FALSKA FLAGGIÐ VERÐUR AÐ HVERFA – NIÐUR MEÐ DYFLINARREGLUGERÐINA

Nú um stundir erum við að upplifa mesta flóttamannastraum frá lokum seinni heimsstyrjaldar.  Allt byrjaði þetta á frekar tilviljanakenndan hátt því þetta var aldrei meiningin til að byrja með.  Nasistar höfðu reyndar þann háttinn á að ofsækja kerfisbundið gyðinga hvar sem þeir gátu. Þetta fór þannig fram að lýðréttindi þeirra voru smám saman tekin af þeim og þegar gyðingar höfðu nánast engan lagalegan rétt á vernd, þá kom tilkynning um að þeir mættu drífa sig burtu.  Hundruð þúsunda gyðinga lögðu land undir fót og flúðu morðvargana.   Sumir voru reyndar óheppnir að leita hælis í löndum sem seinna urðu hernumin af nasistum og lentu því aftur í klóm þeirra.  Aðrir sluppu til Englands eða Bandaríkjanna. Sumir til Palestínu og nokkrir döguðu uppi á Íslandi.

Saga þeirra er smánarblettur á okkar sögu því kynslóðin sem þá var og hét, vildi ekki sjá neina gyðinga.

Það var nefnilega svo mikið gyðingavandamál.  Gyðingar voru álitnir smitberar ógeðslegra sjúkdóma og samskipti við þá voru talin heilsuspillandi svo ekki sé talað um „blóðmengunina“ sem myndi óhjákvæmilega koma ef þeim yrði veitt hæli undan morðvél nasistanna.  Eins sorglegt og það kann að hljóma stendur okkar kynslóð frammi fyrir áþekkum áskorunum.  Margir telja flóttafólk vera smitbera og hugtrylltan sjálfsmyrðandi lýð sem engu hlífir.  Þetta er alveg skelfilega heimskuleg afstaða því flóttafólkið sem hér um ræðir er einmitt að flýja hugtrylltan sjálfsmyrðandi lýð sem engu hlífir

En það er víst þannig með heimskuna og systur hennar grimmdina, að þegar þær hefja upp söng sinn, heillast fávitarnir.

Helsta afsökun fyrir því að hinga fái að setjast flóttafólk er hin illræmda Dyflinarreglugerð.  Sú gengur út á að heimilt er fyrir ríki að senda til baka flóttafólk þangað sem það kom fyrst. Þetta þýðir að öllu flóttafólki sem hingað leitar eru allar bjargir bannaðar kjósi stjórnvöld að vísa í Dyflinarreglugerðina.  Svo rammt kveður að þessu að stjórnvöld og Útlendingastofnun voga sér að halda því fram að þau séu bundin Dyflinarreglugerðinni og ekkert sé hægt að gera fyrir fólk sem hingað leitar með blóðugt hjarta í von um gæsku okkar og góðvild.

Þetta er skammarlegt yfirvarp því stjórnvöldum er í lófa lagið að líta framhjá Dyflinarreglugerðinni og taka hvert mál upp til meðferðar.  Það er ömurlegt til þess að hugsa að stjórnvöld noti Dyflinarreglugerðina sem Skálkaskjól fyrir fávísi sína, ótta og fordóma.

Á fimmtudaginn 3. desember stendur félagsskapurinn No Borders fyrir mótmælum fyrir utan Útlendingastofnun þar sem vakin er athygli á illgirni þessa kerfis og hugleysandi afstöðu stjórnvalda í málefnum flóttafólks.  Eimreiðin hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á svæðið og mótmæla þessari ósvinnu.

Hérna er Facebooksíða viðburðarins

Höfum í huga ömurlega frammistððu fyrri kynslóðar sem stóð fyrir framan sama vandamál og gerði ekkert nema að horfa í gaupnir sér eins og fávitar meðan fólk sem hingað leitaði hvarf inn í morðvélina.

Stöndum upp.  Stöndum saman og réttum af hið ranga.

Site Footer