Fréttir frá ESB landi.

Þegar ég var krakki kom inn á heimilið ferlega skemmtilegt blað. það hét „Fréttir frá Sovíetríkjunum“. þetta blað nokkuð dularfullt því enginn hafði pantað áskrift af blaðinu og aldrei var rukkað fyrir blaðið. Ég er viss um að þetta dularfulla blað sem kom reglulega inn um lúguna hjá fjölskyldinni að Vesturbergi 95, var afleiðing þess að pabbi minn var framarlega í menningarlífi Íslendinga (og er reyndar enn).

Þetta blað veitti „opinbera“ innsýn inn í lífið í stórveldinu, þessari risastóru samfélagstilraun sem reyndist vera einfalt reykský stjórnað af vænissjúkum glæpamönnum. Ég hafði gaman af þessu blaði. Þetta var svona stemmningsblað þar sem brosandi fólk var sýnt ásamt furðusögum úr landbúnaði og manni sem var með ótrúlegt minni. Allskonar bjartsýni og pepp. Þessi bjartýni var reyndar á skjön við skoðun heimilisfólks á Sovíetríkjunum og reyndar flestra Íslendinga því allir vissu að lífið í Sovietinu var ekki eins og þeir vildu láta vera

Nú líta margir Íslendingar á að ESB hafi tekið við af Sovíetríkjunum sem hið framandi og hið ógnvænlega land sem allt vilji gleypa, steypa í sama mót skrásetja hvert einasta smáatriði hvers einasta lífs til hins ýtrasta og arðræðna auðlyndir allra þjóðanna svo að ekki sé eftir stingandi strá né svo lítið sem hálf loðna í hafinu. Sumir halda jafnvel fram að skipulegt dýraníð eigi sér stað innan landa ESB og að tilgangslaust dráp á fiski sem ekki er í staðlaðri stærð, sé beinlínis skylda allra ríkja ESB. Furðu vekur að þungaviktarmanneskja í íslenskum stjórnmálum er þessarar skoðunar.

Þessa skoðun má helst finna meðal þeirra sem eru yzt til hægri ellegar yzt til vinstri. -Þetta er þónokkur hópur fólks og sumir hverjir svo heitir í þessar sannfæringu sinni að undrum sætir. Þumalputtaregla er að þegar yzta hægrið og yzta vinstrið sé sammála um eitthvað, þá er það pottþétt ávísun á vonda niðurstöðu. Þannig er það með ESB. Vinstrið segir að ESB sé alltof til hægri, en hægrið segir að ESB sé alltof til vinstri. -Þetta boðar á gott.

Nú er það svo að ég bý í landi sem er í ESB. -Já þið lásuð rétt. Ég bý í landi sem er í ESB! Svíþjóð er nefnilega í ESB. Lika Finnland og Danmörk! Já ég endurtek. Öll stærstu norðurlöndin eru í ESB. Ég fullyrði án þess að blikna að þegar Johan Svensen vaknar upp á morgnanna er þessu hugsun ekki ríkjandi í huga hans.

Mikið er gaman að vakna glaður og reifur í ESB-landi.

Satt best að segja þá hugsar Johan Svensen ekki mikið um ESB. Vera Svíþjóðar í þessu bandalagi eða aðilid Svíþjóðar af þessum samningi, hefur ekki mikil áhrif á daglegt líf Svíþjóðar eins og Sovíeski kommúnistaflokkurinn hafið áhrif á daglegt líf þegna Sovíetríkjanna. Hérna í ESB landinu Svíþjóð ganga hlutirnir fyrir sig rétt eins og annarsstaðar. það er verið að fletta ofan af spilltum lífeyrisstjóðs-stjórum, Splunkunýr fótboltaleikvangur skekur allt hverfið þegar áhorfendur hoppa í takt, sem þýðir óheyrilega dýrar framkvæmdir, Svíum vantar ekki rafmagn. Hér er kjanorka, vatnsorka og vindorka. O.s.fr.

Hér er atvinnuleysi um 7% og þykir mikið. Áhrif efnahagskreppunnar er einna helst það að ríkið er að lækka vexti (nokkuð sem er óhugsandi á Íslandi) Stýrivextir eru nú um hálft%. Þetta er gert til að örva fólk til að taka lán og koma tannhjólinu á stað. Svíar eru mjög uppteknir af umhverfismálum og eru leiðandi í heiminum á því sviði. Hérna er hagsæld og hérna eru nýjir íbúar boðnir velkomnir.

