Frægi maðurinn í runnanum.

Ég hef verið að velta fyrir mér svolítið snúnu vandamáli undanfarna daga. Það snýr að virðingu borgaranna gangvart stjórnmálamönnum. Hún fer þverrandi eins og flestir vita. Pælingin er nokkuð snúin en ég ætla að reyna áhlaup á hana.

Nú er það svo að ég þekki nokkra þingmenn, sumir eru jafnaldrar mínir sem ég hef verið samferða í gegnum áratugina meðan öðrum hef ég kynnst í gegnum sameiginlega vini og þess háttar. Ég hef tekið eftir því hjá sjálfum mér og umhverfinu mínu að fólk einhvernvegin breytist í afstöðunni til þessara einstaklinga þegar viðkomandi hefur verið kosið á þing. Viðhorfið til þessara einstaklinga einkennist af óttabljúgri virðingu og svona gervihlátri og fimmaurabröndurum þegar maður hittir þetta fólk út í búð eða í bíó. Ég er reyndar hættur þessu bukti því það er fáránlegt að fara að breyta samskiptamunstri sínu við fólk sem maður hefur kannski verið með í bekk eða unnið í sömu skítavinnunni á sumrin.

Já ég er semsagt hættur þessu dekri og kem fram við þingmenn sem ég þekki eins og kunningja mína. Skamma þá eða hrósa, allt eftir því hvað á við hverju sinni. Nú er það reyndar með mig og mína vini að við látum gjarnan allt flakka, og já. Sumir gæti sagt að við töluðum stundum eins og götustrákar. Mönnum er sagt að stein og -grjóthalda kjafti, hoppa upp í rassgatið á sér, drulla sér í burtu og svo eru gjarnan rifjaðir upp gamlir skandalar úr lífi viðmælendans, og viðkomandi svo sagt að þegja. Þrátt fyrir þessu stóru orð er ákveðið jafnvægi í gangi milli gríns og alvöru þegar hvessir svona duglega í vinahópnum. Við félagahópurinn höldum a.m.k sambandi eftir öll þessi ár og okkar í milli ríkir djúp og einlæg vinátta.

Einhvertíman á „Gun’s & Roses“-tímabilinu þegar einn félagi okkar varð skyndilega „frægur“ og tjáði okkur á einhverju fylleríinu að þrátt fyrir frægðina yrði hann alltaf vinur okkar eins og áður, var honum umsvifalaust varpað í næsta runna. „ÞEGIÐU! -Hendum þessu fífli í garðinn þarna“. Sá frægi var hafinn á loft svo að Dr.Martins skórnir snertu eigi Öldugötuna og flaug svo í nettum boga inn í næsta blómabeð. Hann sá svo á eftir okkur flissandi eins og flónin sem við vorum hverfa fyrir hornið á Garðastrætinu.

Við hittum þennan vin okkar stuttu síðar á einhverjum skemmtistað og heldum áfram eins og ekkert hafi í skorist. -Málið afgreitt.

Þetta jafnvægi meðal kunningja minna og vina hefur verið við lýði mjög lengi. Allt aftur í Hagaskóla. Mér líkar þetta vel og ég held meir að segja að svona jafnvægi sé grunnur vináttunnar. Ekki bara það heldur líka grunnur allra almennilegra samskipta manna í milli.

Ekkert hræddur við stjórmálamenn eða einhverja fræga. Mér er beisikklí sama. Stundum er þetta svolítið stuðandi en það veltur á aðstæðum hverju sinni.

En hvað er það sem veldur þessu ójafnvægi milli t.d stjórnmálamanns og borgara? Hví ættum við að sýna þingmanninum einhverja sérstaka virðingu? Ég hef mikið pælt í þessu og ég held að vegna smæðar samfélagsins þá snúist þessi virðing mikið til um valdið sem stjórnmálamaðurinn hefur. Fólk er alltaf að hugsa:

„Best að eiga inni smá goodwill hjá þessum. Það er aldrei að vita nema að maður þurfi einhverntíman á hjálp að halda“

Þetta viðhorf veitir stjórnmálamanninum miklu meira vald en það sem hann í raun og veru hefur, því að honum er í raun afhent valdið fyrirfram og þarf ekki að vinna sér inn innistæðu fyrir virðingu. Buktandi viðhlægjendur eru jú ekkert til að hafa áhyggjur af. -Ekki satt? Svo er athyglisvert að innifalið í þessari afstöðu (um að gott sé að eiga inni greiða hjá stjórnmálamanni eða flokknum hans) er inngróin spilling. Það er þetta gamla, að geta farið inn á skrifstofu til stjórnmálamannsins og fengið „fyrirgreiðslu“. Takið eftir því að þetta orð, „fyrirgreiðsla“ er notað í íslensku tungumáli yfir sérstaka tegund spillingar. Orð sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi og hefur örugglega ratað í orðabækur.

