðurrifsstarfsemi.
  Jónas Kristjánsson (ekki ritstjóri)

 • Ég brást við eins og þú þegar ég heyrði af þessu plani. En þegar ég heyrði hvernig þetta ætti að vinnast þá ákvað ég að gefa þessu séns.

  Þetta er einmitt ekki enn eitt glansmyndardótið – unnið innan flokks eða flokka með moðsuðu dauðans.

  Þarna á amk. að gera tilraun til þess að fá fólk að því að mynda framtíðarsýn – sameiginlega – þar sem allir hafa leið til að koma sínum hugðarefnum að. Það er verið að spá mikið í aðferðafræðina, bæði með því að nota netið og með gamalgrónum aðferðum eins og að halda fundi út um allar trissur og safna saman niðurstöðum.

  Hugmyndin er að setja smá vinnu í að ná fram consensus – að sem flestir geti komið að forgangsröðun, að sem flestir geti lagt sitt að mörkum við ákvarðanatöku og að með þeirri vinnu megi auka líkurnar á að sem flestir verði sáttir við aðgerðirnar sem fylgja í kjölfarið.

  Það er amk. tilraunarinnar virði.

 • Flottur pistill Teitur, loksins sérðu hlutina eins og þeir eru. Til andsvarpa mætir hér skrýmsladeild Samfylkingarinnar til varnar sínu froðufólki. Eruð þau á launum?

 • Dofri, Heiða og Jónas. Þessar froðuskýrslur hafa aldrei skilað neinu eða verið gagns, ALDREI. Jú reyndar tók flokksforysta samfylkingarinnar, um leið og þau komust í ríkisstjórn, skýrsluna með sér inn á klósett og það var EKKI til lestrar, ef þið skiljið hvað ég meina.

 • Það sem að Samfylkingarfólk verður að átta sig á að það mun aldrei ná til fólksins ef það notar jafn ópersónulegar auglýsingaherferðir og bankarnir notuðu árið 2007.

  Ég dæmi skýrslur, rétt eins og bækur, eftir umbúðunum og það er langt í frá málið núna að eyða helming tímans í að pæla í myndlíkingum. Ef þú ætlar að eyða helming tímans í myndlíkingar, reyndu þá að hafa þær lúmskar en ekki mataðar ofan í fólk.

  Persónulega finnst mér að þegar kynningar eru of sniðugar og hnyttnar að þá sé verið að afvegaleiða mig.

  Annars tek ég undir orð Héðins Bjarnarsonar. Vandinn er ekki ímyndarvandi.

  Vandinn er heldur ekki skortur á bjartsýni. Vandinn er verulegur skortur á raunsæi og svo myndi dass af réttlæti ekki skaða neinn.

  Gefið mér svo skýrslu þar sem kortlagt er hvernig hægt verði að bæta réttarkerfið þannig að þetta geti aldrei gerst aftur. Svo lengi sem að fólk hræðist það að ævisparnaðinum verði stolið af þeim með nettu pennastriki mun hvaða bjartsýnisskýrsla sem er ekki koma þeim af stað.

  gunnar jóhannsson

 • Gagnleysi þessa fólks er farið að valda stórskaða fyrir land og þjóð.

  Síðan kemur það kvartandi inn á athugasemdakerfið með langlokur um ekki neitt.

  Það er jafn takmarkað og andlaust og hugmynd þess um stjórnlagaþing ber vitni um.

  Toni

Comments are closed.

Site Footer