Flóttafólk frá öllum heimshornum hefur sest hér að og byrjað nýtt, friðsælt og öruggt líf. Hérna er barasta gott að búa þrátt fyrir ESB og allt það. Ég er algerlega sannfærður að Svíar líta á veru sína í ESB sem þáttakendur í samstarfi, ekki sem „þegna“ einhvers ofurríkis eins og sumir Íslendingar virðast halda fram.

Þetta er samningur um að sömu reglur gildi allstaðar. Sumum kann að finnast þetta afar ógeðfelt af ástæðum sem ýmist eru yst á hægrinu eða yzt á vinstrinu, en um þetta hefa ríki Evrópu komið sér saman um. Það er t.d sömu reglur um stærð póstlúga í Evrópusambandinu. Ekki af því að einhver kommisar er með stjórnsemis-þráhyggju, heldur eru staðlaðar stærðir á póstlúgum gott mál. stöðluð umslög passa í staðlaðar lúgur. Þetta eiga sumir erfitt með að skila og telja mikið inngrip inní „frelsi einstaklingsins“ eða „fasíska stjórnsemi“ sem er komin út fyrir allan þjófabálk. Dæmið um bréfalúgurnar má svo yfirfæra á gríðarmargar hluti. Sumt er kjánalegt, annað ekki.

Ef að ESB myndi gera eitthvað sem gengur gegn vilja sænsku þjóðarinnar myndu Svíar einfaldlega segja sig úr samningnum. Punktur – basta. Sama var reyndar ekki upp á teningnum í Sovíetríkjunum þrátt fyrir að margir (andstæðingar ESB) héldu hinu gagnstæða fram.

-En það er önnur saga.

10 comments On Fréttir frá ESB landi.

 • Þegar ég vakna á morganna hugsa ég ekki mikið um það að ég búi á Íslandi og að nú sé upphaf 21. aldarinnar.

  Er þó ekki frá því að daglegur verueikinn sem ég bý við hefði verið töluvert öðruvísi ef ég hefði verið uppi í Kína seint á 14. öld.

 • Skemmtilegur pistill.

  Við hann má bæta þeirri áhugaverðu staðreynd að sömu reglur gilda um stærð og staðsetningu póstlúga á Íslandi og innan ESB. Sjá hér:
  http://www.postur.is/desktopdefault.aspx/tabid-23/
  Hið sama gildir hins vegar um þessar reglur og ótal margar aðrar – nefnilega að við tökum þær upp án þess að fá að hafa áhrif á þær.

  Pétur Maack

 • Við íslendingar þolum ekki svona afskiptasemi og staðlafetish.
  Við viljum geta gert eins og okkur sýnist. Ég á til dæmis tveggjahæða blokkaríbúð sem er með hefðbundnar innstungur á neðrihæðinni og eitthvað ítalskt afbrigði á efri hæðinni sem engin venjuleg kló passar í.

 • „Satt best að segja þá hugsar Johan Svensen ekki mikið um ESB“

  Er það gott eða slæmt?

  Nýlega var verið að hvetja Svía í fjölmiðlum til að kjósa í ESB kosningunum í júni. Vegna þess að stjórnin í Brussel hafi meira forræði yfir daglegri velferð Svía en þeirra eigið þing. Kjörsókn í ESB er tæp 46% þegar kosið er til Evrópuþingsins.

  Ef Johan Svensen væri ekki orðinn svona dofinn fyrir þeirri pólitík sem varðar hann sjálfa, eftir margra ára búsetu í ESB, þá myndi hann kannski hugsa meira um það. A.m.k. núna þegar aðeins eru 6 vikur til kosninga. Þá myndu kannski fleir sjá einhver tilgang í því að kjósa. Sjá eitthvað lýðræði í ESB.

  Við viljum ekki verða eins og Johan Svensen.

 • Ég hef alltaf litið á mig sem miðjumoðara í stjórnmálum en ef efasemdir um gagnsemi ESB-aðildar gera mig að stalínista eða fasista þá verð ég að lifa með því býst ég við. Ég hef aldrei litð á ESB sem arftaka sovét eða þriðja ríkisins. Fólkið sem býr í ESB-löndunum hefur það almennt mjög næs bara og ég efast ekki um það að Íslendingar muni almennt áfram hafa það næs þó að landið gangi í ESB. Ég held bara að sérstaklega til lengri tíma litið henti það landinu betur að standa fyrir utan sambandið. Þau efnahagslegu rök sem færð eru fram til stuðnings ESB eru ósannfærandi og skammsýn og ekki nógu veigamikil til að réttlæta þátttöku í pólitísku samrunaferli þar sem Ísland verður alltaf á jaðrinum. Barnalegar upphrópanir og uppnefningar hafa hingað til ekki megnað að breyta þeirri afstöðu minni.