Sem sagt: Buktið eða „virðingin“ innifelur í sér hinn frjósama jarðveg spillingarinnar. Það skekkir jafnvægi sem ætti að ríkja samskiptum milli fólks og hefur þar að auki tvöfalda verkun. Minnimáttarkennd borgarans og mikilsmennskukennd stjórnmálamannsins. Það verður pólarísering i stað jafnvægis. Stjórnmálamaðurinn fær ranghugmyndir um ágæti sitt og styrkist í hrokanum ef svo má að orði komast. Því meira bukt – því meiri hroki. Dæmin um þetta eru óteljandi en það birtist á sérlega sniðugan hátt í bloggi borgarfulltrúans Jórunnar Frímannsdóttur en þar fer hún fram á virðingu fyrir stjórnmálamönnum þrátt fyrir óvirðingaverða framkomu stjórnmálamanna. -Erkidæmi um þá gjá sem hefur myndast milli stjórmálamanna og borgaranna. (lesið athugasemdirnar hjá Jórunni…)

Birtingarmyndir þessa ástands eru óteljandi og margbreytilegar. Allt frá menningargeiranum (sem háður er opinberum styrkjum), inn í viðskiptalífið og út aftur um allt samfélagið, inn á Alþingi og inn undir þröskuldana hjá skrifstofum borgarfulltrúa. Hvað menninguna varðar þá held ég að áhrif buktsins séu sérlega skaðleg, því listamaðurinn þarf að smaðra fyrir einhverju styrktjarúthlutunarliði og stjórnvöldum. Svona ástand er aðeins til þess fallið að gelda listina og rífa úr henni tennurnar. Enda er akurinn nú ekki beisinn í menningargeiranum á Íslandi og eina merkilega listin sem kemur frá landinu okkar eru verk „andófslistamanna“ ef svo má að orði komast.

Buktið og þýlindið birtist einnig í þöggun. Við erum svo fá að allir þekkja alla og nálægðin of mikil. Ég bloggaði einhverntíman um einhvern stjórnmálamann sem ráðin var í skilanefnd Glitnis eða eitthvað. Já, klassískt gremju-gagg úr bloggbjarginu. Ekkert merkilegt satt best að segja. Nema hvað félagi minn fer að fá tölvupóst þess efnis að ég þyrfit nú að fara að taka því rólega á lyklaboriðinu. Þessi tiltekni stjórmálamaður væri jú mágur þessa hérna sem var giftur þessari hérna og ég væri að úthúða manninum og ég veit ekki hvað.

Hvaða ástand er þetta eiginlega? Ég blogga um eitthvað og er skammaður eftir krókaleiðum vegna þess að það raskar einhverri ró í Snobbhill! Hvernig getur almennileg umræða þrifist undir svona kringumstæðum? Hvernig getur þjóðfélagumræða átt sér stað við svona ójafnvægi?

Við verðum að fara að hætt að „virða“ stjórnmálamennina og tala við þá eins og þjónana okkar sem þau sannarlega eru, en ekki sem yfirvald sem hægt er að skríða undir feldin hjá til að totta dúsu. Tölum við þá eins og félaga okkar. -Eins og vini okkar. -Eins og jafningja okkar.

-Þá fyrst getur eitthvað frábært farið að gerast.

6 comments On Frægi maðurinn í runnanum.

 • Má ekki orða þetta líka þannig að við eigum að líta á okkur almenning sem vinnuveitendur þingmanna en ekki þegna þeirra, og þingmenn þurfi að líta á sig sem starfsmenn þjóðarinnar en ekki yfirvald þjóðarinnar.

  Góður pistill annars.

 • Þetta er alveg rétt og athugasemdin hjá Agga líka.
  Pólitíkusar (stjórnmálamaður er of virðulegt fyrir þessa stétt) eru í vinnu fyrir almenning og þeir eru starfsmenn þjóðarinnar, alveg eins og t.d. starfsmenn stéttarfélaga eru í vinnu fyrir félagsmenn.

  Þorsteinn Úlfar

 • Er Jóhanna og Steingrímur virðingarverð? Nei þetta eru vesalingar, því miður.

 • Takk fyrir réttmæta gagnrýni, við þurfum virðingarlausan expatriot sem þorir að henda þeim sem eiga það skilið út í runna 🙂

  Það er reynt að slá værð yfir málið með brosköllum en það má einmitt ekki brosa, því þannig er maður að gefa þessu liði lausann tauminn.

 • Frábær pistill.

  Okkur er hollt að muna að öll komum við berrössuð í þennan heim og öll förum við strípuð af peningum og völdum úr honum aftur.

  Anna Einarsdóttir

Comments are closed.

Site Footer