RIGNINGARDAGUR

Þetta hefur verið hektískur dagur.  Málshöfðun Gunnlaugs M Sigmundssonar á hendur mér hljóp einhvern veginn í fjölmiðla og málið ruddist af stað.  Eins og ég sagði þá átti ég samt von á þessu en hélt að þetta myndi ekki fara af stað fyrr en eftir 28. júní.  Ég var eignilega að vona einhvers staðar að þetta myndi leysast öðruvísi.

En það er víst orðið of seint héðan í frá.

DV hafði samband við mig í morgun og ég fór í stutt viðtal.  Eins og staðan var akkúrat þá var best að segja sem minnst.  Ég var ekki búin að tala við lögfræðinginn minn sem var steinsofandi einhvers staðar í Kaliforníu enda mið nótt þar um slóðir.

Þetta er samt alveg óendanlega erfitt einhvern veginn.  Ég óskaði eftir aðstoð og ábendingum varðandi Kögunarmálið frá lesendum og viti menn.  Einn benti mér á þessa grein sem mér hafði yfirsést og segja má að þarna hafi síðasta púsluspilið passað við myndina.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að kynna sér Kögunarmálið.  Það er urmull af efni um það í gagnasafni Moggans og sömuleiðis á timarit.is.  Lykilgrein er sennilega grein Agnesar Bragadóttur sem birtist þann 10 maí 1998 í sunnudagsmogganum.  Málið virðist nokkuð snúið en í rauninni einfalt þegar maður skilur samhengið.

Ég setti upp þessi leitarskilyrði:

Ég fékk 128 greinar.

Mér sýnist að Mogginn hafi staðið sig drullu vel í þessu máli og ég man vel eftir „sensasjóninni“ út af grein Agnesar í Mogganum.  Ég hef verið 26 ára og ég man hvað ég var hissa þegar ég las þessa frétt. Gat það virkilega verið að einhver væri að sölsa undir sig eigur ríkisins.  Eigur okkar allra og afrakstur skattpeninga samfélagsins?

Ég man að ég hugsaði að þetta væri svipað og að einhver famelía myndi allt í einu eignast alla ljósastaura á landinu og leigja þá út aftur til ríkisins eins ekkert væri sjálfsagðara.

Lítið vissi ég þá um hvernig hlutirnir áttu eftir að þróast.

En dagurinn var fallegur og sumarið er sannarlega komið til Gautaborgar.  Eftir að Ingunn var komin heim og ég hafði eldað kjúkling á skipstjóragrillinu mínu, skellti ég mér út að hlaupa.  Ég hef ekkert hlaupið síðan ég hljóð „Varvið“ (hálfmaraþon hér í borginni) þar bætti ég mig síðan síðast um hálftíma og geri aðrir betur.

Það er svo gott við hlaupin að maður hreinsar hugann einhvern veginn.  Ég fór aðeins yfir málið í huganum og svo komu alls konar hugsanir eins og fyrir tilviljanir.  Eitthvað flæði kemur og maður verður allt og ekkert nema skref eftir skref eftir skref.

Ég hugsaði um hvernig best væri að tækla birtingu þessara lögfræðiskjala sem mér hafa borist. Gæti ég skaðað mál mitt með birtingu þeirra og hvernig þá?  Á einu þeirra biður Gunnlaugur mig að skrifa undir eitthvað og birta á blogginu minu.  Er ekki við hæfi að birta þetta bara óundirritað?  Svo fór ég að hugsa um DV þau vilja fá mig í viðtal eða gera fréttaskýringu um málið.  Hvað má ég segja og hvernig? Þarf ég virkilega að ritskoða allt sem ég segi héðan í frá?  Svo fór ég að hugsa um dóttur mina sem er nýorðin 13 ára.  Og ömmu mína.  -Ég hugsa oft um hana.  Ég man eins og það væri í gær að húðin á höndunum hennar var þunn eins og pappír.  Ég gat horft endalaust á þessar æðaberu hendur, strokið þeim og haldið.  Svo kom einhver minning um þegar ég var að hlaupa á Álfsborgarbrúnni.  Ég var að æfa mig fyrir Varfið og það var helli demba.  Ég fann ekki fyrir þreytu og fylltist einhverri óræðri gleði að vera að hlaupa og vera ég.  Vera maðurinn sem hleypur í rigningu í stað þess sem er alltaf inni, reykir og hangir í tölvunni.  Ég fann mig einhvern veginn alveg ótrúlega í núinu á þessari brú og hugsaði hvort þetta væri dagurinn minn.  Rigningardagur sem ég horfði í gegnum, upp í himininn og framhjá þessum risavöxnu stólpum.

Sumir fá sumardaga, aðrir léttskýaða með þæglilegri golu.  Kannski er dagurinn minn bara rigningardagur.

Ég ætla að minnsta kosti að reyna að gera hann góðan.

 

Site Footer