FRÆGASTI SEM ÉG HEF SÉÐ IV

Það var veturinn 2005 þegar ég sá uppáhalds frægakallinn minn. Það var í búð sem heitir Jólabúðin eða eitthvað þvíumlíkt. Búðin var smekkfull af fólki. Skyndilega sé ég mann í afar áferðarfallegum frakka. Þetta var ullarfrakki, úr hinni fegurstu kasmír-ull.

Nema hvað innan um allar þessar jólakúlur og trúar-lingur snýr maðurinn í frakkanum sér við!. Reyndist þá þar vera komin sjálfur Roger Moore. Hetjan mín frá því i gamla daga! James Bond úr bestu mynd í heimi. ”The Spy Who Loved Me”.

Hann var þarna eitthvað að bauka með konunni sinni. Mér varð um og ó eins og alltaf þegar ég sé einhvern frægan og gleypti einhver ósköpin af lofti meðan Roger starði á mig skilningslausum augum. Hvað ætli hann hafi haldið þegar hann sá mig súpa hveljur í geðshræringu? Hver veit? Kannski lendir hann oft í þessu?

Roger var reyndar með vönduð sólgleraugu á nefinu en ekki þannig gleraugu sem byrgja sýn heldur matta aðeins veruleikann. Þetta voru gullslegin sólgleraugu með ljósbrúnum glerjum. Helvíti flott. Ég hef alltaf haldið með Roger sem besti Bondinn og skil ekki fólk sem segir að Sean Connerí sé bestur. Ég held í rauninni að það fólk viti ekkert um kvikmyndir og haldi þessari dellu fram í þeirri von um að aðrir haldi að það sé með fágaðan smekk.

Connerí er jú huggulegri að mati kvenna (og jafnvel karla) en Roger er bara svo miklu betri. –Svo hef ég líka séð hann með augunum mínum.

Site Footer