  Reglur Íslandspóst um stærð og staðsetningu bréfalúga eru reglur Íslandspósts. Fyrirtækið var ekki neytt til þess að taka upp neina ESB staðla, það gerði það af eigin frumkvæði vegna þess að það er til þæginda fyrir alla að þessir hlutir séu staðlaðir. Eins ótrúlegt og það kannski hljómar þá er ekki hægt að rekja allar góðar hugmyndir til Evrópusambandsins.

  kv. Bjarki

 • Það er kannski eitt í viðbót varðandi staðla. Þeir gegna mörgum hlutverkum. Aðallega eru það Öryggis, neytenda, samkeppnis og hagræðingarsjónarmið sem eru rökin fyrir þessum stöðlum. Þið sem eruð með ESB fóbíu veltið fyrir ykkur hvort þið mynduð umhugsunarlaust kaupa barnastól án þess að á honum væri CE merki. Það væri kanski betra að láta hvern einastu tegund barnastóls þurfa að fá úttekt og samþykki hjá eftirlitsaðila á Íslandi með tilheyrandi kostnaði. Ekki má heldur gleyma því að staðlarnir auka samkeppni því að þá er ekki eins auðvelt fyrir ráðandi aðila á markaði að koma sínum staðli að og ná þannig tangarhaldi á markaðnum.

 • Þetta var skemmtileg grein hjá þér Teitur.
  Ég gæti sagt það sama héðan frá Belgíu, hvert land heldur sinni sérstöðu, kostum og göllum og mönnum hættir til að blanda saman skriffinsku Belgú og EU. Hér handskrifa bankastarsmenn enþá alla pappíra, þegar tekið er út eða lagt inn!
  Þetta er sér belgískt fyrirbæri og í anda þess þegar verkamenn til sveita Englands réðust á landbúnaðarvélar í upphafi iðnbyltingarinnar vegna hræðslu við að verða atvinnulausir.
  Hver þjóð heldur sínum sérkennum og umræða adstæðinga ESB minnir mig einna helst á samtökin ,Bændur gegn síma’ sem stóðu í svona svipuðu stappi í upphafi tuttugustu aldar.

  Skábróðir þinn í Belgíu.

 • Þeir sem eru á móti ESB eru líka á móti öllu öðru. Svoleiðis fólk hefur alltof mikð vægi í pólitískri umræðu á Íslandi. Hvernig væri t.d. umhorfs í heiminum ef Hitler væri ennþá lifandi! En ESB stöðvaði þá þróun og kom böndum á þýsku stríðsvélina með leiftur snöggu vinstrihandar höggi. Bamm, Búmm og Hitler var rotaður. ESB er líka leiðandi í heiminum á sviði skynsemi og góðra mannasiða. T.d. er allt fólk í ESB löndum kurteisara en landar þess í USA og Kína. Þessari staðreynd er reyndar ekki haldið á lofti í andfélagslegum fjölmiðlum á Íslandi. Sem allir sem einn eru á móti ESB á tæknilegum forsendum. En innganga í ESB er ekki spurning um tæknilegar vangaveltur heldur skynsemi og hrein hagræn viskurök. Við verðum að láta hjartað ráða og kjósa ESB eða dauðan. Ekkert þar á milli kemur til greina.

 • Fínn pistill.
  Skemmtilegt að þú komir inn á samlíkinguna við Sovétríkin.
  Mín kenning er nefnilega sú að ein af ástæðunum fyrir því að þau liðuðust sundur hafi verið að valdakeðjan hafi verið orðin of löng. Ákvarðanirnar voru teknar of langt í burtu frá hinum almenna borgara. Ég spái því að þetta verði líka ESB að falli.

  Væru Svíar að lækka vexti ef þeir væru með Evru? Bara hugleiðing…

  Bjarki: reglurnar um bréfalúgur eru ekki bara „reglur Íslandspósts“. Þetta er í byggingarreglugerð og eitt af þeim atriðum sem athugað er á teikningum áður en embætti byggingarfulltrúa gefur út byggingarleyfi. Hvort þetta er í byggingarreglugerð vegna evróputilskipunar eða ekki veit ég ekki en ég þekki arkitekta sem bölva þessu hástöfum og hafa íhugað alvarlega að setja póstkassa utan á ný einbýlishús.

  jens

 • En, en, en ESB bannar svíum að flytja út snusið sitt! Ekkert annap en rakið kommúnistavald!

Comments are closed.

Site Footer