FLÓTTAMAÐUR

Í gær kom athugasemd á bloggið mitt sem ég hef séð áður og fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér.  Athugasemdarskrifarar segja ekkert að marka mig því ég sé „landflótta“.


Nú er það svo að svona hugsunarháttur er meinlega afhjúpandi fyrir viðkomandi, því hann er allt í senn, gegnumrangur, byggður á fordómum og síðast en ekki síst, mannfjandsamlegur.  Gefum okkur að þessi hafi haft rétt fyrir sér og að ég sé „landflótta“.

-Gefum okkur það.

Er það svo slæmt?  Á ég að hanga á Íslandi í atvinnuleysi með 3 börn á framfæri?  Það er fjöldinn allur af „landflótta“ íslendingum út um allt.  Sérstaklega í Noregi og hér í Svíþjóð.  Höfum við framið erfðasynd?  Megum við ekki hafa skoðanir á samfélagsmálum á Íslandi?  Ég er fæddur með þeim ósköpum að langa alltaf heim.  Ísland er landið mitt og þar vil ég vera og þar vil ég lifa og deyja.  Ísland er í huga mér hvar sem ég fer. Mér sárnar að vera kallaður „flóttamaður“ þegar ég skipti mér af umræðunni á Íslandi.  Ég hef raunverulegar áhyggjur af framtíðinni sér í lagi kosningunum á laugardaginn.  Þetta verða mikilvægustu kosningar sem ég mun taka þátt í.  Verði svarið Já, gæti borðið snúist okkur í hag.  Ef nei, heldur það áfram að snúast með tilheyrandi kostnaði, svima og höfuðverk.

Margir Íslendingar búa erlendis um lengri eða skemmri tíma.  Ég held að bara í Svíþjóð séu að staðaldri 8000 Íslendingar!  Það er helmingi fleiri en búa á Ísafirði.

Við erum ekki flóttamenn.  -Við erum Íslendingar.

Site Footer